28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

157. mál, Háskóli Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég tek undir þá frómu ósk, sem borin var fram hér af siðasta ræðumanni, og ég vil taka það fram, að eftir þeim kynnum, sem ég hef haft af samskiptum háskólans og Alþingis, hefur háskólinn ekki undan neinu að kvarta í þeim samskiptum.

Þetta frv. til nýrra háskólalaga, sem hér liggur fyrir, hefur hlotið allrækilegan undirbúning. Það er, eins og fram kemur í grg., samið af n. sem til þess var á sínum tíma kjörin af háskólaráði, en þáverandi menntmrh. síðan skipaði formann fyrir, bankastjóra við Framkvæmdabankann.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir til nýrra háskólalaga, er fyrst og fremst samsteypa eldri ákvæða um háskólann, sem til þessa hafa verið í ýmsum lögum, og svo tekin upp í lög allmörg ákvæði, sem hingað til hafa verið í reglugerð, vegna þess að það hefur þótt rétt að veita þeim lagagildi. Hins vegar er ekki að mínu viti hægt að segja, að þetta háskólalagafrv. geymi ýkjamörg nýmæli.

Hv. menntmn. Nd. hefur nú haft þetta frv. til meðferðar og gert á því allmargar breytingar, eða samtals leggur hún fram 24 brtt. Þær brtt., sem n. ber fram á þskj. 649, eru þó flestar lítils háttar, enda verður að teljast vafasamt fyrir n., sem ekki hefur haft meiri tíma til athugunar á þessu máli en hv. menntmn. Nd., að fara að gera mjög miklar breytingar á frv., með tilliti til þess rækilega undirbúnings, sem það að öðru leyti hafði fengið. Þótt þessar brtt., sem hér eru lagðar fram, séu, eins og ég sagði áðan, flestar lítilvægar og raunar skipti ekki máli um flestar þeirra, hvort þær eru samþ. eða samþ. ekki, þá gegnir þó nokkuð öðru máli um einstaka brtt. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að fara nokkrum orðum um þessar brtt., sem hér liggja fyrir á þskj. 649.

Það er þá fyrst að segja um 1. brtt., að n. leggur til, að aftan við 1. gr. í frv. bætist orðin: og til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum. — Um þessa brtt. er það að segja, að hún er að mínu viti allsendis óþörf, vegna þess að í upphafi 1. gr. segir, að Háskóli Íslands skuli vera vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun. Í þessu orðalagi liggur það eða var a.m.k. ætlunin að láta felast sömu merkingu og er í þessum orðum, sem hv. n. leggur til að bætt sé við. Hins vegar skaðar þessi viðbót ekki á neinn hátt, hún er í rauninni aðeins óþörf endurtekning á því, sem áður er sagt. En ég sé ekkert á móti því, að hún sé samþ., ef menn vilja bæta þessu við.

Um 2. brtt. er það að segja, að hún skiptir engu máli.

Um 3. brtt., sem er við 4. gr., er það að segja, að mér skildist á framsögumanni, að það mundi ekki vera gert ráð fyrir því, að hún fæli í raun og veru í sér neina efnisbreytingu á gr., en það ákvæði, sem þessi brtt. lýtur að, er svo hljóðandi, með leyfi forseta: „Nú má deildarforseti ekki sækja fund vegna forfalla eða hann er vanhæfur til að taka þátt í úrlausn máls“ — en eftir brtt. ætti þetta að hljóða svo: „Nú má deildarforseti ekki sækja fund vegna forfalla eða af öðrum ástæðum.“ M.ö.o. er þarna aðeins um það að ræða eftir brtt., að deildarforsetinn geti ekki sótt fund, en eftir till. upphaflegu er um það að ræða, að deildarforseti sé að vísu á fundi, en hann sé, vegna þess að hann er riðinn við málið, vanhæfur til þess að taka þátt í úrlausn þess. Þetta kannske skiptir ekki miklu máli, en mér virðist, eftir því sem fram kemur frá n., að hún hafi ekki alls kostar sett sig inn í þetta.

Þá kem ég að brtt. 3, b-lið, þar sem ræðir um þátttöku stúdenta í fundum háskólaráðs. Þetta leggur n. til að orðist á þann veg, að ávallt er háskólaráð ræði mál, er varða stúdenta háskólans almennt, skuli stúdentar eiga einn fulltrúa á háskólaráðsfundi og að fulltrúinn skuli þar eiga atkvæðisrétt og málfrelsi. — Ég hef ekki á móti því, að stúdentum sé veittur aðgangur að fundum háskólaráðs né heldur deildarfundum, síður en svo. Ég get tekið undir það, sem hv. frsm. sagði, að það sé æskilegt, að það ríki sem bezt samvinna á milli stúdenta og háskólakennara og að skilningur í því efni sé vaxandi. Mér vitanlega er sú samvinna, sem nú á sér stað milli stúdenta og kennara við háskólann, í góðu lagi, og ég hef ekki heyrt neinar sérstakar kvartanir í þá átt, að henni væri ábótavant. Ég held, að heppilegra hefði verið að byrja á þessu á þann veg. sem gert var ráð fyrir upphaflega í frv. þessu, þegar það var lagt fyrir deildina, sem sé, að það væri heimild til þess að kveðja fulltrúa stúdenta til, þegar mál vörðuðu þá sérstaklega, og síðan væri þessu svo breytt, eftir því sem reynslan segði til um. Ef það gæfist vel, mætti gjarnan gera það alveg „obligatorískt,“ en að þessu er nú horfið hér, að hafa þetta skyldu, að það skuli kveðja stúdenta til, ekki aðeins með málfrelsi, heldur og með atkvæðisrétti, þegar mál varða stúdenta almennt. Ég ætla ekki, eins og ég sagði áðan, að hafa á móti þessu, en hins vegar verður ekki hjá því komizt að óska upplýsinga um það frá hv. n. hvað hún nánar eigi við með þessu. Hvenær varðar mál stúdenta almennt? Mér skilst jafnvel, eftir því sem fram kemur í nál., það vera meiningin að ráða þessu til lykta með reglugerð á þann hátt að taka fram, að stúdent skuli sitja í háskólaráði, en síðan telja upp þau tilfelli, er hann skal víkja sæti. Ég held, að þetta sé hæpin leið við reglugerðina. Ég held, að það verði frekar að setja í reglugerðina, hvenær á að kveðja stúdent til, en það verður að liggja nokkuð ljóst fyrir, hvenær mál er talið varða stúdenta almennt, svo að þá eigi að kveðja til. Nú eru ýmis mál, sem tekin eru til meðferðar í háskólaráði, þannig, að þau t.d. snerta stúdenta einnar deildar eingöngu. Þá vil ég spyrja: Er það mál, sem varðar stúdenta almennt? Þannig mætti náttúrlega lengi spyrja. Stúdent á að hafa atkvæðisrétt þarna, þess vegna getur verið, að hans atkvæði komi til með að ráða úrslitum. Í því sambandi dettur mér í hug eitt mál frá s.l. vetri, þar sem ágreiningur var, eitt af þeim fáu málum, sem ágreiningur varð um í háskólaráði. Það var um það, hvort stúdentar skyldu fá að halda dansleik í anddyri háskólans á gamlársdag. Nú vil ég spyrja hv. nefnd: Er það meiningin, að slíkt mál sé. mál, sem varðar stúdenta almennt? Það er aðeins það, sem ég vil fá fram, við hvað sé átt, að það sé skýrt, að n. hafi gert sér grein fyrir því, við hvað hún á, þegar hún vill láta lögbjóða, að fulltrúi stúdenta skuli jafnan kvaddur til, þegar mál eru rædd á háskólaráðsfundi, sem varða stúdenta almennt.

Ég skal svo ekki ræða 4. brtt. Hún skiptir engu máli. En 5. brtt. er við 9. gr., og er þar lagt til, að inn sé skotið orðunum: „Þá skal og starfa við Háskóla Íslands rannsóknarstofnun í þágu atvinnuveganna, er nefnist atvinnudeild háskólans.“

Mér skilst á nál., að n. geri ráð fyrir, að með þessu sé verið að staðfesta það, sem nú sé ákveðið í l. Það er rétt, að í l. frá 1936 um háskólann stendur það, að atvinnudeild sé ein deilda háskólans. Það ákvæði hefur hins vegar aldrei komizt í framkvæmd, og eftir það hafa, eins og hv. n. er kunnugt, verið sett l. um atvinnudeildina, þ.e. lög um náttúrurannsóknir, lög nr. 68 frá 1940, þar sem ákvæði eru einnig um atvinnudeildina, og samkvæmt þeim l. er beinlínis tekið fram, að stofnun þessi, sem hér gengur undir nafninu atvinnudeildin, lúti yfirstjórn rannsóknaráðs ríkisins og atvmrh. Ég skal taka það skýrt fram, að ég hef síður en svo á móti því, að rannsóknarstofnun í þágu atvinnuveganna, þ.e. atvinnudeildin, sé í tengslum við háskólann. En mér er spurn: Hvernig er þessum tengslum varið, og hvernig ætlast n. til þess, að þeim tengslum sé varið? Hvernig á þessi rannsóknarstofnun að vera í tengslum við háskólann? Undir hvaða deild á hún að lúta, á hún að lúta beint undir háskólaráð o.s.frv.? Hún lýtur ekki undir menntmrh., því að samkvæmt skýlausum lögum frá 1940, sem ég vitna í, lýtur hún atvmrh., þannig að þessar stofnanir, sem þannig er gert ráð fyrir að séu í tengslum, lúta sín undir hvorn ráðh. Ég held, að ef á að samþ. þetta svona, þá sé það minnsta, sem hægt er að gera, að bæta við orðunum: Nánari ákvæði um þetta skulu sett í reglugerð. — En annars held ég, að það sé ekki hægt að setja svona ákvæði inn í þessi heildarlög, nema gera þá um leið í þeim l. nánari grein fyrir réttarstöðu atvinnudeildarinnar. Ég hygg, að það væri nauðsyn á slíkri lagasetningu, en ég held, að hún eigi ekki heima í þessum lögum eða a.m.k. geti ekki komizt inn í þau við meðferð þessa máls á þingi. Ég held, að það mál þyrfti alveg sérstaklega að endurskoða, og þá held ég einmitt, að það gæti verið heppilegt, að hún væri í tengslum við háskólann og lyti þá ef til vill einhverri deild þar, sem væntanlega yrði þá helzt verkfræðideildin, en það væri kveðið alveg á um það í lögum, hvernig þeim tengslum væri varið og hvernig samband ætti að vera milli háskólans og atvinnudeildarinnar. En ég vil óska eftir skýringum á því, hvernig n. hefur hugsað sér þetta.

Þá er 6. brtt. Hún lítur nokkuð sakleysislega út. Hún er við 12. gr., en í 12. gr. frv, er um að ræða undantekningarákvæði frá þeim almennu reglum, sem gert er ráð fyrir að gildi samkv. frv., sem sagt, að í hvert eitt skipti, sem embætti losnar við háskólann, sé það auglýst og umsóknir lagðar fram og þær umsóknir gangi undir dóm n., sem metur, hvort umsækjandinn sé hæfur eða ekki. En það er í þessari 12. gr. gert ráð fyrir, að það megi fara fram hjá þessari almennu og ég vil segja sjálfsögðu leið, að embætti sé auglýst til umsóknar, sem sé gert ráð fyrir því, að þegar sérstaklega standi á, geti menntmrh. samkv. till. viðkomandi háskóladeildar og með samþykki háskólaráðs boðið vísindamanni að taka við kennaraembætti við háskólann, án þess að það sé auglýst laust til umsóknar.

Ég hef alltaf verið heldur andvígur þessari gr., eins og hún er. Ég held, að hvaða vísindamaður sem á í hlut sé ekki of góður til þess að sækja um embættið. Ég skal þó ekki hafa á móti því, að það kunni einstöku sinnum að finnast þau tilvik, þar sem eðlilegt geti verið að fara þessa leið, sem gr. gerir ráð fyrir. En þá er það að mínu viti svo, að þá leið á ekki að fara, nema um það sé alveg fullt og einróma samkomulag innan háskóladeildarinnar. þess vegna vil ég mælast til þess við hv. þdm., að þeir felli þessa brtt. n. að fella niður orðið „einróma“ í 12. gr. Ég er ekki alveg viss um, að n. hafi gert sér grein fyrir, hvað í því felst. Það er að vísu svo, að þó að þessi brtt. yrði samþ., þá væri ekki gengið á hlut háskólans, nema síður sé. En ég verð að segja það um mína „kollega,“ að þeir eru náttúrlega breyskir eins og aðrir menn, og það er náttúrlega aldrei alveg útilokað, að þar geti einhver klíkuskapur átt sér stað. Ég viðurkenni að vísu, að það er reistur nokkurn varnarmúr þarna með því að áskilja það, að samþykki háskólaráðs þurfi einnig til, það er þá aðeins meirihlutasamþykki, og enn fremur að samþykki menntmrh. þurfi til.

Um 7. brtt. skal ég ekki fara neinum orðum. Það verður sjálfsagt reglugerðarákvæði, sem verður að skera nánar úr um, hvenær eigi að kveðja fulltrúa nemenda til. Ekki skal ég heldur ræða um 8. eða 9. brtt., nema aðeins undirstrika þann skilning, sem fram kom hjá frsm. n. og mér skilst vera skilningur n., að með þessu sé talið heimilt að hafa í reglugerð eftir sem áður ákvæði, sem takmarka aðgang að tannlæknadeild háskólans, og setja almenn skilyrði, sem lúta að prófum og takmarka aðgang að verkfræðideild, þannig að með þessu sé staðfest það ástand, sem nú er. Hins vegar get ég fullyrt, að það ríkir ekki, að því er ég bezt veit um, neinn áhugi fyrir því innan háskólans að öðru leyti að takmarka aðgang að deildum hans. Ég veit a.m.k. og get fullyrt fyrir þá deild, sem ég tilheyri, lagadeildina, að þar hefur slíkt engan hljómgrunn og hefur engum dottið slíkt í hug. Ég er viss um, að sama má segja fyrir guðfræðideildina og íslenzk fræði.

En þá er það 10. brtt., sem ég vildi leyfa mér að fara nokkrum orðum um. Hún lýtur að því að fella niður 23. gr. frv., en í 23. gr. frv. er nú ekki sagt annað né meira en það. að ákvæði um eftirlit með námsástundum háskólastúdenta megi setja í reglugerð háskólans.

Það má segja, að þetta eftirlit með námsástundun nemenda eigi sér stað nú, og það fer fram með þeim hætti, þar sem ég þekki til, að kennarar láta nemendur, sem sækja tíma, skrá sig á blað, og síðan gera svo kennarar það upp með hæfilegu millibili, hvaða nemendur og hvernig nemendur hafa sótt tíma. Ég veit ekki til þess, að það sé á döfinni neinn áhugi fyrir því að taka upp annað eftirlit með námsástundun nemenda en þetta, að kennarar geti kannað, hvaða nemendur og hvernig nemendur sækja tíma hjá þeim, og mér er ekki kunnugt um, að það sé áhugi sem sagt fyrir öðru eftirliti. Og ég vil þá spyrja hv. n., hvort það sé skilningur þess nefndarmeirihluta, ef þessi brtt. hans verður samþ., að héðan í frá sé kennurum óheimilt að láta ganga slíka pappírsmiða um kennslusalina, sem nemendur skrá sig sjálfir á. Ég vil í því sambandi benda á 26. gr., sem gerir ráð fyrir því, að ef stúdent hefur ekki sótt tíma í tvö eða eftir atvikum fjögur kennslumissiri, skuli hann niður falla af stúdentatali. Nú verð ég enn fremur að biðja n. um upplýsingar um það, ef svo skyldi vera, að ekki mætti hafa þetta eftirlit með tímasókninni, sem tíðkazt hefur, hvernig á að kanna það, hvort stúdent hefur sótt kennslustundir í tvö missiri eða fjögur, eða hvað sem það nú er. — Ég er ekki hlynntur því að taka upp neina tímaskyldu, en mér vitanlega gengur þó þróunin hvarvetna í þá átt í háskólum, að það sé nú hvarflað æ meir frá hinu forna akademíska frelsi og að það sé fylgzt betur með nemendum en áður. Ég hygg, að það eigi sér stað í hinum vestræna heimi, og ég get fullyrt, að það á sér stað í hinum austræna heimi. Ég hygg, að það eigi sér stað austur í Rússlandi; ég veit, að hv. frsm. mun kunnugt um það, hann var þar á ferð s.l. haust. Um svipað leyti átti ég þess kost að fara alla leið austur til Kína, og mér til mikillar ánægju gat ég heimsótt þar tvo merkilega háskóla og kynnti mér nokkuð vinnubrögð þar, eftir því sem hægt var, sérstaklega lagadeildanna, og það var mjög ánægjulegt að kynnast því á ýmsa lund. En þar var alls ekkert akademískt frelsi. Nemendur urðu að sækja tíma og það hreint ekki svo fáa tíma á hverjum degi, og yfirleitt var fylgzt með þeim allan daginn, en vitaskuld getur verið, að þar eigi að gegna öðru máli, vegna þess að þeir séu meira á opinberu framfæri en stúdentar hér eru.

Um þetta mál, hvort eigi að hafa eftirlit með námsástundun nemenda eða stúdenta, það getur vel verið, að það sé andstaða gegn því hjá stúdentum, að það sé tekið upp slíkt eftirlit, sem þó er ekki meiningin að taka neitt upp, heldur halda því, sem verið hefur. Og það getur vel verið, að einhverjir hv. þm. haldi, að það verði líklegt til vinsælda eða fylgisauka hjá stúdentum að fylgja því. Ég held eftir kynnum mínum af stúdentum, að þeir muni ekki mikið gangast upp við slíkt. Þetta mál er í eðli sínu algerlega ópólitískt mál, og ég veit það, að hv. þdm. fara ekki að skiptast um það málefni eftir flokkum.

Ég vil sem sagt leyfa mér að leggja eindregið til, að till. meiri hl. n., sem að þessu lýtur, verði felld og að það megi standa í lögum háskólans, að það sé heimilt að setja ákvæði í reglugerð um eftirlit með námsástundun nemenda. Ég verð að segja það, að það liti dálítið einkennilega út sú mynd, sem fengist af Alþ., ef það felldi slíkt ákvæði.

Ég skal svo ekki fara um þetta atriði öllu fleiri orðum, en aðeins vildi ég óska þess, að n. eða meiri hl. hennar upplýsti, hvort það sé skoðun hans, að ef þessi brtt. hans verði samþ., sé héðan af óheimilt að hafa eftirlit með því, hverjir nemendur mæta í tímum.

Þá vil ég aðeins taka fram varðandi 14. brtt., hvernig ég skil hana, og fá það staðfest hjá n., að sá skilningur sé réttur. Ég skil hana svo, að með henni sé meiningin, að það megi í reglugerð setja öll þau ákvæði, sem eru í 27., 28. og 29. gr., það sé sem sé ekki ætlunin með þessu að breyta öðru en því að fella niður 30. gr. Ég vildi gjarnan fá þennan skilning staðfestan.

Aðrar brtt., sem eru á þskj. 649, gefa mér ekki tilefni til að segja fleira en ég hef þegar sagt.