28.05.1957
Neðri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

157. mál, Háskóli Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Út af ummælum hv. frsm. vil ég segja það, að ég er ekkert hræddur við þátttöku stúdenta í háskólaráði. Hins vegar er rétt að geta þess, að það eru ekki 30 prófessorar í háskólaráði. En ég hef skilið nm. svo, að það sé meining þeirra, að það sé á valdi reglugerðargjafans að kveða á um það, hvernig aðild stúdenta að háskólaráðsfundum sé hagað. Ég hef síður en svo nokkuð við það að athuga, að þetta sé þá samþ. þannig, með þeim skilningi.

Í öðru lagi hef ég skilið hv. nm., sem hafa talað, þannig, að jafnvel þótt svo færi, að 23. gr. frv. yrði felld niður, héldist eftir sem áður réttur kennara til þess að fylgjast með tímasókn nemenda með sama hætti og átt hefur sér stað að undanförnu. Það er svo að sjálfsögðu alger misskilningur hjá hv. 8. þm. Reykv., að það sé meiningin að afnema hið akademíska frelsi með 23. gr. þessa frv. Það er jafnvel svo að mínu viti, að 23. gr. mundi alls ekki, þótt samþ. væri, heimila að taka upp tímasóknarskyldu, — alls ekki. Hún heimilar aðeins það, að eftirlit sé haft með námsástundun nemenda og um það séu sett ákvæði í reglugerð.

Ég skal svo ekki tefja umr. frekar, en leyfi mér að bera fram gagnstæða áskorun við það, sem hv. 8. þm. Reykv. bar fram, og leyfi mér að mælast til þess, að hv. þdm. felli þessa 10. brtt. menntmn. eða meiri hl. menntmn.