22.02.1957
Efri deild: 61. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

116. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð til þess að svara fsp. hv. þm. V-Sk. En áður vildi ég leiðrétta þann misskilning, að þetta frv. rýri tekjur félagsheimilasjóðsins. Það gerir það að sjálfsögðu ekki. Það hefur engin áhrif á þær heildartekjur, sem félagsheimilasjóður nýtur, hvorki minnkar þær né eykur. Hitt mætti svo segja, að tekjuvon hverrar einstakrar félagstegundar úr sjóðnum minnkaði við það, að þeim aðilum fjölgar, sem taldir eru hæfir til styrkveitingar, en á tekjur félagsheimilasjóðsins í beild hefur þetta frv. að sjálfsögðu engin áhrif.

Hv. þm. spurði, hvort búast mætti við því, að frv. um breytingar á skemmtanaskattslögunum væri væntanlegt á þessu þingi. Það var þessi spurning, sem gaf mér tilefni til þess að kveðja mér hljóðs, og ég vil svara því, að það mun verða lagt fyrir þetta þing nægilega snemma, til þess að þingið geti tekið afstöðu til þess, frv. um breytingu á skemmtanaskattslögunum, sem mun fela í sér aukna hlutdeild félagsheimilasjóðsins í skemmtanaskattinum í heild.

Ég vil þó taka það fram, að það er ekki skoðun mín — til þess að fyrirbyggja allan misskilning um það þegar í stað — að auka beri tekjur félagsheimilasjóðsins á kostnað þjóðieikhússins, eins og hv. þm. V-Sk. hefur flutt frv. um. Ég tel það ekki vera leiðina til þess að bæta hag félagsheimilasjóðsins að rýra hag þjóðleikhússins, því að það hefði þær einu afleiðingar, að sá rekstrarhalli, sem ríkissjóður greiðir nú þegar af þjóðieikhúsinu, mundi vaxa að sama skapi. Það væri aðeins að velta ákveðnum hundruðum þúsunda frá skemmtanaskattstekjum yfir á ríkissjóð almennt, og það er engin lausn á málinn. Þjóðleikhúsið má engar tekjur missa, miðað við það, sem það hefur haft, t.d. s.l. ár, án þess að rekstur þess dragist stórlega saman, og trúi ég ekki, að nokkur óski þess í alvöru.

Það verður því að finna aðrar leiðir til þess að auka tekjur félagsheimilasjóðsins, og það er einmitt sú hlið málsins, sem hefur verið í athugun í menntmrn. undanfarna mánuði, og um það munu þær till. fjalla, sem væntanlega mjög bráðlega verðar lagðar fyrir Alþingi.