28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

157. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað þetta frv. og orðið sammála um að gera við það nokkrar brtt., sumar eru meira eins og leiðrétting eða til að gera skýrara ýmislegt, sem í því felst, einstaka til þess að fella burt hluti, sem að n. áliti og fleiri ættu frekar heima í reglugerð en í lögum, en nokkrar brtt. þó, sem breyta að nokkru efni frv. Ég mun nú reyna að gera nokkra grein fyrir þessum brtt., og jafnframt langar mig til þess að segja nokkur orð frá eigin brjósti um ýmislegt af því, sem eðlilega kemur upp hjá okkur, þegar við erum að ræða lög um Háskóla Íslands og hvað standi í valdi Alþingis til að búa betur að þeirri stofnun.

Það er þá fyrst að geta þess, að með þessu frv. eru sett í heild þau allmörgu lög, sem gilt hafa um háskólann fram að þessu, og byrjað með því, sem ekki hefur verið í lögum um Háskóla Íslands áður, að taka fram, hvert sé hlutverk Háskóla Íslands, og þar alveg sérstaklega undirstrikað, að hann skuli vera vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun, er veiti nemendum sínum menntun til að gegna ýmsum embættum og störfum í þjóðfélaginu. Okkur fannst rétt í menntmn., þar sem yfirlýsing var hér um, hver væri tilgangurinn með háskólanum, að hann skyldi veita nemendum sínum menntun til þess að gegna ýmsum embættum og störfum í þjóðfélaginu, að bæta þar við: og til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum.

Þegar við byrjuðum á þeim skólum, sem nú eru hluti af Háskóla Íslands, voru þeir, eins og t.d. prestaskólinn, raunveralega eingöngu embættismannaskólar hjá okkur. Og það var löngum svo og vill enn bregða við, að það hlutverk, sem háskólanum fyrst og fremst sé ætlað, sé að vera skóli til þess að útskrifa embættismenn eða menn, sem gegna ýmsum almennum praktískum störfum í þjóðfélaginu. Okkur finnst hins vegar rétt að undirstrika, og það er í samræmi við það, sem segir í byrjun þessarar greinar um háskólann sem vísindalega rannsóknarstofnun og vísindalega fræðslustofnun, að þar skuli einnig sérstaklega taka tillit til þess að búa menn undir að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum.

Það er engum efa bundið, að því meira sem okkar þjóð treystir sér til að færast í fang við það, að hennar framleiðsla vex og hennar efni batna, komum við til með að gera æ meiri kröfur til okkar háskóla og þá líka um leið meiri kröfur til Alþ. um það verkefni, sem á þess herðum hvílir til þess að búa háskólann sem bezt til þess að geta sinnt slíku. Við skulum minnast þess, einmitt um leið og við nú á tímum búum menn sérstaklega undir að gegna hinum ýmsu praktísku verkefnum í þjóðfélaginu, um leið og við búum menn undir að vera dugandi og lærðir embættismenn, þá þurfum við að eignast meira og meira af mönnum, sem geta sinnt sjálfstætt þeim vísindalegu störfum í þjóðfélaginu, sem geta brotið heilann um þau vandamál, sem okkur riður á að séu leyst. Það hefur frá upphafi vega verið stolt okkar þjóðar að reyna að líta sjálfstætt og raunsætt á veröldina í kringum okkur. Forðum, þegar okkar menning stóð sem hæst, sú menning, sem við síðan alltaf erum stoltastir af og eigum raunverulega tilveru okkar þjóðar að þakka, var það svo, að íslenzkir menn, íslenzkir fræðimenn og íslenzkir bændur og sjófarendur litu raunsærri augum heiminn í kringum þá en þeir menn, sem lærðari voru og ríkari úti um heim. Á þeim tíma, sem lærðir menn í Evrópu trúðu því allir, að jörðin væri flöt, voru það sjófarendur og bændur hér á Íslandi, sem skrifuðu, að hún væri hnöttótt. Það var ekki aðeins á sviði bókmenntanna og sagnaritunarinnar, sem okkar forfeður þannig sköruðu fram úr, heldur líka jafnvel á sviðum, sem okkur finnast eins fjarskyld og stærðfræði, stjörnufræði, jarðfræði eða annað slíkt. Víð skulum muna það nú, þegar við viljum reyna að gera okkar háskóla sem sterkastan og beztan, að þá þarf það að vera á tilfinningu okkar hér á Alþingi, að það er á okkar valdi að búa þannig að honum, að hann geti orðið stofnun, sem líka á sviði vísindanna getur haldið áfram því, sem við höfum áður verið stoltastir af í okkar menningu. Við erum stoltir af því nú, að það skuli vera til meðal okkar menntamanna, bæði innan og utan háskólans, menn, sem geta sér heimsfrægð í fræðigreinum eins og stærðfræði, læknisfræði, náttúrufræði eða öðru slíku, og ég held, að við þyrftum að muna það líka, þegar við fjöllum um okkar fjármál, að við þurfum að sýna háskólanum meiri sóma en við oft gerum.

Alveg sérstaklega vildi ég þó frá eigin brjósti undirstrika það, sem okkur ber að gera fyrir norrænudeildina, það, sem okkur ber að gera fyrir þann þátt í okkar heimspekideild, sem sérstaklega snýr að rannsóknum á okkar eigin tungu, sögu og bókmenntum. Við höfum átt því láni að fagna að eiga þar afburðamenn, sem vakið hafa athygli fyrir okkar þjóð með ritum sínum og fyrirlestraferðum við erlenda háskóla, mönnum, sem hafa breitt út þekkingu á okkar menningu og brotið þar nýjar brautir. Við skulum minnast þess, að í dag er okkar tunga kennd ekki aðeins hjá okkar skyldustu þjóðum, eins og germönsku þjóðunum, heldur líka allt frá Bandaríkjunum til Sovétríkjanna er íslenzk tunga kennd við háskóla og nýtur meira og meira álits sem það djásn meðal tungna heimsins, sem hún er, Og þegar við hugsum til þess, hvern gimstein við höfum þar að varðveita, þá held ég, að við þurfum að minnast þess, þegar við göngum frá þeim málum, sem snerta fjármál háskólans, sérstaklega seinna meir, að við eigum að stefna að því hvað snertir hin norrænn fræði og jafnvel hin germönsku fræði yfirleitt, að okkar heimspekideild geti verið miðstöð slíkra fræða í heiminum, að við getum búið þannig að henni, að þangað sé hægt að sækja fyrst og fremst fræðsluna og vísindin um þau mál. Og ég býst við að til þess að geta valdið slíku sé ekki kostnaðurinn það erfiðasta fyrir okkur. Við verjum það miklu fé nú, ja, við skulum bara segja í hluti, góða og fagra hluti, eins og t.d. sinfóníuhljómsveitir, að við getum ákaflega vel eytt meira fé í þau norrænu fræði og til þess að gera okkar eigin íslenzku sögu og bókmenntum enn betri og meiri skil og gera fleiri mönnum kleift að vinna að því. En það, sem þar er e.t.v. þýðingarmest fyrir okkur, er, að það sé unnið að því að finna þá menn, sem skara fram úr í þessum fræðum, og gefa þeim tækifæri til vísindalegra starfa og vísindalegra afreka.

Mér datt það í hug nýlega, þegar ég sá, að það var að koma út sænsk bók um okkar fremsta skáld nú á tímum, okkar frægasta skáld, Halldór Kiljan Laxness, skrifuð af Svía, ágætum manni, að það er raunverulega orðið að nokkru leyti öfugsnúið við það, sem áður var, þegar við Íslendingar skrifuðum sögur þeirra helztu og beztu manna, sem til voru á Norðurlöndum, þegar það eru nú útlendingar í Svíþjóð meðal annars, sem eru farnir að skrifa sögur okkar manna hér heima á Íslandi, en við gerum það ekki sjálfir.

Ég held, að við verðum að herða okkur í þessum málum. Við verðum að reyna að sjá um, að það verði skapaðir á næstunni betri möguleikar en verið hefur til vísindalegra starfa, ekki hvað sízt í einmitt okkar norrænudeild. Og við höfum séð það með þeim mönnum, sem við höfum þegar átt þar og eigum, hvert efni við höfum til vísindamanna á þeim sviðum. Ég held, að sú breyting, sem gerð er á háskólalögunum hér um nokkuð aðra skipun á hlutverkum og embættum háskólakennara, sérstaklega um dósentana og lektorana, miði mjög í rétta átt, að geta með þeim embættum, eins og hugsað er nú að haga þeim, gert fleiri mönnum mögulegt að flytja fyrirlestra við háskólann og leggja stund á þessar vísindagreinar, a.m.k. þegar Alþ. gerir háskólanum mögulegt að kosta fleiri menn við skólann til slíks. Og ég held, að það sé ákaflega þýðingarmikið, að þessi breyting hefur verið gerð og við fylgjum því eftir seinna meir með því að gera mögulegt að kosta við háskólann fleiri menn í slík embætti en verið hefur undanfarið.

Viðvíkjandi svo í smærri atriðum þeim brtt., sem n. flytur, þá segja nú sumar svo til sín sjálfar, að það þarf ekki að fara um þær mörgum orðum, og ýmislegt af þeim frekar til þess að koma hlutum, sem við kunnum illa við að stæðu í lögum, inn í reglugerð. En nokkur af þessum atriðum eru þó efnisatriði, sem rétt er að fara inn á.

Þar er t.d. okkar brtt. á þskj. 649, 3. liður b, um breytingu á 4. gr. frv. Þar er lagt til að orða nokkru nákvæmar og ótvíræðar en gert er í frv., hvern rétt stúdentar skuli hafa til þess að eiga sæti í háskólaráði, þegar fjallað er um þeirra almennu mál. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að einmitt þessar till. um, að meira samstarf sé á milli háskólakennaranna og stúdentanna og aukinn sé réttur, sem stúdentarnir skuli hafa til hugsanlegra áhrifa í háskólaráði, hafi átt eindregnu fylgi að fagna í menntmn.

Það er engum efa bundið, að það er ákaflega nauðsynlegt fyrir háskólann, að það komist sem fyrst inn sá andi þar, að það sé skapað samstarf á milli stúdentanna og háskólakennaranna, að stúdentarnir séu sem allra fyrst látnir finna til þess, að það sé verið að ala þá upp til samstarfs við þeirra kennara og til að taka sjálfstætt ábyrgð í háskólanum og síðar meir enn þá frekar, þegar þeir eru komnir út úr honum. Við vitum, að þessi skilningur, ekki aðeins á, hvað sé heppilegt fyrir þjóðfélagið, um stúdentana, heldur líka hvað rétt er að taka til stúdentanna sjálfra, þessi skilningur fer vaxandi. Til dæmis okkar nágrannaþjóð eins og Norðmenn hefur sýnt þetta í því að gefa stúdentum rétt til þess að hafa fastan fulltrúa í háskólaráði. Og þetta ákvæði, sem n. setur þarna inn, er að vísu alveg komið undir reglugerð, hvernig það er framkvæmt, en það væri náttúrlega líka hægt að framkvæma það ákvæði þannig, að stúdentar hefðu þar fastan fulltrúa, en hann víki af fundum, þegar rædd væru þau sérstöku mál, sem ekki heyrir undir stúdentana að segja neitt um, ýmis vísindaleg efni, veitingar embætta, ákvörðun viðvíkjandi prófum og annað slíkt. Það yrði á valdi hæstv. ráðh. og undir samvinnu við háskólaráð komið, hvernig þætti hentugast að framkvæma slíka hluti.

Í sömu átt og þetta fer 7. brtt., sem við gerum um að tryggja stúdentum í ákveðnum deildum sama rétt viðvíkjandi deildarfundum og stúdentum væri tryggður í háskólaráði, þegar það ætti við.

Þá gerum við brtt. við 9. gr. um, að það sé tekið fram um hana, að atvinnudeild háskólans skuli starfa áfram við háskólann. Þetta hafði verið fellt niður fyrst, en hins vegar helzt enn í lögum um atvinnudeildina. Og þegar það er um leið einmitt undirstrikað, eins og gert er í þessum lögum, að háskólinn skuli vera vísindaleg rannsóknarstofnun, þá fannst okkur rétt, að atvinnudeild háskólans skyldi einmitt áfram sem rannsóknarstofnun starfa í þessum formlegu tengslum við háskólann, þó að hún að öðru leyti sé eins sjálfstæð og hún hefur verið frá upphafi. Ég held, að það séu rétt rök fyrir því máli.

Þá er rétt að minnast nokkuð á 9. brtt. hjá okkur, við 21. gr. Hún er um, hvernig orða skuli þann rétt, sem háskólaráð hefði til þess að ákveða sérstök inntökuskilyrði. Við álitum, að það sé rétt að heimila ráðh. að setja með reglugerð ákvæði um inntöku stúdenta í einstakar deildir, og tökum jafnframt fram í okkur nál., að ástæðan til þess, að þessi heimild sé gefin, sé sú, að nauðsynlegt þyki sem stendur að setja skilyrði um inntöku í tannlæknadeild og um prófseinkunn viðvíkjandi inntöku í verkfræðideild.

Það er vitanlegt, að bezt væri að geta verið laus við að hafa nokkur svona ákvæði í háskólalögum. Og með þessum háskólalögum er það líka alveg sérstaklega undirstrikað, með upphafi 21. gr., að háskólinn skuli vera opinn öllum, að hver sá, sem hefur tekið fullnaðarpróf frá íslenzkum skóla, sem hefur heimild til að brautskrá stúdenta, skuli hafa aðgang að háskólanum. Ástæðan til þess, að rétt hefur þótt að setja þessa heimild um reglugerð og í nál. að takmarka hana við þetta þrennt, hefur að nokkru leyti verið rædd hér strax við 1. umr. málsins: Annars vegar atriðið viðvíkjandi tannlæknadeildinni, sem fyrst og fremst virðist raunverulega vera kostnaðaratriði og spurning um fleiri kennara, þannig að það er fyrst og fremst fjárhagslegt atriði að geta bætt þarna við þessa deild, og er nauðsynlegt og rétt að stefna að því, að það sé gert. Í öðru lagi er viðvíkjandi þeirri prófseinkunn, sem hefur undanfarið verið gert sem skilyrði, prófseinkunn úr stærðfræðideild menntaskólanna sem skilyrði fyrir inntöku í verkfræðideild.

Við höfum tekið fram í nál., að það væri ætlazt til þess, að þetta væri enn þá heimilað, meðan þess væri þörf. Ég vil hins vegar taka það fram, að að mínu áliti ber að beita svona hlutum ákaflega varlega, og það er alltaf hættulegt, þegar farið er út í að setja ákveðnar prófseinkunnir sem skilyrði í slíkum efnum. Við, sem sjálfir höfum gengið undir próf og það próf, stúdentspróf á sínum tíma, sem eru ekki eins þung og stúdentsprófin eru nú, vitum ósköp vel, hvers konar tilviljun það er, hvernig gengur um prófseinkunnir, og þegar það munar ekki stundum nema kannske 0.5 og jafnvel minna, hvort menn komast inn í háskólann og verkfræðideildina með slíkum prófum, þá er það sannarlega þó nokkur ábyrgðarhluti að útiloka menn á slíkum grundvelli. Og frá þjóðfélagsins sjónarmiði horfir málið svo við, að það er brýn nauðsyn fyrir þjóðfélagið að fá meira af verkfræðingum og fá þá fljótt, þannig að það er ákaflega nauðsynlegt,að kennarar háskólans taki fullt tillit til þessara þarfa þjóðarinnar, og bar líka á góma í n., hvort ekki bæri að fara að beita fleiri aðferðum til þess að útskrifa verkfræðinga, jafnvel þótt mismunandi lærdóm hefðu, til þess að geta bætt að nokkru leyti úr þeirri brýnu þörf, sem okkar þjóð er á því að fá verkfræðilega menntaða menn. Sem sé það var álit n., að þessum reglugerðarákvæðum bæri að beita í þessum takmörkuðu tilfeilum og mjög hóflega.

Þá er 10. brtt. um að fella burt 23. gr. Það er eina brtt. á þskj. 649, sem ekki varð samkomulag um í n. Nefndin var klofin um þá till. Það voru þrír með þessari brtt. og tveir á móti, þ.e. þrír með því að fella greinina burt og tveir með því að halda henni. Það, sem ég segi um þessa brtt., þarf þess vegna ekki að skoðast sem framsaga fyrir n., heldur aðeins mitt persónulega álit og að svo miklu leyti sem það félli saman við álit þeirra hv. þingmanna, sem mér voru sammála, þá sem álit meiri hl.

Þetta er, elns og allir hv. þdm. hafa fylgzt með, þó nokkuð mikið deilumál, sem sé þessi spurning, hvort það beri að koma á því fyrirkomulagi við háskólann, að það sé haft miklu meira eftirlit með tímasókn stúdenta, máske allt að því svipað því, sem gerist í menntaskólum, eða hvort eigi að láta þeim vera í sjálfsvald sett, hvort þeir sækja tíma eða ekki, og það komi svo fram á prófunum, þegar þar að kemur, hvort þeir hafa getað aflað sér þeirrar þekkingar, sem háskólinn gerir kröfu til engu að síður. Að vísu á þetta ekki við í praktískum málum nema um nokkurn hluta kennslunnar. Mikill hluti af allri kennslunni við háskólann er þannig, að það er óhjákvæmilegt að sækja tímana, og stúdentum er það jafnljóst sem háskólakennurum. En þetta er þó nokkuð stórt spursmál um uppeldi.

Ég verð að segja það, að frá mínu sjónarmiði horfir þetta þannig við, að við höfum þarna að velja á milli þess, hvort við eigum að setja háskólann meira í áttina til þess að vera eins og menntaskólarnir eru, að það sé svo að segja troðið í nemendur með kennslu í tímum og með ströngu eftirliti, svo að þeir geti tekið próf, nemendurnir verði eins og litlir skólapiltar undir umsjón kennaranna, séu hálfdregnir þarna í gegnum skólann með þessari tímakennslu og með þessu stranga eftirliti, og mér finnst í sambandi við slíkt vera alvarleg hætta á, að að vísu sé máske hægt að útskrifa meira af mönnum með þessu móti, en það verða ekki menn, sem hugsa eins sjálfstætt í þessum efnum og eru eins færir um að taka sjálfstæðar ákvarðanir og sjá sjálfum sér og þeim verkefnum, sem þeir eiga að sinna í þjóðfélaginu, farborða á eftir.

Mér finnst þetta vera annars vegar spurningin, sem þarna sé um að ræða, eða þá hitt, hvort við eigum að treysta á þroska og sjálfsaga stúdentanna, treysta fyrst og fremst á vilja þeirra sjálfra til þess að læra, á skilning þeirra á því, að þeir þurfi að læra, ýmist að sækja tíma eða afla sér fræðslunnar öðruvísi til þess að geta staðizt prófið, og ég held, að með því móti að treysta á þroska þeirra og treysta á sjálfsaga þeirra, eflum við hvort tveggja, aukum við hvort tveggja. Það kann að vísu oft að vera þannig, að það verði fleiri, sem um tíma fara forgörðum, sem ekki rækja hlutina og átta sig máske á því seinna. En ég held, að það komi út úr því, að það verði meira af sjálfstætt hugsandi mönnum, af þroskuðum mönnum, sem við fáum út úr skólanum, með því að þeir verði fyrst og fremst að treysta á sinn eigin þroska og sjálfsaga. Það er vitað mál, að það er mjög mikið áhugamál hjá stúdentum að fá þetta fram, — fá þessa grein, sem þarna er lagt til, fellda burt, og þeir setja það í samband við sínar hugmyndir um akademískt frelsi. Það fara máske saman þar ýmsar tilhneigingar hjá þeim. Annars vegar er það engum efa bundið, að það er áhugamál t.d. flestallra þeirra stúdenta, sem fátækir eru, þeirra, sem vinna mikið utan skólans, stunda nám oft heima hjá sér, að þeir séu sem frjálsastir í þessum efnum, og ég skal líka viðurkenna, að það er máske líka áhugi margra stúdenta, sem hafa þá betri efni eða langar til þess að vera mjög frjálsir, að þeir séu lausir við þetta eftirlit, vilja fá að lifa eins og þá lystir, og það séu vafalaust líka tilhneigingar, sem oft koma fram í sambandi við kröfur þeirra um akademískt frelsi. En það, sem við verðum að gera fyrst og fremst upp við okkur í þessu, er, hvað sé bezt fyrir þjóðfélagið sjálft.

Ég held, að það sé bezt fyrir þjóðfélagið sjálft að fá menn bæði til að gegna vísindastörfum í þjóðfélaginu og til að sinna embættisstörfum og öðrum störfum, sem sýna það þegar á háskólaárunum, að þeir hafa þann sjálfsaga og þá skyldutilfinningu, að þeir vilji nema, án þess að þeim sé haldið að því elns og skólapiltum af þeirra kennurum. Ég held, að með slíku móti munum við fá mest af beztum mönnum út úr háskólanum. Við fáum kannske færri, og það týnast kannske fleiri úr lestinni, en ég held, að við fáum með þessu móti meira af sjálfstætt hugsandi mönnum, — mönnum, sem ekki hafa verið svo að segja leiddir í gegnum háskólann eins og í gegnum menntaskóla, og ég held, að þjóðfélagið fái með þessu móti bezta menn út.

Að vísu skal ég viðurkenna, að ef þjóðfélagið kostaði alla dvöl stúdentanna við háskólann, ef allt þeirra uppihald væri greitt af þjóðfélaginu, væri það ef til vill skiljanlegt, að þjóðfélagið gerði aðrar kröfur til þeirra. En meðan stúdentar verða sjálfir að öllu leyti að kosta sig við þetta nám, sumir að brjótast til þess af litlum efnum, þá held ég, að það sé bezt, að við látum þá hafa þetta frelsi áfram, láta það vera þeirra sjálfskylduraun, sem gerir út um, hvort þeir reynast hæfir til þess að taka prófin. Og ég vil þá taka það fram um leið og ég lýk máli mínu um þetta atriði, að það, sem ég hér hef sagt, segi ég ekki sem frsm. n., heldur sem mína persónulegu skoðun og máske að einhverju leyti fyrir munn þeirra hv. meðnm. minna, sem urðu mér sammála eða eru mér sammála um þetta atriði.

Þá gerum við enn fremur þá brtt. við 26. gr., 13. till. á þskj. 649, hvenær má skuli nafn stúdents af stúdentatali háskólans, að það skuli má nafn stúdents af stúdentatalinu, hafi hann ekki sótt háskólann tvö kennslumissiri samfleytt, en þó skuli það ekki gert, þó að hann sé fjarverandi allt að 4 missiri, ef hann hefur tilkynnt háskóladeildinni fjarveru sína. Um þetta hefur verið, eins og hv. þm. hafa fylgzt með, nokkur deila. Þetta um 4 kennslumissiri var í síðustu lögum, menn vildu þrengja það allmikið með þeim till., sem fyrir lágu, og við höfum reynt að finna þarna nokkra samkomulagsleið, sem við höfum öll orðið sammála um og ég vil vona að finni líka náð fyrir augum deildarinnar.

Þá er við 27. gr. okkar 14. brtt. viðvíkjandi prófunum, og sú brtt. er gerð — eins og sumar fleiri — í samráði við hæstv. menntmrh., það er að gera fyrst og fremst að reglugerðaratriðum um prófin og prófgreinarnar. Það var sérstaklega með 30. gr., sem við leggjum nú til að falli burt, nokkur tilhneiging í þá átt að takmarka það meira, hvað oft menn mættu þreyta próf. Nefndin var á því, að það sé rétt að gefa mönnum tækifæri til þess að þreyta prófin oft, þótt hins vegar sé eðlilegt, að það þurfi að setja mismunandi skilyrði í reglugerðir, ef alllangur tími fer að liða, m.a. sökum þess, hve mikið ýmsar námsgreinar breytast. En reynslan af okkar menntamönnum, bæði meðan þeir sóttu háskóla í Höfn sem og hér, sannar okkur, eins og líka var bent á hér við 1. umr., að það væri varhugavert að ætla að neita stúdentum um að geta tekið próf við háskólann, þó að þeir hefðu fallið einu sinni eða tvisvar. Það mikið þekkjum við um ýmsa menn, sem orðið hafa meðal fremstu manna okkar þjóðar, þó að erfiðlega hafi þeim ýmislegt gengið á þeirra háskólaárum, og það mundi vera hættulegt að útiloka slíkt. Þess vegna vildum við nú undirstrika það, að einmitt í reglugerð væri ekki verið að þrengja þann rétt, sem verið hefði um, að menn mættu taka próf, þreyta próf oft, en hins vegar eðlilegt, að hægt sé að setja um það skilyrði, sem tryggi, að þau próf, sem menn taka, séu í samræmi við þann tíma og þekkingarkröfur þess tíma, sem prófið er tekið á.

Þá breyttum við ofur lítið þeirri grein, 37. gr., sem fjallar um doktorsprófin og þann rétt, sem doktorar hljóta, þannig að þeir hafi rétt, þegar þeir hafi fengið doktorsnafnbót frá háskólanum, til að halda fyrirlestra í sinni vísindagrein. Það hefur alltaf þótt sjálfsagður hlutur, og við tökum það fram, að það þurfi aðeins að tilkynna það háskólaráði.

Ég held nú, að flestar aðrar till. segi alveg til sín sjálfar og eru að ýmsu leyti líka í samræmi við ábendingar, sem fram komu hér við 1. umr. málsins.

Þá var svo að síðustu viðvíkjandi 41. gr. í frv. og 43. gr. Þar hefur, eins og hv. þm. hafa tekið eftir, verið nokkur deila um heitin á þeim fræðigreinum, sem þar er um að ræða, og hafa verið gerðar þar mismunandi till. Það er sérstaklega það útlenda heiti „pharmacia“, sem tvær till. hafa komið fram um, bæði lyfsölufræði og lyfefnafræði. Við urðum sammála um það í n. að leggja til þarna þá till., sem okkur barst frá menntmrn. og er upprunnin frá landlækni, að kalla þetta, sem á latínumáli er kallað „pharmacia“, lyfjafræði lyfsala, og þá raunverulega í mótsetningu við þá lyfjafræði, sem læknarnir sérstaklega hafa, eða „pharmacologia“, og þó að það þyki kannske að einhverju leyti klaufalegt að kenna þetta þannig við þá menn, sem á að mennta með þessari fræði, held ég þó, að þetta sé langskýrasta heitið, sem við getum fengið á þessu. Það er alltaf ákaflega erfitt að fara að búa til orð á íslenzkunni, sem ekki segja sjálf, hvað meint er með þeim. Það hefur verið það sterka við allar orðmyndanirnar á íslenzku og ber beztan vott um, hvílíkur skapandi máttur er í okkar tungu, að það, sem útlendar þjóðir verða að læra utan að, öll þau latnesku heiti, segir tungan okkur sjálf, það segja orðin okkar sjálf, hvað þau merki. Ég held þess vegna einmitt, að þetta orð, sem þarna er stungið upp á, t.d. „pharmacia“ = lyfjafræði lyfsala, hafi þann kost, að það sé skiljanlegt og skýrt, þannig að við það megi a.m.k. notast, þangað til einhverjum snjöllum mönnum dettur í hug heiti, sem menn yrðu allir sammála um. Og þá þarf að breyta því, bæði í 41. gr. og í fyrirsögn IX. kaflans og í 43. gr.

Eins og hefur verið einn tilgangurinn með þessu frv., er kennslan í lyfjafræði lyfsala lögð undir háskólann með þessu. Um það hafa verið nokkrar deilur, og n. bárust eins og n. Ed. mismunandi álit úr hinum ýmsu áttum, þar sem gætti mjög ólíkra skoðana um þetta. En með því bráðabirgðaákvæði, sem við leggjum til að bætt sé aftan við lögin, vildum við a.m.k. fyrirbyggja, að um leið og sú deila, sem uppi hefur verið í þessum efnum, væri útkljáð, yrðu nokkrir fyrir barðinu á þeim lagaákvæðum, sem sett væru. Þeir stúdentar, sem hafa byrjað að nema hjá apótekurunum, þurfa auðvitað að fá sama rétt og þeir aðrir stúdentar, sem byrjað hafa að læra þessa grein. Það þarf að tryggja þeim, um leið og kennslan er lögð undir háskólann, að það sé ekki verið að gera þeirra vinnu og þeirra lærdóm að engu, og að því miðar bráðabirgðaákvæðið og er þess vegna, um leið og verið er að útkljá nú þessa deilu, sem verið hefur um menntun apótekaranna, verið að reyna að sjá til þess, að engir liði undir lausn þeirrar deilu og að með þeim ráðstöfunum, sem þarna eru gerðar, sé um leið verið að binda endi á ástand, sem verið hefur að vissu leyti hvimleitt, en við vonum líka að verði til góðs fyrir þjóðina, að þessi grein er þar með tryggð og bætt við inn í háskólann.

Með frv. í heild er n. alveg sammála um að mæla. Það eru í því, eins og hæstv. menntmrh. skýrði frá og undirstrikað var af fleirum við 1. umr., ýmsar merkilegar nýjungar, auk þess sem tekin eru saman í eitt þau lög, sem hafa verið allmörg áður í gildi um háskólann. Við viljum vonast til þess, að þær brtt., sem n. hér hefur gert og er sammála um, verði til þess að bæta þetta frv., og um það, sem n. er klofin um, verða þá að ganga atkvæði hér í d. En jafnframt því, sem við nú leggjum til, að þetta frv. sé samþykkt, vildi ég mega óska þess, að við gætum í framtíðinni sameinazt um að reyna að vinna enn meira að því en hingað til að efla okkar háskóla, efla ekki sízt þá deild hans, sem snýr sérstaklega að okkar eigin sögu, tungu og bókmenntum, og sjá til þess, að þegar hann nú bráðum fer að verða 50 ára gamall, getum við sagt með sanni hér á Alþingi, að við hefðum gert það, sem í okkar valdi stæði, til þess að gera hann að slíkri menntastofnun sem þjóðina dreymdi um, þegar háskóli var reistur í landinu.