28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

157. mál, Háskóli Íslands

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Út af því, hvernig hv. síðasti ræðumaður byrjaði mál sitt, vil ég taka fram, að eftir því sem þingnefndir starfa og hafa aðstöðu til að starfa, þá hygg ég, að menntmn. Nd. hafi lagt mikla vinnu í þetta frv. Hún hefur haldið um það marga fundi, oft með mjög fjörugum umræðum og jafnvel deilum um ýmis atriði, a.m.k. tvo langa fundi, þar sem menntmrh. var viðstaddur, og ég hygg, að a.m.k. rektor háskólans hafi fengið tækifæri til að fylgjast með nokkrum helztu hugmyndum, sem þar komu fram, svo að ekki sé ástæða til að gagnrýna þær till., sem fram koma á þeim grundvelli. Annars hygg ég, að hv. frsm. n. muni ræða ýmis þau atriði, sem 1. þm. Skagf. (ÓJ) óskaði frekari skýringa á. Mun ég ekki hætta á að tvítaka það og ekki ræða það frekar.

Ég er sammála flestu eða öllu því, sem frsm. n. sagði almennt og taldi vera frá eigin brjósti um verkefni og framtíð háskólans og þann anda, sem á að ríkja hér á Alþ. gagnvart skólanum og þróun hans. Það er tvímælalaust ein af höfuðskyldum okkar að styrkja og efla norrænudeildina íslenzku fræðin, verulega frá því, sem nú er. Ég vil leggja meiri áherzlu en hv. frsm. gerði á það, að þróun nútímaþjóðfélags, hér eins og annars staðar, gengur ört í þá átt, að við munum, jafnframt því sem við eflum deildir eins og norrænudeildina, þau húmanistísku fræði, þurfa mjög á auknum fjölda verkfræðinga og teknískt lærðra manna að halda, og við verðum engu síður að leggja áherzlu á að fullkomna hið tæknilega nám, sem hægt er að stunda við háskólann.

Eitt atriði vil ég nefna hér, sem ég hreyfði lauslega í n., en fékk þó ekki hljómgrunn að þessu sinni, þó að undirtektir manna væru vinsamlegar, en það er þörfin á því, að ungir Íslendingar séu beinlínis styrktir meira en gert hefur verið til þess að stunda nám við Háskóla Íslands. Mér er ekki fyllilega kunnugt um það, hvort stúdentar hafa á undanförnum árum óskað eftir þróun í þá átt, að þeim verði veitt lán eða að meira yrði um styrki. Mér virðist, að þetta mál horfi nú þannig við, að það sé orðið mjög nauðsynlegt að gefa því gaum. Mér er sagt, að fyrir unga stúdenta utan af landi geti það oft verið ódýrara að fara til Þýzkalands eða til Danmerkur til þess að stunda háskólanám heldur en til Háskóla Íslands í Reykjavík. Þó að það sé gott, að margir af okkar menntamönnum stundi nám sitt erlendis og þeir megi nema sem viðast, þá held ég, að þetta atriði sé svo alvarlegt, að það verði að hyggja nánar að því. Ég vil beina þessu til hæstv. menntmrh., í þeirri von, að hann, þegar tóm gefst, íhugi þetta mál og athugi, hvort hægt er að jafna það misræmi, sem þarna er orðið á milli þeirra, sem styrktir eru með milljónum króna á ári til náms erlendis, sem er sjálfsagt og ágætt, og svo hinna, sem heima eru.

Eins og fram kom hjá frsm., hefur menntmn. orðið sammála um allar þær till., sem eru prentaðar á þskj. 649, nema eina. Það er 10. till., um það, að 23. gr. frv. falli niður. 23. gr. hljóðar svo og er aðeins ein setning: „Ákvæði um eftirlit með námsástundum háskólastúdenta má setja í reglugerð háskólans.“ Um þetta urðu töluvert miklar umræður og deilur í n., og má segja, að annars vegar hafi ríkt sjónarmið hins gamla og hefðbundna akademíska frelsis, sem svo er kallað, en hins vegar það sjónarmið, að eins og tímar hafi breytzt, nám hafi breytzt og allar lífsaðstæður hafi breytzt, þá væri óhjákvæmilegt, sjálfsagt og hollt fyrir alla aðila, að þetta „frelsi“ breyttist nokkuð líka.

Ég er þeirrar skoðunar, að hugmyndin um akademískt frelsi, sem er mjög sterk í hugum stúdenta, sé orðin úrelt og að þessi hugmynd hafi nú orðið skaðleg áhrif, hún hafi þau áhrif á ungmennin, sem útskrifast úr menntaskólunum, að þau beinlínís telji það sjálfsagðan hlut að taka náminu með mikilli ró fyrsta ár háskólans. Ég er þeirrar skoðunar, að margir stúdentar tapi algerlega að óþörfu námstíma á þessu. Ég er líka þeirrar skoðunar, að það eigi að skipuleggja sem allra mest af námi háskólans þannig, að hægt sé að hafa nokkurt eftirlit með námsástundun háskólastúdenta. Ég vil taka það fram, að sú lýsing, sem frsm. gaf hér á því, að það ætti að hefta alla stúdenta í aga, sem jafnaðist á við menntaskólana, er að minni hyggju hreinar ýkjur. Ég tel, að það sé bæði stúdentum og háskólanum til hags, að það sé gengið nokkuð í þessa átt, en jafnframt að það eigi að framkvæma og sé vandalaust að framkvæma eftirlit, eins og gert er víðast hvar í veröldinni, þannig að þeir nemendur, sem stunda vel sitt nám og gengur námið vel, finni á engan hátt fyrir því. Hins vegar getur þetta orðið nokkurt aðhald fyrir þá, sem tilhneigingu hafa til þess að dýrka hið akademíska frelsi um of.

Ég tel, eins og síðasti ræðumaður, að yfirgnæfandi meiri hluti stúdenta muni skilja þetta og skilja nauðsyn þess, að slíkt ákvæði sem 23. gr. sé í lögum. Ég tel því, að það sé tvímælalaust, að háskólinn eigi að hafa, og mér skilst, að prófessorar telji sig þurfa að hafa laga- eða reglugerðarheimild til þess að halda uppi nokkurri viðleitni til eftirlits með námsástundun. Mér finnst öll rök, sem fram hafa komið, benda í þá átt, að háskólakennurum sé fyllilega treystandi til þess að framkvæma þetta á þann hátt, að ekki verði gengið út í þær öfgar, sem eru andstæðastar hinu gamla frelsi. Verð ég að segja, að ég fylgi hvorugum öfgunum í þessu efni, heldur skynsamlegu meðalhófi.

Þetta vildi ég láta fram koma af hálfu okkar, sem ekki styðjum 10. brtt. og viljum ekki, að 23. gr. frv. verði felld niður.