13.05.1957
Efri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

157. mál, Háskóli Íslands

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Á þskj. 523 flytjum við hv. 2. þm. Árn. þrjár brtt. Þær eru allar fluttar samkv. óskum háskólaráðs einróma. Háskólaráð lét undirbúa þetta frv., sem hér liggur fyrir, og var undirbúningur þess hinn vandaðasti. Áður en málið væri flutt fyrir Alþingi, breytti hæstv. ríkisstj. eða hæstv. menntmrh. nokkrum atriðum frá því, sem undirbúningsnefnd og háskólaráð höfðu lagt einróma til. Brtt. á þskj. 523 fela í sér að færa þrjú atriði aftur í það horf, sem háskólinn hafði lagt til.

1. brtt. er við 7. gr., um skipun háskólaritara. Háskólinn hafði lagt til, að menntmrh. skyldi skipa háskólaritara skv. tillögum háskólaráðs, sem þýðir það, að ráðherrann sé bundinn við þá uppástungu, sem háskólaráð gerir. Hæstv. ráðh. breytti þessu í frv., sem hér liggur fyrir, á þá lund, að ráðherra skyldi skipa ritara við háskólann að fengnum tillögum háskólaráðs, m.ö.o.: háskólaráð á að gera tillögur, en ráðherra er alveg frjáls og óbundinn um valið.

Þessar till. háskólans eru góðum rökum studdar. Háskólaritari er fyrst og fremst náinn samstarfsmaður og trúnaðarmaður háskólaráðs og því mjög eðlilegt, að það óski þess að ráða að mestu um, hvaða maður velst til þess starfs.

2. brtt. er við 11. gr. Hún er um það, að menntmrh. skipi dósenta samkv. tillögu háskóladeildar. Að efni til er þetta hið sama og í fyrri brtt., að raunverulega sé á valdi háskóladeildarinnar, hverjir veljast til dósentsstarfa, þó að ráðherra hafi hið formlega veitingarvald.

Í grg, sinni um þetta atriði segir háskólaráð, að það telji mikilsvirði, að deildirnar sjálfar ráði því, hverjir séu skipaðir dósentar, svo sem stöðum dósenta er farið skv. frv. Enn fremur er vakin athygli á því, að dósentsstaða verði að sjálfsögðu ekki stofnuð skv. frv., nema samþykki menntmrh. komi til.

Báðar þessar till. virðast okkur flm. eðlilegar og æskilegar, og er efni þeirra að færa frv. í það horf, sem háskólinn gekk frá því, áður en hæstv. ráðh. breytti þessum atriðum.

Ég skal til skýringar taka fram, að það er mjög algengt í íslenzkum lögum, að ráðherra skuli leita tillagna vissra aðila, áður en hann skipar í embætti eða gerir einhverjar stjórnarráðstafanir. Ef þetta er orðað svo í lögum, að ráðherra skuli gera þetta og þetta að fengnum tillögum einhvers aðila, þá er skylt að leita þeirra tillagna, en ráðherra er óbundinn að fylgja þeim. Hins vegar eru þess nokkur dæmi einnig í íslenzkum lögum, að ráðherra skuli framkvæma einhverjar ráðstafanir samkv. tillögum einhvers aðila eða eftir uppástungu einhvers aðila, og þá hafa dómstólar litið svo á og lögskýrendur, að þá væri ráðherra bundinn við þá uppástungu, sem hinn umræddi aðill gerir. Sem dæmi vil ég nefna, að í lögum um embætti háskólabókavarðar er svo kveðið á, að menntmrh. skipi í það starf skv. tillögum háskólaráðs. Einnig má geta þess, að í tilskipun um bæjarmálefni Reykjavíkurbæjar er svo ákveðið, að bæjarstjórn skipi lögregluþjóna eftir uppástungu lögreglustjóra, sem hefur verið skilið þannig einnig af dómstólum, að bæjarstjórn sé bundin við þær uppástungur, sem lögreglustjóri gerir. Þannig mætti nefna nokkur fleiri dæmi, þannig að þessar brtt., sem við flytjum á þskj. 523, eru engan veginn einsdæmi í íslenzkum lögum, fjarri því.

3. brtt., töluliður 2. b, er þó miklu þýðingarmeiri en þessar tvær, sem ég nú hef nefnt, og varðar sjálfar reglurnar um val prófessora eða kennara við háskólann. Þar komum við að atriði, sem virðist vera mikill skoðanamunur um, eins og greinilega hefur komið fram í brtt. og ræðum hv. 1. landsk. þm.

Það er óhætt að fullyrða, að það er nærri undantekningarlaus regla í lýðræðislöndum, að embættaveitingar við ríkisháskóla eru í höndum þeirra sjálfra. Það er viðurkennd regla við ríkisháskóla í lýðræðislöndum, að háskólarnir eigi að ráða sem allra mestu sjálfir um val starfsmanna sinna og að veitingarvaldið sé aðeins að forminu til í höndum ráðherra. Þessi hefur þróunin víðast hvar orðið. Ástæðurnar eru augljósar, og þyrfti í rauninni ekki langt mál til að rökstyðja það. Þessi háttur er hafður vegna þess, að hann þykir tryggja bezt, að hinir hæfustu menn veljist til vísindastarfa og kennaraembætta við háskólana. Það þykja meiri líkur til þess, meiri trygging, að vísindamennirnir, fræðimennirnir sjálfir og þeirra ráðunautar, sem til eru kvaddir sem dómnefndarmenu eða á annan hátt, felli fræðilegan, vísindalegan, óhlutdrægan dóm um, hver umsækjendanna sé hæfastur, heldur en að pólitískur ráðherra hafi það algerlega í sinni hendi. Í rauninni þarf ekki mikils rökstuðnings við fyrir því.

Nú er svo samkv. gildandi lögum og reglugerð, eins og segir í 11. gr. þessa frv., að þegar laust er kennaraembætti við háskólann, skal það auglýst til umsóknar, og skipuð skal dómnefnd fræðimanna til þess að skera úr um, hver sé hæfastur. Reglan er svo sú, að ráðherra er heimilt að velja hvern sem er af þeim, sem dómnefnd hefur talið hæfa til að gegna embættinu. Þó að hins vegar dómnefnd og háskóladeild telji, að einhver þessara manna sé langsamlega hæfastur, beri af um þekkingu og gáfur, þá er ráðherra ekki skylt að veita þeim manni, heldur getur valið hvern sem er af umsækjendum, ef dómnefndin hefur á annað borð talið hann hæfan til þess.

Háskólinn hefur að athuguðu máli gert tillögur um það í þessu sambandi, að hér yrði breyting á gerð, þó ekki þannig, að ráðherra væri jafnan bundinn við uppástungur og tillögur háskólans. Svo langt hefur háskólaráð ekki, a.m.k. á þessu stigi, viljað ganga. En það hefur lagt það til, að ef dómnefnd sé einróma um að telja einhvern umsækjanda hæfastan og meiri hluti háskóladeildarinnar leggur til, að sá maður sé skipaður, þá sé ráðherra skylt að gera það.

Mér þykir mjög miður farið, að hæstv. menntmrh. skuli hafa talið ástæðu til að rýra þannig vald háskólans eða áhrif hans í þessu efni frá því, sem háskólinn sjálfur lagði til. Brtt. okkar á þskj. 523, töluliður 2. b, fer í þá átt að taka upp það ákvæði í þessu efni, sem háskólinn hafði sjálfur lagt til, og það er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það, hvort af vísindagildi rita umsækjanda og rannsókna svo og námsferli hans og störfum megi ráða, að hann sé hæfur til að gegna embættinu. Enn fremur skal dómnefnd skipa umsækjendum í röð eftir hæfni.“ — Þetta hefur hæstv. ráðherra fellt niður. — „Álitsgerð dómnefndar skal skila í hendur forseta hlutaðeigandi háskóladeildar, og lætur deildin uppi rökstutt álit sitt á því, hvern umsækjanda hún telur hæfastan. Engan má skipa prófessor, nema meiri hluti dómnefndar hafi talið hann hæfan til að gegna embættinu. Nú er meiri hluti atkvæðisbærra deildarmanna sammála um að leggja til, að tiltekinn umsækjandi, sem dómnefnd hefur einróma talið hæfastan, verði skipaður í embættið, og er þá skylt að skipa hann.“ — Þetta niðurlag hefur hæstv. ráðherra líka fellt niður úr frv. frá tillögum háskólans.

Í grg. háskólaráðs fyrir þessu ákvæði segir svo m.a.:

„Ef þetta ákvæði nær fram að ganga, er afskiptaréttur háskólans af vali kennara aukinn til nokkurra muna, en ólíklegt er, að menntmrh. hafi fræðilegar forsendur til að endurmeta hæfni umsækjenda, þegar svo er, að dómnefnd er einhuga í áliti sínu og það álit er stutt af atkvæði meiri hluta deildarmanna.“

Síðan segir háskólaráð, um leið og það vekur athygli menntmn. Ed. á þessum efnismun, sem er á frv. ríkisstj. og frv. nefndarinnar, og lætur í ljós þá skoðun, að till. nefndarinnar, þ.e. háskólans, séu æskilegri en ákvæði þau, sem í frv. felast.

Hv. 1. landsk. þm. taldi það furðu gegna í ræðu sinni hér áðan, að háskólinn skyldi leyfa sér að gera slíkar tillögur og að þær skyldu vera fluttar inn í þingið af okkur hv. 2. þm. Árn. Mig furðar nokkuð á þessum ummælum hv. þm., því að ég hefði gert ráð fyrir, að maður með hans greind og menntun vissi það, eins og ég tók fram áðan, að í lýðræðislöndum er þetta talin sjálfsögð, nær undantekningarlaus regla, að hið raunverulega veitingarvald sé í höndum háskólanna sjálfra og sérfræðinga þeirra, en að forminu til í höndum ráðherra. Það, sem hér er farið fram á, er aðeins að lögfesta það að nokkru leyti, að skólinn skuli hafa slíkt vald, þó ekki óskorað, eins og ég gat um, en a.m.k. ef dómnefnd er einróma í sínu áliti um það að telja einn umsækjanda hæfastan og meiri hluti deildarmanna hlutaðeigandi háskóladeildar er á sama máli, þá sé skylt að skipa hann.

Ég vænti þess, að þessar tillögur, sem eru algerlega í samræmi við og eftir óskum háskólaráðs, án nokkurs ágreinings þar, nái samþykki í þessari hv. deild.