13.05.1957
Efri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

157. mál, Háskóli Íslands

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Brtt. menntmn. á þskj. 502 tel ég í öllu verulegu til bóta. Er mjög eðlilegt, að þeim þrem frv., sem samtímis voru lögð fram í þessari hv. d. og öll snerta háskólann beint, verði komið fyrir í einu frv. til laga um Háskóla Íslands.

Nokkurs tvímælis getur nýyrðið lyfefnafræði orkað, en það á að koma í stað lyfsölufræði. Orðið lyfefnafræði segir í rauninni ekkert og getur því misskilizt, en þá galla hafði orðið lyfsölufræði þó ekki. Meðlimir Lyfjafræðingafélags Íslands eru óánægðir með heitið lyfsölufræði og verði líklega jafnóánægðir með nýyrðið, og hvar er þá vinningurinn við umskiptin?

Á þskj. 503 flytja þeir brtt., hv. þm. Barð. og hv. þm. Ak. Tel ég hana þarfa umbót og mun greiða henni atkv.

Við fyrri hluta þessarar umr. andmælti hæstv. menntmrh. brtt. mínum á þskj. 507. Gerði hann það prúðmannlega, eins og hans var von. En mér fannst gæta öðru hvoru slæmrar samvizku í málflutningi hans, þótt þar kunni mér að skjátlast. Ég get hugsað mér, að hæstv. ráðh. eigi óhægt um vik í þessu máli. Hann vill ekki aðeins reynast sjálfum háskólanum hið bezta, heldur líka starfsbræðrum sínum þar, prófessorunum, en hvort tveggja er lofsvert. En vandinn er, að velferð háskóla og óskir prófessora geta, ef óheppnin er með, orðið sitt hvort, tekið að stangast á, og þá verður óhægt um vik, því að illt er tveim herrum að þjóna.

Um eitt atriði í andmælum hæstv. ráðh. vil ég fara örfáum orðum. Hann taldi það misskilning minn, að kosningarréttur kennara innan háskólans væri með frv. þrengdur frá því sem nú er.

Þegar ég gerði grein fyrir till. mínum, benti ég m.a. á, að skv. gildandi lögum væri rektor kosinn af prófessorum og dósentum skólans, en að í frv. væri ráðgert, að einungis prófessorar yrðu framvegis þeirrar náðar aðnjótandi. Þessari staðreynd mótmælti ekki hæstv. ráðh., heldur gerði hann grein fyrir, hvers vegna þessi breyting væri gerð á kosningarréttinum, og fór þar algerlega með rétt mál. Það verða ekki gerðar jafnstrangar kröfur um verðleika dósenta og áður, og við það þokast þeir niður um eitt þrep í mannvirðingarstiga háskólans. Þess vegna skulu verðandi dósentar ekki hafa þann rétt, sem fyrri dósentar höfðu, að mega taka þátt í kosningu rektors. Sumum kann að finnast þessi skerðing á kosningarrétti réttlætanleg, en öðrum ekki.

Hæstv. ráðh. hljóp yfir hitt dæmið, sem ég nefndi því til sönnunar, að verið væri að þrengja kosningarrétt innan háskólans. Skv. gildandi lögum eiga allir kennarar hverrar deildar sæti á deildarfundum og atkvæðisrétt. „Allir deildarkennarar eiga atkv. um kjör deildarforseta,“ segir þar orðrétt, en deildarforseti er sjálfkjörinn í háskólaráð.

Í frv. er þessari ívitnuðu setningu sleppt, og þar er raunar tekið fram, að á deildarfundum eigi ekki sæti aðrir kennarar en prófessorar, þótt deild sé að vísu heimilað að taka dósenta og lektora með. Afturhvarfið er augljóst: áður allír deildarkennarar, nú aðeins prófessorar.

Mér þótti vænt um að heyra hæstv. ráðh. lofa því, að ekki skyldi stúdentum melnaður aðgangur að háskólanum, á meðan hann fengi við ráðið. Þess átti ég líka von af honum. En á hinu furðar mig, að hann skuli þora að fela valdið til þess fámennu og tiltölulega einlitu háskólaráði. Með lögum er háskólaráði veitt heimild til að takmarka aðgang að deildum skólans. Það getur þess vegna gert það, ef því sýnist, og þarf hvorki að spyrja kóng né prest.

Að lokum vil ég láta í ljós þá von, að enginn líti á orð mín um háskólafrumvarpið sem fjandskap við sjálfan skólann, því að honum þykist ég vilja vel. Það er einmitt í hans þágu, sem ég geri nokkrar aths. við frv. Mér þykir í því gengið hættulega langt í þá átt að einangra skólann og losa hann úr tengslum við straumiðu þjóðlífsins.

Ég heyrði sagt,að háskólaráð hefði viljað ganga enn lengra í þessa átt en gert er þó í frv. og heimtað allt vald til embættaveitinga innan skólans á sínar hendur. Mér þótti þetta ótrúleg saga, en fæ hana nú staðfesta á þskj. 523 í brtt. Get ég þá fyllilega tekið undir orð þess, sem mér sagði tíðindin fyrstur, er hann spurði: Skyldu þeir ætla með háskólann út í hafsauga?