22.02.1957
Efri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

116. mál, félagsheimili

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég minntist þess, að hæstv. menntmrh. skýrði frá því hér í deildinni nokkru fyrir jól, að hann hefði skipað nefnd manna til þess að endurskoða lögin um félagsheimilasjóð og þá væntanlega með það fyrir augum fyrst og fremst að auka tekjur sjóðsins verulega frá því sem nú er, enda vitum við allir, að sú þörf er mikil. Nú kemur frv. frá hæstv. ráðh., ekki til þess að auka tekjur sjóðsins, eins og við höfðum búizt við, — eða ekki sér maður annað, — heldur að rýra þær stórkostlega, þar sem á að bæta við tveimur fjölmennum stéttarfélögum, sem réttinda eiga að njóta til styrks samkv. lögunum.

Ég er ekki að hafa á móti þessu út af fyrir sig. En mér finnst, að þetta sé gersamlega þýðingarlaust, ef ekki er von nú þegar á frv., sem bætir stórlega hag félagsheimilasjóðs. Það er ekki til neins að vera að þynna þennan sjóð svo út með þessum lögum, ef ekki kemur annað meira.

Hæstv. ráðh. gaf í skyn, að þetta mundi koma bráðlega, en ég veit ekki, hvað þetta „bráðlega“ þýðir hjá honum. Ég sé ekki, hvers vegna þurfti að flýta þessu svo, að ekki mátti hitt fylgjast með, breytingin um tekjurnar. Hæstv. ráðh. lýsti því sjálfur, hvernig ástandið er hjá sjóðnum nú. Hann vantar 3.7 millj. til þess að geta staðið í skilum, og það sjá allir, að ef ekkert verður gert, þá er stefnt hér í hreinustu vandræði.

Ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort sú breyting, sem við bíðum eftir um auknar tekjur félagsheimilasjóðs, sé ekki væntanleg á þessu þingi svo tímanlega, að það megi gera ráð fyrir því, að það nái afgreiðslu á Alþingi. Þetta tel ég aðalatriðið. Hitt getur ekki gengið, að bæta einungis við nýjum fjölmennum félögum. Út af fyrir sig hef ég ekkert á móti því, ef tekjurnar eru fyrir hendi, að verkalýðsfélögin og búnaðarfélögin komi hér inn í. Ég veit nú satt að segja ekki, hvað búnaðarfélögin hafa hér að gera. Ég veit ekki betur en að þau komi inn í félagsheimilin í sveitunum með sínar samkomur. Ég hygg, að það sé samstarf milli þeirra í sveitunum og þeirra annarra aðila, sem þar vinna að því að koma upp félagsheimilum. En ég vildi óska þess, að hæstv. ráðh. gæti gefið þær upplýsingar, að frv. um auknar tekjur sjóðsins og þá verulegar tekjur sé væntanlegt á þessu þingi.