05.03.1957
Efri deild: 64. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

116. mál, félagsheimili

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu málsins, því að eftir þeim umr., sem þegar hafa farið fram um þetta mál, þykir mér einsýnt, að frv. geti nú í þeirri mynd, sem það hefur verið borið fram, orðið að lögum á þessu þingi, og er það að sjálfsögðu fagnaðarefni allra þeirra, sem hlut eiga að máli.

Ég vil og í sambandi við ræðu hv. 6. þm. Reykv. (GTh) minnast á þann skilning, sem mér skilst að Alþingi hafi lagt í orðið „verkalýðsfélög“ í þeim umr., sem fram hafa farið um þetta mál á undanförnum þrem þingum. Þar hefur eindregið komið fram sá skilningur hjá bæði þeim, sem hafa talað með frv. og gegn því, að þegar rætt sé um verkalýðsfélög, sé einungis um þau félög að ræða, sem samkvæmt lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur hafa samningsrétt við félög atvinnurekenda, þau ein geti talizt verkalýðsfélög, og af sömu ástæðum eiga rétt til þess að vera innan Alþýðusambands Íslands.

Ég tek fyllilega undir það, sem fram hefur komið í þessum umr. um nauðsyn þess, að undinn verði bráður bugur að því að auka tekjur félagsheimilasjóðs, ekki hvað sízt þegar bætt er við nýjum aðilum frá því, sem áður hefur verið, á sama tíma og vitað er, að sjóðurinn stendur í óbættum sökum við þá aðila, sem fyrir eru í lögunum, um framlag til hinna einstöku félagsheimila. Að sjálfsögðu er það rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði hér áðan, að það er erfitt að greina í milli, hverjir eiga að vera hérna með og hverjir ekki. En það hefur ákveðið ríkt sú skoðun innan verkalýðshreyfingarinnar, og henni er ómótmælt, að þau félög hafi frá öndverðu, jafnframt því að vera hagsmunaleg stéttarfélög þeirra aðila, sem í þeim eru, jafnframt verið menningarfélög, og ég geri þó ráð fyrir því, eins og ræðumaður benti á, að það mætti e.t.v. finna fleiri slíka aðila. En ef menn eru á sama tíma að krefjast aukinna tekna félagsheimilasjóðs og bæta við fjölmörgum öðrum aðilum, þá verða að sjálfsögðu að koma til sjóðsins mun meiri tekjur en þó ætla mætti að þyrftu að koma vegna þessara tveggja aðila, sem eru í þessu frv. nefndir.

Að sjálfsögðu þurfa tekjurnar að vera þeim mun meiri, sem aðilarnir verða fleiri að sjóðnum, og það er þess vegna ekki óeðlileg ósk frá hv. 6. þm. Reykv., að áður en hann flytur brtt., sem hann boðaði hér áðan, um enn aukna aðild að sjóðnum, óski hann eftir því að sjá eitthvað af till. ríkisstj. þar um. Mér finnst við fljótlegt yfirlit þeirrar ræðu, er hann flutti hér, að þar gæti dálítils ósamræmis, þegar á sama tíma er minnzt á þá neyð, sem sjóðurinn er vissulega kominn í fjárhagslega. En án þess að ég ætli fyrir fram að mæla gegn þeim aðilum, sem hv. 6. þm. Reykv. kynni að vilja bæta þarna við, vil ég undirstrika það, sem ég tel aðalatriði málsins, eins og málið liggur fyrir nú, að þeir aðilar, sem hér er ákveðið að bæta inn í, gegna á sinn hátt vissulega sama menningarhlutverki og e.t.v. í mörgum tilfellum engu að síður en þeir aðilar, sem fyrir eru í lögunum og enginu ágreiningur hefur fram að þessu verið um að ættu þar heima.