13.05.1957
Efri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

157. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að leiðrétta niðurlagsorðin í ræðu hv. þm. Hann sagði, að í nágrannalöndum, lýðræðislöndum, þætti það sjálfsögð regla að hafa þá skipun, sem getið er um í brtt. hans og annars hv. þm. Þetta er alger misskilningur. Það er einmitt í öllum lýðræðislöndum sú regla, að hið endanlega vald er í höndum hins pólitíska ráðherra.

Ég þekki ekkert dæmi þess og hef þó aflað mér um það upplýsinga og þætti vænt um, ef hann gæti nefnt það úr löggjöf nokkurs nágrannalands, að veitingarvald ráðh. sé bundið af úrskurði nokkurs háskóla, nokkurra háskóladeilda eða nokkurrar dómnefndar. Það er ekki til, það fullyrði ég.

Það, sem hann á líklega við með ummælum sínum, er það, að yfirleitt þykir sjálfsagt að fara eftir till., — till., segi ég, því að það eru till. einar, — eftir till. háskóla og ýmissa annarra hliðstæðra stofnana við veitingu embætta.

Það tel ég líka sjálfsagt hér, og það hefur verið þannig síðan núverandi skipun var tekin upp, að embættaveitingarnar hafa verið með þeim hætti, að ekki hefur valdið ágreiningi. Það, sem hér er verið að leggja til í brtt. á þskj. 523, er að taka upp skipan, sem bindur vald ráðherra, og það er skipan, sem engin dæmi eru til um í nágrannalöndum. Þætti mér mjög vænt um að heyra, ef þetta er misskilningur hjá mér, að fá um það alveg glöggar upplýsingar. Ég veit raunar, að það er ekki.

Sú regla, sem hv. þm. sagði að væri sjálfsögð, að hafa hið raunverulega veitingarvald í höndum háskólans og annarra hliðstæðra stofnana, byggist á því, að veitingarvaldið telur rétt að fara eftir þeim till., og á því einu. Hér er því engan veginn um það að ræða, hvort pólitískar línur eigi að ráða við veitingu embætta eða hæfni. Hæfni getur að sjálfsögðu nákvæmlega jafnt ráðið, þó að hið endanlega vald sé í höndum ráðherra, og á að ráða. Það er mín skoðun. En það styður auðvitað engan veginn að því, að gera eigi slíka grundvallarbreytingu á stjórnlögum sem í því mundi felast að binda veitingarvald ráðherra um veitingu jafnmikilvægra embætta og hér er um að ræða, því að yrði þetta gert hér, má geta nærri, að þetta yrði ekki bundið við háskólann einan, heldur mundi verða fært út á fleiri og fleiri svið og til fleiri og fleiri stofnana, þannig að stofnanirnar, hinar einstöku stofnanir í þjóðfélaginu, yrðu meira og minna fjarlægðar og kæmust þannig undan hinu pólitíska eftirliti sjálfra hinna lýðræðislegu stjórnarvalda, sem eru einn af hyrningarsteinum lýðræðisþjóðfélagsins.

Þessi skoðun, sem ég hef lýst í ræðu minni áðan og endurtek nú, er fjarri því að vera nokkur einkaskoðun mín. Hún virðist hafa verið skoðun beggja þeirra flokksmanna hv. 6. þm. Reykv., sem gegnt hafa menntamálaráðherraembætti næst á undan mér. — Ég bið afsökunar á því, því að mín ætlun var sú að nefna einvörðungu flokksmenn hv. 6. þm. Reykv., sem gegnt hafa menntamálaráðherraembætti síðan Magnús Jónsson gegndi því vorið 1942, en tveir annarra flokka menn hafa auk þess gegnt því og svo einn maður í utanþingsstjórn, eins og þm. tók alveg réttilega fram í sinni ræðu. — En þegar um eins mikilvægt atriði og þetta er að ræða og annar þessara fyrrverandi menntmrh. hefur einnig verið kennari við háskólann eins og ég, og er því hnútum þar auðvitað jafnkunnugur, þá verð ég að líta þannig á, að hann sé á sömu skoðun og ég um þetta efni, fyrst hann í menntamálaráðherratíð sinni beitti sér aldrei fyrir því, að breyting yrði gerð í svipaða átt og nú kemur fram í brtt. á þskj. 523.

Hv. þm. sagði, að mér hlyti að vera kunnugt frá mínum starfsárum í háskólanum, hver væri skoðun meiri hluta manna þar í þessu efni, eins og hún birtist í áliti háskólaráðsins. Hv. fyrrverandi menntmrh. hlýtur að hafa verið það nákvæmlega jafnkunnugt og mér. Hafi hann haft þá skoðun á efni málsins, sem fram kemur í till. á þskj. 523, átti hann að beita sér fyrir því, að þessi skipan yrði tekin upp, og það því fremur sem sú skipan, sem nú er, er eingöngu reglugerðaratriði. Hann hefði getað gert það með breytingu á reglugerðinni einni. En hvers vegna gerði hann það ekki? Það er ekki hægt að álykta annað af því en það, að hann hafi alls ekki þá skoðun, sem kemur fram á þskj. 523.

Það skiptir engu máli, hvort þess var óskað bréflega við bann eða hina aðra fyrirrennara í embættinu, hvort þetta yrði gert eða gert ekki, einmitt af þeirri ástæðu, sem þm. benti alveg réttilega á í ræðu sinni áðan, að öllum, sem til þekkja, er ljóst, hver hefur verið og virðist vera enn skoðun meiri hluta háskólakennara um þetta efni. Reynslan hefur aðeins sýnt, að því er snertir a.m.k. hæstv. fyrrv. menntmrh., að þó að hann einhvern tíma kynni að hafa verið á svipaðri skoðun um þetta efni og fram kemur í brtt. á þskj. 523, þá er það ekki eftir að hann tók að sér þá ábyrgð að gegna menntmrh. embættinu. Um mig gildir það aftur á móti, að ég hef aldrei verið á þeirri skoðun, heldur, eins og starfsbræðrum mínum við háskólann er kunnugt, hef alltaf haft þá sömu skoðun og ég hef lýst í máli mínu nú.

Ég vil svo að síðustu enn ítreka það, að ég tel þetta frv., eins og það liggur fyrir, hafa verið flutt í fullu samráði við forráðamenn háskólans og í samkomulagi við þá. Mér var að sjálfsögðu vel kunnugt um skoðun n. á embættaveitingamálinu og skoðun meiri hluta háskólaráðs á því máli. Ég gerði þessum aðilum líka alveg hreinskilnislega ljósa skoðun mína á málinu, og eftir að það hafði verið rætt ýtarlega, varð niðurstaðan, að þetta frv. skyldi flutt í þeirri mynd, sem það hefur núna, og hafa sem heild stuðning háskólaráðsins, þótt það að vísu í einstökum atriðum óskaði þess að hafa ákvæði nokkuð öðruvísi en þau eru.