17.05.1957
Neðri deild: 99. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

157. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. (BBen) gat þess í upphafi máls síns, að hann hefði saknað þess, að í grg. fyrir stjórnarfrv. væri gerð ýtarleg grein fyrir þeim mun, sem er á stjórnarfrv. og því frv., sem umrædd nefnd samdi. Sannleikurinn er sá, að ég ætlaðist til þess, að báðar n. þingsins fengju frv. n. til athugunar. N. Ed. fékk það, og ég mun að sjálfsögðu sjá svo um, að menntmn. Nd. fái það einnig. Þessar breytingar voru margar, ef ekki flestar, svo smávægilegar, að við í rn. sáum ekki ástæðu til þess að prenta nákvæma grg. um það með frv. sjálfu. Hins vegar tók ég þann kost, þegar málið var lagt fyrir Ed., að gera í framsöguræðu grein fyrir þessum breytingum í einstökum atriðum. Segja má, að ég hefði einnig átt að gera það hér, en það er alllangt mál að rekja það, og fæst eru atriðin mikilvæg. Því tók ég þann kostinn að láta aðeins getið þess eina atriðis, sem segja má að sé verulega mikilvægt, einkum vegna þess, að einmitt þetta atriði varð tilefni til þess, að fluttar voru brtt. við frv. í hv. Ed. af tveim flokksmönnum hv. 1. þm. Reykv. Þess vegna gerði ég það að sérstöku umtalsefni og það eitt. Hins vegar fagna ég því mjög, að það kom alveg skýrt fram í ræðu hv. 1. þm. Reykv., að hann er mér alveg sammála um, hver sé eðlilegasta skipunin á þessu máli. Um það virðist með öðrum orðum ekki ríkja ein skoðun í hans flokki, og er í sjálfu sér ekki við því að búast, að það eigi sér stað um slík mál sem þessi. Till. um að taka inn í frv. ákvæði eins og þau, sem háskólanefndin gerði till. um, var felld með miklum atkvæðamun í hv. Ed.

Hv. þm. vék nokkrum orðum að því, að hann teldi óeðlilegt, að dósentarnir ættu framvegis ekki að hafa atkvæðisrétt við rektorskjör. Till. um þetta kom einmitt fram í hv. Ed. frá hv. 1. landsk. þm., en var felld. Ástæðan til þess, að hér er ekki gert ráð fyrir atkvæðisrétti dósenta, er sú, að alger breyting er gerð á stöðu þeirra manna, sem slíkum embættum gegna, ef frv. nær fram að ganga, frá því, sem er samkvæmt núgildandi háskólalögum. Nú er í raun og veru enginn munur á kennsluskyldu og réttindum dósenta og prófessora, nema þeir njóta mismunandi hárra launa. Aðstöðumunurinn er sá einn, að dósent er ekki kjörgengur við rektorskjör, eins og nú á sér stað, en hefur aftur á móti atkvæðisrétt. Hér er hins vegar lagt til samkv. tilmælum háskólanefndarinnar og háskólaráðs, að eðli dósentsembættanna breytist algerlega. Þeir menn, sem nú gegna dósentsembættum, eiga að verða prófessorar samkvæmt ákvæðum laganna, en gert er ráð fyrir því, að dósentsheiti beri þeir kennarar, sem að vísu eru skipaðir kennarar til ótiltekins tíma, en jafnframt gegna öðru aðalstarfi. Það er rétt, að þetta kemur ekki nægilega skýrt fram í grg. háskólanefndarinnar og háskólaráðsins fyrir frv., að tilætlunin er, að þeir einir verði skipaðir dásentar, sem gegna öðru aðalstarfi, þó að skipun þeirra sé að vísu til ótiltekins tíma. Dósentar eiga í framtíðinni að hafa með höndum hliðstæð kennslustörf og þeir, sem nú eru nefndir lektorar eða aukakennarar. Ég fyrir mitt leyti er sammála háskólanefndinni og háskólaráði um, að ekki sé eðlilegt, að menn, sem gegna sem aðalstarfi sínu starfi utan við háskólann, þó að þeir einnig annist þar kennslu og séu því skipaðir um óákveðinn tíma, taki þátt í atkvæðagreiðslu við rektorskjör.

Þá nefndi hv. þm. ákvæðin um lyfjafræðiprófessorinu. Ég vil aðeins taka það fram, að í frv. sjálfu eru engin ákvæði um, að hann skuli hafa með höndum forstöðu lyfjaverzlunar ríkisins. Það, sem ég sagði um þetta, átti við, að það þarf engan kostnaðarauka að leiða af stofnun þessa prófessorsembættis, meðan gera má ráð fyrir því, að hægt sé að sameina þetta prófessorsstarf í lyfjafræði forstöðu lyfjaverzlunar ríkisins, (BBen: Er það þá ekki eftir skilgreiningu ráðh. eðlilegt, að slíkur maður væri kallaður dósent?) Það er rétt, það mætti kannske segja, og kom einmitt til umræðu að hafa þá skipan á, þó að niðurstaðan yrði samt sem áður sú með hliðsjón af því, hvað þessi kennslugrein er orðin umfangsmikil, að gera till. um prófessorsembætti; enn fremur með hliðsjón af því, að sérfróðir menn, þ.e. læknadeildarkennararnir, töldu með öllu óhugsandi, að unnt yrði að fá mann til þess að taka að sér kennslu í lyfjafræði, þegar ekki lengur nyti þess manns, sem nú hefur þá kennslu með höndum, án þess að embættið væri prófessorsembætti. Þess vegna þótti eðlilegra að gera embættið strax að prófessorsembætti, þegar það lægi hvort sem er augljóslega fyrir, að þegar skipa þyrfti í embættið að nýju einhvern tíma á sínum tíma, yrði það að vera prófessorsembætti, vegna þess, hve þessi kennsla væri orðin umfangsmikil. Varðandi það, að þessi maður eigi að hafa umsjón með kennslu í lyfefnafræði, sem hv. þm. einnig vék að, er það að segja, að það þótti eðlilegt, vegna þess að það kennaraembætti á að vera dósentsembætti, vegna þess að sá, sem þá kennslu annast nú, hefur einnig annað starf með höndum, þ.e. eftirlit með lyfjabúðum. Þess vegna þótti rétt, að einhver hinna fastráðnu prófessora skólans hefði eins konar yfirumsjón, sem kannske er nú ekki heppilegasta orðið, en bæri ábyrgð á þessari kennslu. Aukakennarinn í lyfjafræði, sem gera má ráð fyrir að sæki um prófessorsembættið í lyfjafræði, er einmitt nú skólastjóri lyfjafræðiskólans, svo að í raun og veru er hér um að ræða áframhald á þeirri skipun, sem nú er, með þeirri breytingu einni, að þessi kennsla er flutt inn fyrir veggi háskólans.

Þá ræddi hv. þm. nokkuð um það ákvæði, sem bætt var við frv. í efri deild, í 3. gr. um atkvæðisrétt stúdenta, og vakti athygli á því, að ákvæðin í 14. gr. varðandi þátttöku stúdenta í deildarfundum eru öðruvísi. Ég vil taka undir þau ummæli hans að skjóta því til n. að athuga þetta mál sérstaklega. Ég hef skilið þessa till. um heimild til þess að kveðja stúdenta á háskólaráðsfund og deildarfundi eða skyldu til þess þannig, að það bæri einvörðungu að gera, þegar um væri að ræða mál, sem vörðuðu stúdenta almennt, ekki einstakan stúdent og ekki einstaka hópa af stúdentum, heldur eingöngu mál, sem varði stúdenta alinennt, félagsmál þeirra almennt, réttindi þeirra almennt og þar fram eftir götunum. Hins vegar er augljóst mál, að um þetta þarf að setja allnákvæm ákvæði í reglugerð, til þess að þetta valdi ekki misskilningi og verði ekki til leiðinda, þó að tilætlunin sé með þessu að sjálfsögðu að auka rétt stúdenta og gera þeim vistina í háskólanum bærilegri en hún yrði að öðrum kosti. Í þessu sambandi tel ég sjálfsagt, að menn kynni sér nákvæmlega framkvæmd hliðstæðs lagaákvæðis í Noregi, þó að það sé að vísu tiltölulega nýtt þar í landi og varla fengin á það mikil reynsla.

Hv. þm. gat einnig um viðskiptadeildina, hvort ekki væri ástæða til þess að skilja hana algerlega frá lagadeildinni. Ég er á þeirri skoðun og hef alltaf verið, að eðlilegra væri, að viðskiptadeildin væri sjálfstæð. Hún á í raun og veru ekkert beint sameiginlegt lagadeildinni. Þó að einstakir kennarar í viðskiptafræðum og lögfræðum hafi kennt nemendum í hinni greininni, má, eins og hv. þm. tók fram, alveg koma slíku við, þó að deildirnar séu tvær. Laga- og hagfræðideildin hafði eindregið óskað eftir því, — allir kennarar hennar, — að viðskiptadeildin yrði skilin frá, og í n. var meiri hl. fyrir því að skilja viðskiptadeildina frá. Hins vegar neitaði háskólaráð að fallast á þennan aðskilnað, og gerði meiri hl. þess þá till. til ráðuneytisins, að þetta yrði óbreytt. Ég gerði hins vegar þá breytingu á í menntmrn., að ákvæðið er eins og það er, og er það eins konar miðlun í málinu, að viðskiptadeildin skuli verða sjálfstæð, þegar þrjú föst kennaraembætti hafa verið stofnuð í viðskiptafræði, en þau eru aðeins tvö nú. Einu rökin, sem háskólaráð færði fyrir því að greina deildirnar ekki að, voru þau, að fastir kennarar væru aðeins tveir og það væri óeðlilegt að hafa sjálfstæða deild með tveim kennurum, sem þá sætu ávallt annar hvor í háskólaráði. Þessa till. mína féllst háskólaráðið á, þ.e. að láta aðskilnaðinn bíða, þangað til kennurum hefur verið fjölgað í þrjá.

Þá ræddi hv. þm. nokkuð ákvæði frv. um heimild háskóladeildar til að takmarka aðgang stúdenta að háskóladeild. Þetta atriði mun hafa verið rætt nokkuð í háskólaráði, en það var rætt mikið á þeim fundi, sem ég átti með fulltrúum frá háskólanum og n., þegar málið var til umr. eftir athuganir í menntmrn. Ég skal lýsa því hiklaust yfir, að ég tel þetta takmörkunarákvæði að mörgu leyti mjög varhugavert og kaus í byrjun, að það yrði fellt niður, en forsvarsmenn færðu fyrir þau rök, sem ég varð að fallast á, að af því gætu hlotizt alvarlegar afleiðingar.

Svo háttar nú, að ekki er tekinn nema ákveðinn fjöldi nemenda í tvær af deildum háskólans, þ.e. í tannlæknadeildina og verkfræðideildina.

Um tannlæknadeildina háttar þannig, að þar eru teknir 3 nýir nemendur árlega af þeirri einföldu ástæðu, að ekki er aðstaða til þess að kenna fleirum en þremur, miðað við þau tæki og það húsnæði og þá kennslukrafta, sem tannlæknadeildin hefur yfir að ráða. Þessi takmörkun við þrjá er byggð á ákvæði, sem er í gildandi l. og er ætlazt til að verði óbreytt í þessum lögum. Nú hefur verið á það bent, að ef þetta ákvæði yrði fellt niður og 10 stúdentar innrituðu sig til náms í tannlækningum, væri háskólanum skylt að taka við þeim öllum og kenna þeim tannlækningar, sem gæti verið algerlega óframkvæmanlegt, og a.m.k. ekki nema með ærnum kostnaði. Þá yrði þegar í stað að kaupa nýja tannlæknastóla og önnur þau tæki, sem nauðsynleg eru við þá kennslu, auka við húsnæðið, sem er ekki fyrir hendi, og kennslukraftana. Það er til þess, að hægt sé að slá slíka varnagla, sem ég fyrir mitt leyti get fallizt á, að ákvæðið sé óbreytt.

Um verkfræðideildina gildir það, að hún setur ákveðið skilyrði fyrir því, að menu séu teknir til náms í deildinni. Það þarf ekki aðeins að hafa staðizt stúdentspróf í stærðfræðideild, heldur þurfa nemendurnir einnig að hafa hlotið vissar lágmarkseinkunnir í stærðfræðilegum fögum á stúdentsprófi. Halda kennarar verkfræðideildarinnar því fram, að þessar reglur megi engan veginn missa sig, námið í verkfræðideildinni sé svo fræðilegt og erfitt, að ekki þýði fyrir aðra að reyna að þreyta það nám en þá, sem hafi góðan undirbúning í hinum stærðfræðilegu greinum. Reynslan hafi sýnt, að það væri tímaeyðsla, sem ekki mundi bera tilætlaðan árangur. Ef þetta ákvæði yrði fellt niður um takmörkunina, hefði verkfræðideildin enga lagnheimild til þess að setja slíkar inntökuprófsreglur í deildina.

Sá skilningur, sem ég vil leggja í þetta ákvæði, er því sá einn, að það eigi að nota eingöngu til þess að setja almennar reglur um inngöngurétt stúdenta í tilteknar deildir og takmörkun í þeim tilfellum, þar sem hún er alveg óhjákvæmileg af aðstöðuástæðum eða vegna kennslukrafta. Hins vegar tel ég ekki koma til nokkurra mála að beita þessu ákvæði með hliðsjón af væntanlegum atvinnuskilyrðum kandídatanna. Það er raunar mjög til athugunar, hvort ekki ætti að breyta þessu ákvæði þannig, að það sé alveg skýrt, að þessa heimild megi ekki nota til þess að meina mönnum aðgang að námi með hliðsjón af atvinnuskilyrðum eða almennum þjóðfélagsaðstæðum, það sé eingöngu hægt til þess að tryggja, að námið hagnýtist vel eða að ekki séu óframkvæmanlegar skyldur lagðar á háskólann sem stofnun. Ég vil skjóta því til hv. menntmn. að taka þetta atriði til meðferðar, hvort ekki komi til greina að umorða þessa takmörkunarheimild þannig, að enginn vafi sé á því, að einstökum deildum verði ekki lokað vegna atvinnuskilyrða eða annarra almennra þjóðfélagsástæðna.

Að síðustu er svo það, sem hv. þm. sagði um ákvæði um eftirlit með námsástundun. Ég vil aðeins undirstrika það, að rétturinn til að setja slíkar reglur er ekki í höndum háskólans eins.

Ég fellst á, að það gæti verið hæpið. Það er ekki hægt að setja slíkar reglur nema í reglugerð, m.ö.o. ráðuneytið mundi um það efni fjalla, sem og sjálfsagt er, þar sem hér er auðvitað um mikilvæg atriði að ræða, sem eðlilegt er að fleiri fjalli um en þeir einir, sem framkvæma eiga og við eiga að búa.