13.05.1957
Efri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

157. mál, Háskóli Íslands

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði í ræðu hæstv. menntmrh., sem mér þykir rétt að skýra nokkru nánar, vegna þess að sumar hans upplýsingar gáfu ekki rétta mynd af málinn, eins og það liggur fyrir.

Hann minntist á það, að Magnús Jónsson prófessor, sem var menntmrh. 1942, hafi staðfest þá reglugerð um embættaveitingar við háskólann, sem síðan hefur verið í gildi og tekin sé upp óbreytt í þetta frv. Þetta er rétt.

Hann segir, að þeir ráðherrar, sem hafi verið menntmrh. síðan, hafi ekki hreyft þessu máli. Síðan hafa verið menntamálaráðherrar Einar Arnórsson, Brynjólfur Bjarnason, Eysteinn Jónsson, Bjarni Benediktsson og Björn Ólafsson. Það er rétt. En mér er ekki kunnugt um, að háskólinn hafi óskað eftir því við neinn þessara ráðherra, að gerðar yrðu á þessu breytingar eða sett inn í lög það, sem nú er um deilt. Það er í fyrsta skipti nú síðan 1942, sem háskólinn fer fram á það við ríkisstj. eða hæstv menntmrh., að flutt sé frv. með þessum ákvæðum, sem tryggja betur en nú er sjálfræði og ákvörðunarvald háskólans í þessu. Og þótt undarlegt sé og sorglegt, vil ég segja, þá er það hæstv. núv. menntmrh., sem er fyrsti ráðh. síðan 1942, sem neitar að verða við fram bornum óskum háskólans í þessu efni.

Hæstv. ráðh. segir, að það hafi orðið samkomulag milli sín eða rn. og háskólans um þau ákvæði, sem nú eru í frv. Þetta er ekki alls kostar rétt. Eftir að frv. var lagt fyrir Alþingi, ítrekar háskólaráð óskir sínar við menntmn. Ed. Það kemur skýrt fram, að háskólaráð óskar eftir því, að sú skipun, sem það lagði til, verði fremur upp tekin, hún sé æskilegri en sú, sem hæstv. ráðh. lagði til.

Hitt, þegar háskólaráð lýsir því svo yfir í síðara bréfi, að ef hætta yrði á, að frv. stöðvaðist vegna þessa ágreinings, vill það heldur fá frv. í gegn með ákvæðinu, eins og það var frá hæstv. ráðh., að túlka þetta sem samkomulag eða samþykki á því, að háskólinn sé orðinn sammála um, að þetta sé hið bezta skipulag, sem ráðherrann leggur til, er náttúrlega ekki rétt með farið.

Í rauninni liggur málið þannig fyrir, að háskólinn óskar eftir þessari skipan, sem við 2. þm. Árn. höfum nú lagt til. Ráðh. segir, að hann treysti sér ekki til að leggja það fyrir þingið, vegna þess að hann búist við að það valdi svo miklum ágreiningi. Þá svarar háskólaráð því: Ef um það tvennt er að ræða, annaðhvort að frv. stöðvist eða það gangi í gegn eins og hæstv. ráðh. leggur til, þá viljum við þó heldur það síðara. — Finnst mér heldur hæpin útlegging að skýra þetta sem efnislegt samkomulag við háskólaráð.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvað hefur hann fyrir sér í því, að frv. væri teflt í nokkra tvísýnu hér í þinginu, þó að farið hefði verið að óskum háskólans um ákvæði 11. gr.? Ætlar hæstv. ráðh. að halda því fram, að meiri hl. þingmanna hefði heldur viljað stöðva frv. en að fá inn í það ákvæði eftir óskum háskólans um, að skylt sé að skipa mann, sem dómnefnd hefur einróma talið hæfastan og meiri hluti háskóladeildar líka?

Ég verð að segja, að mér finnst þetta ákaflega mikið og furðulegt vantraust á hv. alþm., að ráðherra skuli ætla þeim slíkt. Mér kemur ekki til hugar, að frv. hefði verið teflt í nokkra tvísýnu í þingi, þó að fylgt hefði verið óskum háskólans í þessu efni.

Hæstv. ráðh. tók hér svo upp og taldi fram höfuðrök fyrir því, að háskóli ætti yfirleitt ekki að hafa hið raunverulega veitingarvald, og mér kemur sannast sagna hans málflutningur í þessu nokkuð á óvart, eftir að hann hefur um margra ára skeið sjálfur starfað við háskólann, og framlagning hans á þessu frv. eða breyting frá óskum háskólans og málflutningur hans hér gengur í rauninni alveg í berhögg við þær skoðanir, sem ég hafði haldið að prófessorar háskólans væru nokkurn veginn einhuga um. Ég hélt, að hæstv. ráðh., meðan hann var við háskólann, hafi einnig verið á einu og sama máli um það.

Þau rök, sem hér eru talin fram um það, að hinn pólitíski ráðherra verði alltaf að ráða þessu endanlega, eru einmitt rökin, sem vitanlega eru drýgst og þyngst á metunum, þar sem lýðræði ríkir ekki. Þar sem lýðræði ríkir ekki er náttúrlega farið eftir pólitískum linum við veitingar, en ekki fyrst og fremst eftir hæfni. En ef það á að vera einhver goðgá að auka sjálfsákvörðunarrétt háskólans í þessu efni, eins og háskólinn hefur lagt til. — og hæstv. ráðh. virtist telja það eiginlega fráleitt í lýðræðislandi með pólitíska ráðherra, — ja, hvað er þá um öll þessi lýðræðislönd í Evrópu og Ameríku, þar sem þetta þykir sjálfsögð regla og eins og ég gat um nær undantekningarlaus, að háskólarnir hafi hið raunverulega vald í þessum efnum?