28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

157. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Skagf. beindi nokkrum spurningum til mín sem frsm. n. út af nokkrum atriðum í okkar brtt.

Það var þá í fyrsta lagi viðvíkjandi 1. gr. um, hvort viðbótin: til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum, væri ekki óþörf. Háskólinn getur verið vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun þannig, að það eigi fyrst og fremst við hans háskólakennara. En ef það er undirstrikað fyrst og fremst, að þeir eigi svo að segja einvörðungu að veita nemendum sínum menntun með það fyrir augum, að þeir gegni ýmsum embættum og störfum í þjóðfélaginu, en ekkert sé tekið fram um þetta, sem við tökum þarna fram, þá mundi það að okkar áliti ýta undir að gera háskólann einhæfari en ella ætti að verða.

Ég held, að það sé nauðsynlegt, bæði vegna stúdentanna og prófessoranna, að taka það fram, að þeir þurfi að muna eftir því, stúdentarnir, að þeir eigi að búa sig undir að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum í þjóðfélaginn, og prófessorarnir og háskólakennararnir þurfi líka að muna það, að þeir eigi að búa þá undir að vera sjálfstæðir menn í þessu og sinna þessu sjálfstætt. Ég held, að það sé nauðsynlegt, og ég held, að það sé aðeins gott fyrir háskólann, að það sé tekið fram. Það kom einmitt út frá þessu, sem ég minntist á í upphafi. Háskólinn varð til sem embættismannaskóli. Hann þarf að verða meira og meira vísindastofnun. Á því þarf þjóðfélagið að halda. Og hann þarf meira og meira að geta gert að því að útskrifa menn, sem ern færir um að sinna vísindalegum störfum, og ég held, að það sé nauðsynlegt að undirstrika það. Ég skal viðurkenna hitt um leið, að þjóðfélagið þarf um leið að hugsa til þess, að það geri þeim mönnum, sem sérstaklega hafa verið gerðir færir um það í háskólanum að sinna vísindalegum verkefnum, mögulegt að leggja stund á þau í þjóðfélaginu.

Þá spurði hv. 1. þm. Skagf., hvort það væri ekki skakkt að vera að strika burt: vanhæfur. Ég verð að segja það, að ég hef litið svo á, ef deildarforseti, sem kemur á fund, væri vanhæfur til að taka þátt í úrlausn máls, þannig að það varðaði t.d. hann sjálfan eða annað slíkt, að hver deildarforseti í deild í háskóla hafi þann sjálfsaga, að hann taki ekki þátt í slíku, Væri það nauðsynlegt, þá mætti náttúrlega taka slíkt fram í reglugerð, en óviðkunnanlegt finnst mér að þurfa að taka slíkt fram í lögum. Þess vegna vildum við fella það burt.

Þá spurði hv. 1. þm. Skagf., hvað það væri, sem varðaði stúdenta almennt. Um þessa hluti höfum við reynt að taka nokkuð fram í okkar nál., hvað við álitum að varðaði þá ekki, og það þrengir þetta nokkuð. Hitt verður auðvitað að vera reglugerðaratriði, sem smám saman skapast hefð um, og þess vegna þægilegra að breyta slíku í reglugerð, og svo vel treysti ég bæði háskólaráði og hæstv. menntmrh., að hægt sé að finna út, hvað réttast sé í slíkum efnum.

Hv. 1. þm. Skagf. spurði, hvort t.d. stúdentar ættu að mega taka þátt í að ákveða, hvort það skyldi vera dansleikur í háskólanum á gamlárskvöld eða slíkt. Það eru 30 prófessorar við háskólann, og það er einn stúdent, sem með þessu móti fengi þátt í að taka ákvarðanir um svona hlut. Er nokkur hætta með það, sem stúdentar, ja, við skulum segja í yfirdrifnu stúdentafrelsi gjarnan vildu gera, að einn stúdent mundi afvegaleiða meiri hluta prófessoranna, þó að hann ætti þarna atkvæðisrétt? Ég held, að við þurfum ekkert að óttast það, og ég held við ættum að gefa þeim eina stúdent frekar oftar atkvæði heldur en hitt.

Þá spurði hv. 1. þm. Skagf., hver okkar meining væri viðvíkjandi atvinnudeildinni. Eins og háskólalögin eru núna, er atvinnudeildin ein af 6 deildunum við háskólann. Það er orðað þannig, ef ég man rétt. Hún er beinlínis til viðbótar við heimspekideild og verkfræðideild. Eftir okkar orðalagi bættum við því inn í, að hún sé við háskólann sem rannsóknarstofnun. Hún er ekki lengur ein deild í honum. Hins vegar heitir hún í þeim sérstöku lögum, sem um atvinnudeildina eru, atvinnudeild, og það er lögð þar áherzla á, að hún starfi við háskólann. Ég held þetta sé alveg hárrétt af nefndinni að hafa samræmi á milli þessara háskólalaga og þeirra laga, sem nú gilda um atvinnudeildina, og við setjum þetta í samræmi með því að bæta því þarna inn í, að atvinnudeildin starfi við háskólann, en við setjum það hins vegar ekki eins og hefur verið í háskólalögunum, að hún sé ein af 6 deildum háskólans. Hvernig samstarfið eigi að vera þarna á milli í framtíðinni, það er vandamál, sem enn er ekki leyst, hvorki leyst með þessari till. okkar né heldur leyst almennt og var ekki leyst með l. um atvinnudeildina. Þetta samband er raunverulega ákaflega laust, er formlegt og lagalegt, og ég held, að það komi til með að verða í þá áttina í framtiðinni líka. Og ég held, að það geri ekkert til, þó að það sé skoðað sem starfandi við háskólann. Það gefur slíkri rannsóknarstofnun æðri svip, að hún sé kennd við háskólann. Það skapar tengsl á milli háskólans sem vísindastofnunar og atvinnuveganna í þjóðfélaginu og er heppilegt að þessu leyti. Það mundi þýða, að þeir menn, sem þarna störfuðu, væru vísindalega séð nátengdari háskólanum sem fræðimenn og vísindamenn, þegar þetta væri enn þá í háskólalögunum, jafnvel þó að það heyrði undir annan ráðh. Hins vegar virtist okkur, að með því að taka þetta alveg út úr háskólalögunum væri verið að stefna að því að slíta þessi tengsl. án þess þó að slíta þau með því að breyta sjálfum lögunum um atvinnudeild háskólans. Við álitum rétt að vera ekki með þessum lögum að stíga spor í þá átt að slíta þessi tengsl, heldur að láta þau haldast jafnóformleg og þau eru núna og láta það bíða síns tíma að finna svo lausnina á því.

Þá spurði hv. 1. þm. Skagf. út af 12. gr., hvort við hefðum alveg athugað, hvað við værum að gera viðvíkjandi því, þegar menntmrh. þætti svo sérstaklega standa á, að hann byði vísindamanni að taka við kennaraembætti við skólann, og þarna væri, eins og lögin væru núna, áskilið, að það væri einróma till. viðkomandi háskóladeildar. Ég held, að hv. menntmn. hafi gert sér alveg ljóst, hvað hún var að gera þarna, og það er í samræmi við fleiri till., sem hún hefur gert, — till., sem ganga í þá átt að láta ekki vera neitunarvald hjá einstökum prófessorum við háskólann í þessu efni.

Ég vil í fyrsta lagi taka það fram viðvíkjandi þessari 12. gr., að ég álit, að þetta: þegar sérstaklega stendur á, undirstriki það greinilega, að svona hlutir séu aðeins gerðir, þegar menntmrh, vegna sérstakrar „kvalífikasjónar“ viðkomandi vísindamanns finnst alveg nauðsynlegt að geta gripið til svona aðferða. Ég álít, að þetta sé undantekningartilfeili, þegar um alveg sérstaklega valinkunna vísindamenn er að ræða. Væri rétt undir slíkum kringumstæðum að gefa hverjum einasta prófessor í viðkomandi deild neitunarvald í þessum efnum? Við skulum taka dæmi. Við skulum taka guðfræðideildina, og við skulum segja, að það væri vísindamaður í guðfræði eða trúarbragðafræðum, sem þeim, sem þá væri menntmrh., þætti svo sjálfsagður maður og svo nauðsynlegur að fá að háskólanum vegna hans vísindamennsku í slíku, að hann vildi bjóða honum slíkt embætti, og fengi í sambandi við það meiri hluta í viðkomandi háskóladeild og meiri hluta í háskólaráði, og þá ætti einn maður í háskóladeild — einn prófessor — að geta sagt nei. Ég held, að það væri ekki heppilegt. Það getur oft verið í sambandi við vísindamenn, að það sé umdeilt og umdeildar þær skoðanir, sem þeir halda fram. Ég skal leyfa mér að taka sem dæmi einn frægasta prófessor, sem verið hefur hér í guðfræði, Harald Níelsson. Vel hefði það getað verið svo, að ekki hefði fengizt samkomulag í guðfræðideild á sínum tíma einróma um t.d. að bjóða honum svona embætti, ef það hefði viljað þannig til, að hann hefði orðið að komast að á þann hátt. Ég álít, að það eigi ekki að leggja það neitunarvald í hendur eins einasta prófessors, að hann geti hindrað slíkt. Ég álít, að þetta ákvæði sé selt þarna inn í einmitt til þess, að það sé hægt að tryggja í slíku tilfeili meira frelsi, meira viðsýni við háskólann; það eigi ekki að þrengja þetta þannig, að einn einasti prófessor, sem væri þarna á annarri skoðun en viðkomandi vísindamaður, gæti neitað. Og ég álít það ekki rétt af okkur að vera að fara þarna inn á yfirleitt að gefa slíkt neitunarvald. Ég vil þess vegna fyrir mitt leyti, af því að hv. 1. þm. Skagf. var að skora á þm. að fella þetta, skora á menn að samþykkja þetta. Ég álít, að það eigi að vera alveg nægileg trygging, ef meiri hluti háskólaráðs og meiri hluti háskóladeildar og menntmrh. álita einn vísindamann svo ótvíræðan, að það eigi að veita honum embætti á þennan hátt. Og ég vil taka fram, og það vona ég að við séum öll sammála um, að það sé aðeins í sérstökum undantekningartilfellum, sem yfirleitt svona hlutur geti komið fyrir, því að almennt á auðvitað 11. gr. að gilda um þetta í öllum þeim almennu tilfellum.

Þá spurði hv. 1. þm. Skagf. út af 23. gr. viðvíkjandi eftirlitinu. Mér skilst, að þetta eftirlit, sem nú hefur verið framkvæmt við háskólann, að láta miða ganga, hafi verið framkvæmt án heimildar í lögum, og mér skilst ekki, að prófessorar háskólans og sízt af öllu prófessorarnir í lögfræði hafi litið svo á, að þeir brytu nokkur lög með slíku, þannig að slíkt eftirlit, sem þeir hafa þannig haft í frammi, mundi náttúrlega alveg jafnt ganga, hvort sem nokkuð stendur í lögum um það eða ekki. Þess vegna held ég, að það sé ekki verið að raska neinni hefð, sem kann að hafa skapazt við háskólann í þeim efnum, með því að samþykkja okkar brtt. og fella 23. gr. niður, en það sé verið að koma í veg fyrir, að það sé verið að stiga þarna stærri spor. Jafnvel þótt það sé kannske ekki tilgangur þeirra, sem nú hafa ráðuneyti með höndum eða eru í háskólaráði, þá gætu aðrir litið svo á. Og það, sem hefur verið a.m.k. mitt álit um 23. gr., þegar hún var sett inn, var, að meiningin væri að styrkja og gera öflugra og meira slíkt eftirlit, og á móti því vorum við, sem leggjum til að þessi 23. gr. sé felld. Ég held þess vegna, að það, sem prófessorar háskólans hafa álitið, að lög heimiluðu þeim fram að þessu, geti þeir gert áfram, en það sé ekki rétt af Alþ. að ýta undir það, að þarna sé komið á skarpara eftirliti, meira í menntaskólaátt, og þess vegna beri Alþ. að fella 23. gr.

Þá spurði hv. 1. þm. Skagf. um 26. gr., hvernig ætti að vita, hvort háskólastúdent væri í skólanum. Á 4 kennslumissirum, sem sé á 2 árum, verður hann að tilkynna dvöl sína. Það er ótvírætt. Það er líka það minnsta, sem hægt er að ætlast til af honum á þessum tíma. Og það kemur alveg greinilega fram eftir okkar till. Hann þarf að tilkynna hana, og þar með veit maður, hvort hann er í skólanum eða ekki.

Þá var það viðvíkjandi prófunum. Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. segir, að með heimildum til reglugerðar er lagt mjög mikið vald í hendur menntmrh. Það er alltaf svo með reglugerð, og eins og ég lagði áherzlu á í framsögunni og við greindum í nál., er það fyrst og fremst tilhneigingin, sem fólst í 30. gr., sem við vildum koma í veg fyrir. Og það hefur hv. 1. þm. Skagf. skilið alveg rétt, að við vildum reyna að sjá um með það, sem annars yrði sett í reglugerðir, og maður treystir yfirleitt háskólaráði og menntmrh. að sjá um þá hluti, þá sé stúdent ekki sviptur þeim rétti að geta gengið undir próf oft. Hins vegar þurfi náttúrlega að ákveða í reglugerðum, með hvaða hætti þau próf skuli vera, þannig að það er fyrst og fremst það að fella niður 30. gr., sem þar vakir fyrir n.

Að öðru leyti held ég, að það hafi ekkert komið fram, sem gefur tilefni til að segja fleira um þetta mál.