22.02.1957
Efri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

116. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Efni þessa frv. er einfalt og þarf ekki margbrotinna skýringa við. Í frv. felst það, að bætt skuli tveim félagategundum við þau félög, sem samkv. núgildandi lögum er heimilt að styðja til byggingar félagsheimila, en hin nýju félög eru verkalýðsfélög og búnaðarfélög. Ríkisstjórninni hefur þótt eðlilegt, að þessi félög njóti sama réttar og þau félög önnur, sem talin eru í lögunum, þar sem þessi félög eru fræðslu- og menningarsambönd þeirra, sem þau mynda, auk þess sem þau eru hagsmunafélög.

Frv. samhljóða þessu að mestu hefur verið flutt tvívegis á Alþingi af hv. 4. þm. Reykv., sem nú er, Eggert Þorsteinssyni, en frv. náðu ekki fram að ganga. Innan ríkisstj. hefur hins vegar nú orðið samkomulag um, að mál þetta skuli flutt sem stjórnarfrv. Vona ég, að hið háa Alþingi og þá fyrst þessi hv. deild taki málinu með vinsemd og braði sem mest framgangi þess á þessu þingi.

Í sambandi við þetta frv. vildi ég jafnframt nota tækifærið til þess að gera nokkra almenna grein fyrir hag félagsheimilasjóðs og skilyrðum hans til þess að sinna sínu mjög merka hlutverki að öllum kringumstæðum óbreyttum. Svo sem kunnugt er, er það kjarni gildandi laga um félagsheimili, að félagsheimilasjóði er heimilt að styrkja byggingu félagsheimila á þann hátt að leggja fram allt að 40% af stofnkostnaði félagsheimilanna. Þau félög, sem nú geta notið slíks styrks, eru ungmennafélög, íþróttafélög, lestrarfélög, bindindisfélög, skátafélög, er standa almenningi opin án tillits til stjórnmálaskoðana. Í þessa upptalningu er nú gert ráð fyrir að bætt verði verkalýðsfélögum og búnaðarfélögum.

Gildandi lög um félagsheimili voru sett 22. maí 1947, en öðluðust gildi 1. jan. næsta árs, 1948. Heimilt var samkv. lögunum að veita styrk til félagsheimila, sem hafin hafði verið smíði á eftir 1. jan. 1944.

Samhliða setningu laganna um félagsheimili var gerð breyting á lögum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús frá 1927 til þess að tryggja fé til þeirra styrkveitinga, sem um var rætt í lögum um félagsheimili. Í þessum lögum um breytingu á skemmtanaskattslögunum frá 1947 var ákveðið, að 50% skemmtanaskattsins skyldu renna í félagsheimilasjóð, en áður hafði skemmtanaskatturinn nær allur átt að ganga til byggingar og rekstrar þjóðleikhússins.

Þessum lagaákvæðum var svo breytt aftur ári síðar, þannig að 1. jan. 1949 runnu aðeins 40% til félagsheimilasjóðsins. Enn var svo lögunum um skiptingu skattsins breytt 1950, svo að síðan í ársbyrjun 1951 hefur félagsheimilasjóður hlotið 35% af skemmtanaskattinum, og þau lagaákvæði eru í gildi nú. Hluti félagsheimilasjóðs af skemmtanaskatti hefur frá 1948, að lagaákvæðin tóku gildi, numið frá 1 millj. til 1.6 millj. kr. Upphæðin reyndist lægst árið 1950 1 millj. 73 þús. Hún reyndist hæst árið 1955, 1.6 millj. kr. Árið 1956 er reikningsskilum ekki að fullu lokið, en í des. 1956 hafði verið veitt úr sjóðnum á því ári 1.3 millj. kr. Samtals hefur skemmtanaskattshluti félagsheimilasjóðs frá 1948 numið 11 millj. og 569 þús. kr. Þessari liðlega 111/2 millj. hefur verið varið til þess að styrkja byggingu 91 húss.

Fyrir síðustu úthlutun úr sjóðnum, sem fór fram í des. s.l., hafa verið gerð full skil við aðeins 38 af þessu 91 húsi. Reikningskilum er því ekki lokið af hálfu félagsheimilasjóðs við 53 hús. Ef heimildin væri að fullu notuð og félagsheimilasjóði ætlað að greiða 40% af byggingarkostnaði þessara 53 félagsheimila, er vangreitt úr sjóðnum nú 3 millj. og 756 þús. kr., þ.e. félagsheimilasjóðurinn þyrfti að geta greitt 3 millj. og 156 þús. kr., ef hann ætti að geta styrkt byggingu allra félagsheimila, sem nú er verið að vinna að, eftir þeim reglum, sem um styrkveitingar gilda, þannig að félagsheimilin fengju 40% af byggingarkostnaðinum, eftir því hve langt verkinu hefur þegar miðað áfram. Ef tekið er tillit til þess, hver gjöld mundu hvíla á félagsheimilasjóði út frá sömu forsendum, þ.e. heimildin yrði notuð að fullu, og tekið tillit til þess, hver heildarkostnaður framkvæmdanna verður, þegar þeim er að fullu lokið, þá mun hvíla á félagsheimilasjóði 11.1 millj. kr. greiðsluskylda. Ég nota hér orðið greiðsluskylda í þeirri merkingu, að þá verði miðað við það, að 40% heimildin verði notuð. Þegar byggingu þeirra félagsheimila, sem nú eru í smíðum, verður lokið, er 40% hluti félagsheimilasjóðs af þeim byggingarframkvæmdum hvorki meira né minna en 11.1 millj. kr.

Þessi tala talar í raun og veru skýrustu máli um það, hvílík gífurleg verkefni eru fram undan á þessu sviði, ef lögin eiga að vera óbreytt, ef gera á áfram ráð fyrir því, að félagsheimilasjóður styrki framkvæmdirnar með 40% byggingarkostnaðar.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að neinir fáist til að mæla með því, að þeirri reglu verði breytt, þannig að styrktarhlutfall félagsheimilasjóðsins verði lækkað, og þá benda þessar tölur eindregið til þess, að gera verði einhverjar ráðstafanir til þess að auka tekjustofna félagsheimilasjóðsins.

Í árslok 1955 námu vangreiddir styrkir til félagsheimila aðeins 900 þús. kr., en eru nú, eins og ég gat um áðan, 3.7 millj. kr. Fjárfesting við byggingu félagsheimila hefur farið mjög ört vaxandi á síðustu árum, og vil ég leyfa mér að nefna fjórar tölur í því sambandi, sem eru mjög athyglisverðar. Árið 1953 var varið alls til byggingar félagsheimila 3.7 millj. kr., árið 1954 4.2 millj., árið 1955 5.9 millj. og árið 1956, á s.l. ári, hvorki meira né minna en 9.4 millj. kr., og er þá fljótlegt að gera sér grein fyrir, hve hluti félagsheimilasjóðs af þessum framkvæmdum er mikill. Hann er hvorki meira né minna en tæpar 4 millj. kr., en tekjur félagsheimilasjóðsins á s.l. ári, 1956, eru undir 11/2 millj., að því er næst verður komizt. Þarna er því um gífurlegt fjárhagsvandamál að ræða, og er þetta raunar hliðstætt því vandamáli, sem hv. alþm. er kunnugt í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og lýtur að opinberri fjárfestingu á nær öllum sviðum. Það eru því einkum hinar geysiöru framkvæmdir á árinu 1956, sem munn baka félagsheimilasjóði mjög mikla greiðsluskyldu á næstu árum, miðað við óbreytt lagaákvæði og að styrktarheimildin verði notuð að fullu, upp í 40%. En eins og ég gat um áðan, vantar nú þegar 3.7 millj. til þess að geta gert að fullu upp við þá aðila, sem að framkvæmdunum standa, vegna þeirra framkvæmda, sem þeir hafa lokið.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli hv. þd. og hins háa Alþingis yfirleitt á því vandamáli, sem hér er um að ræða. Menntmrn. hefur undanfarna mánuði gert sér þetta vandamál ljóst og hefur haft til athugunar tekjuöflunarmöguleika til þess að bæta hag félagsheimilasjóðs, og ég vona, að ekki þurfi að líða allt of langur tími, þangað til ráðuneytið getur lagt fyrir hið háa Alþingi ákveðnar till. um það efni. En ég vildi ekki láta hjá liða að gera þessa grein fyrir vandamálinu nú, þegar þetta frv. er lagt fyrir, til þess að hinu háa Alþingi væri nú þegar ljóst, að hér er vandi á ferðum, sem verður að taka á með einhverjum hætti.

Ég vil taka það skýrt fram, endurtaka það raunar,að ég tel ekki mega reyna að leysa þennan vanda á þann hátt að breyta lagaákvæðunum í þá átt, að styrktarhlutfallið verði lækkað. Það væri a.m.k. beinlínis óheiðarlegt gagnvart þeim aðilum, sem þegar hafa hafið framkvæmdir og hafið þær í trausti þess, að félagsheimilasjóður mundi fyrr eða síðar styrkja framkvæmdirnar með allt að 40% framlagi, svo að gagnvart þeim framkvæmdum, sem þegar eru hafnar, tel ég slíkt með engu móti geta komið til greina. Þá er ekki um annað að ræða en að hefjast handa eða láta sér detta einhver ráð í hug til þess að bæta hag félagsheimilasjóðsins og auka getu hans til styrkveitinga.

Að vísu er rétt að benda á það,að bein skylda hvílir ekki á félagsheimilasjóði til að styrkja framkvæmdirnar, þannig að hann gelur dregið styrkveitinguna eftir því, sem fjárhagsgeta hans leyfir. Þeir, sem ráðizt hafa í þá fjárfestingu, sem hér er um að ræða, gera það algerlega á eigin ábyrgð. En þeir hafa gert það í trausti þess, að sá styrkur, sem hingað til hefur verið veittur og greiddur hefur verið án allt of mikilla tafa, verði greiddur, og það er mín skoðun, að gera verði ráðstafanir til þess, að ekki þurfi að verða óhæfilegur dráttur á því, að sá styrkur, sem von hefur verið gefin um, verði inntur af hendi. Hitt er svo annað mál, að vel kæmi til greina að setja til frambúðar inn í félagsheimilalögin skýrari reglur um það, hvenær styrkurinn kæmi til útborgunar, líkt og nú hefur verið gert varðandi skólabyggingar, til þess að reyna að hafa hemil á því, að einstakir aðilar reisi sér ekki hurðarás um öxl með of örum framkvæmdum á þessu sviði.

Þessa grg. um málefni félagsheimilanna og félagsheimilasjóðsins vil ég láta frá mér fara til athugunar fyrir hv. alþm. í sambandi við þetta mál og jafnframt endurtaka að síðustu þau ummæli, að ég vonast eindregið til að geta, áður en mjög langt um líður, lagt fyrir Alþingi till. um bættan hag félagsheimilasjóðs, sem ætti að geta orðið til nokkurra úrbóta frá því vandræðaástandi, sem á s.l. ári hefur verið að skapast í þessum málum.