17.05.1957
Neðri deild: 99. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

157. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv., sem er flutt samkv. tilmælum Háskóla Íslands, var samið af sérstakri nefnd. Í ársbyrjun 1954 kjöri háskólaráð 5 manna nefnd til þess að fjalla um endurskoðun á lögum og reglugerð Háskóla Íslands. Haustið 1955 skipaði þáverandi menntmrh., Bjarni Benediktsson, sjötta nefndarmanninn, og var hann formaður nefndarinnar. Kjörnir af háskólanum í þessa nefnd voru þeir prófessorarnir Ármann Snævarr, Björn Magnússon, Júlíus Sigurjónsson, Leifur Ásgeirsson og Þorkell Jóhannesson. Hinir tveir síðastnefndu störfuðu ekki í nefndinni nema skamman tíma, og kvaddi þá háskólaráð í þeirra stað þá prófessorana Finnboga R. Þorvaldsson og Steingrím J. Þorsteinsson. Hinn stjórnskipaði maður í nefndinni var dr. Benjamín Eiríksson bankastjóri, og var hann jafnframt formaður nefndarinnar.

Það frv., sem n. samdi, var sent til umsagnar öllum deildum háskólans og stúdentaráði, og fjallaði háskólaráðið einnig um frv. og sendi frv. að síðustu til menntmrn.

Í ráðuneytinu fóru fram nokkrar viðræður milli ráðuneytisins annars vegar og háskólarektors og fulltrúa frá þeirri nefnd, sem unnið hafði að málinu, hins vegar leiddu þessar viðræður til þess, að nokkrar breytingar voru gerðar á frv., eins og það hafði komið frá n. upphaflega. Þær breytingar lutu sérstaklega að 11. gr. frv., sem fjallar um það, með hverjum hætti skuli skipa kennara háskólans. Nefndin hafði óskað eftir því og var sammála um þá skoðun sína, að eðlilegt væri að auka rétt háskólans nokkuð til íhlutunar um embættaveitingar frá því, sem verið hefur nú um 14 ára skeið. Sú skipan, sem nú gildir og á stoð í reglugerðarákvæði, sem sett var 1942, er sú, að þegar kennaraembætti við háskólann er veitt, skal skipa dómnefnd til þess að dæma um hæfni umsækjendanna, og er óheimilt að veita umsækjanda kennaraembætti, ef dómnefnd hefur talið hann óhæfan til þess að gegna starfinu. Þessum ákvæðum vildi nefndin breyta á þann veg, að skylt skyldi að veita umsækjanda embætti, ef dómnefnd og háskóladeild væru sammála um, að hann væri hæfastur til að gegna því. Ég taldi heppilegast að hafa skipun á þessum málum, sem verið hafa allviðkvæm deilumál á mörgum undanförnum árum, efnislega óbreytta frá því, sem verið hefur, en taldi hins vegar rétt að gefa þeim ákvæðum, sem nú eru aðeins reglugerðarákvæði, lagagildi, þ.e. að taka ákvæði núgildandi reglugerðar háskólans varðandi embættaveitingar inn í sjálf háskólalögin.

Þegar sú skipun, sem nú gildir, var tekin upp árið 1942, var það gert samkvæmt tilmælum háskólans, og sú reglugerð var sett af einum af þáverandi prófessorum háskólans, dr. Magnúsi Jónssyni, sem þá um skeið gegndi embætti menntmrh. Um þá skipun var með öðrum orðum þá fullt samkomulag innan háskólans, og reynsla þeirra 14 ára, sem síðan eru liðin, virðist mér hafa sýnt, að þessi skipun sé farsæl, og þess vegna taldi ég rétt að löghelga hana með ákvæðum í sjálfum háskólalögunum.

Mönnum hefur á undanförnum árum sýnzt nokkuð sitt hvað og sýnist enn nokkuð sitt hvað, hvaða hátt eigi að hafa við embættaveitingar við háskólann og aðrar hliðstæðar stofnanir. Ég hef verið þeirrar skoðunar og er enn þeirrar skoðunar, að úrslitavaldið í þeim efnum eigi að vera í höndum þess aðila, sem ber stjórnarfarslega ábyrgð á gerðum sínum gagnvart Alþingi, þ.e. í höndum ráðherra; hins vegar sé sjálfsagt að tryggja þeirri stofnun, sem starfskraftanna á að njóta, eðlilega og heilbrigða íhlutun um, hvernig embættunum sé ráðstafað, jafnvel láta stofnunina og sérfróða aðila, sem stofnunin getur til kvatt, að meiri hluta hafa neitunarvald gagnvart umsækjendum, sem þeir telja ekki hæfa til að gegna starfinu; að öðru leyti eigi valið og ábyrgðin á valinu að vera í höndum aðila, sem ber stjórnarfarslega ábyrgð á gerðum sínum.

Í áliti háskólaráðs hefur komið fram, að það telur þá skipan, sem n. stakk upp á og ég lýsti áðan, æskilega í sjálfu sér, en leggur þó ekki svo mikið upp úr þessu atriði, að það vilji gera það að skilyrði fyrir stuðningi sínum við frv. í heild.

Ég mun ekki rekja önnur atriði eða nýmæli, sem í frv. felast, heldur láta mér nægja hér í þessari hv. d. að vísa til þeirrar ýtarlegu grg., sem frv. fylgir. Þó þykir mér rétt að geta þess, að inn í þetta frv., eins og það var afgreitt frá hv. Ed., hafa verið felld efnisatriði tveggja annarra frv., sem voru flutt samhliða þessu frv., þ.e. frv. um starfrækslu mælingastöðvar á geislavirkum efnum og stofnun prófessorsembættis í eðlisfræði og stofnun prófessorsembættis í uppeldisfræðum.

Á fjárlögum gildandi árs var samþykkt fjárveiting til þess að starfrækja rannsóknarstöð til mælinga á geislavirkum efnum. Sú fjárveiting var að vísu ekki mikil, en mun þó duga til þess, að slíkri mælingastöð verði komið á fót. En einmitt með hliðsjón af því, hvað fjárveitingin var naum, var ástæða til að hyggja sérstaklega að því, með hverjum hætti væri hægt að hagnýta féð og þá starfskrafta, sem við stofnunina ynnu, sem bezt. Hafa nokkur undanfarin ár verið uppi tillögur um að stofna prófessorsembætti í eðlisfræði við háskólann. Eðlisfræði og þær greinar, sem henni eru tengdastar, fá nú orðið meiri og meiri þýðingu fyrir allar hagnýtar vísindarannsóknir. Svo háttar og, að Vestur-Íslendingur, Aðalsteinn Kristjánsson, hefur ánafnað í dánargjöf sinni háskólanum allmikið fé með því skilyrði, að vöxtum af því verði varið til þess að styrkja kennarastól í náttúruvísindum við háskólann. Forráðamenn dánargjafarinnar hafa tjáð sig samþykka því, að vöxtum af henni verði varið til þess að styrkja að nokkrum hluta stofnun kennarastóls í eðlisfræði við háskólann. Má gera ráð fyrir, að af tekjum dánarsjóðsins muni fást um 25–30 þús. kr. til þess að greiða laun eðlisfræðiprófessorsins. Þess er og að geta, að nokkur aukakennsla er nú höfð um hönd í eðlisfræði við háskólann, og mundi sá kennslukostnaður að sjálfsögðu sparast, ef stofnað yrði fast prófessorsembætti í þessari grein. Það, sem þá vantar á, að til sé fé til að launa að fullu prófessor, má taka af fjárveitingunni til geislamælingastöðvarinnar og fela þá jafnframt eðlisfræðiprófessornum forstöðu þeirrar rannsóknarstofu. Með því er séð fyrir kostnaðinum við stofnun embættisins, án þess að komi til nokkurra nýrra beinna útgjalda fyrir ríkissjóð, auk þess sem ég hygg, að haganlegast sé fyrir komið forstöðu geislamælingastöðvarinnar á þann hátt, að hún verði tengd prófessorsembættinu í eðlisfræði.

Um prófessorsembættið í uppeldisfræðum er það að segja, að um allmörg undanfarin ár hefur verið fjárveiting á fjárlögum, nokkuð á annað hundrað þús. kr., til rannsóknar á greindarþroska íslenzkra skólabarna. Því rannsóknarstarfi er nú að mestu leyti lokið, en eftir er á hinn bóginn að hagnýta niðurstöður þeirra rannsókna, sem hafa farið fram. Þessi fjárveiting, eins og ég sagði áðan, hefur verið nokkuð á annað hundrað þús. kr. Auk þess hefur verið höfð um hönd talsverð aukakennsla í uppeldisfræðum við BA-deild heimspekideildar háskólans. Með því að fela nýjum prófessor þessa aukakennslu og þá jafnframt það leiðbeiningarstarf í þágu uppeldismála landsins, sem virðist vera eðlilegt framhald af rannsóknarstarfi síðastliðins áratugs á greindarþroska íslenzkra skólabarna, virðist á hagkvæman hátt vera séð fyrir þörfum, sem nauðsynlegt er að fullnægja, án þess að til útgjaldaauka komi fyrir ríkissjóð. Þvert á móti mun starfsemi, sem nú hefur kostað upp undir 150 þús. kr. vera innt af hendi í framtíðinni, ef þetta nær fram að ganga, af einum prófessor, sem mun hafa í árslaun um 70–80 þús. kr.

Þá er og í frv. ákvæði um prófessorsembætti í lyfjafræði. Gert er ráð fyrir, að sá maður, sem því starfi gegnir, sé jafnframt forstöðumaður lyfjaverzlunar ríkisins. Sá maður, sem nú kennir lyfjafræði við háskólann sem aukakennari, en lyfjafræðin er allmikil grein, 4–6 kennslustundir á viku, er einnig forstöðumaður lyfjaverzlunar ríkisins. Breytingin, sem hér yrði gerð, yrði engin önnur en sú, að í staðinn fyrir að hann sé aukakennari yrði hann prófessor. Kostnaðarauki er að þessu enginn, þar eð ekki þarf að greiða meira fyrir þessi tvö störf, þó að aðilinn heiti prófessor, heldur en nú þarf að gera.

Að síðustu vil ég svo geta þess, að gert er ráð fyrir því í þessu frv., að tekin verði upp við læknadeildina kennsla í lyfjafræði, pharmacia, til undirbúnings fullnaðarfræðslu í þeirri grein, en gert er ráð fyrir, að hún verði fyrst um sinn eins og hingað til sótt til útlanda. Nú er starfræktur Lyfjafræðingaskóli Íslands og lýtur forstöðu aukakennarans í lyfjafræði við háskólann. Það er álit læknadeildarinnar og háskólaráðs og heilbrigðisstjórnarinnar, sem hefur farið með stjórn lyffræðingaskólans, að eðillegt sé, að læknadeildin taki þessa kennslu að sér. Yfirumsjón með henni er þá gert ráð fyrir að prófessorinn í lyfjafræði hafi, en kennslunni verði að öðru leyti hagað með svipuðum hætti og hún í höndum sömu manna og hún befur verið í Lyfjafræðingaskóla Íslands.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að málinn verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.