05.03.1957
Efri deild: 64. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

116. mál, félagsheimili

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fara fram á það, að málið verði tekið út af dagskrá að þessu sinni.

Hv. 6. þm. Reykv. (GTh) hefur boðað stórfellda breytingartillögu við frv., og mér finnst satt að segja, að það veiti ekki af, að frv. fái betri athugun en verið hefur hjá hv. n. Mig furðar það nokkuð, hvernig a.m.k. þeir þm., sem úr dreifbýli eru, koma fram í þessu máli af algeru sinnuleysi. Ef sú stefna á að vera ríkjandi viðkomandi félagsheimilum, sem nú er, þá verður litið úr framkvæmd fyrir félagsheimili í sveitunum, sem fyrst og fremst er stefnt að að koma upp, það fullyrði ég. Og ég sé satt að segja ekki, hvers vegna verið er að setja hér inn búnaðarfélög. Ég veit ekki betur en búnaðarfélög séu alls staðar með öðrum félagasamtökum í sveitum um félagsheimili. Það var víst hv. þm. Ak. (FS), sem sagði, að það hefði verið úrskurðað, að búnaðarfélag gæti ekki verið með. Ég veit ekki til þess, að búnaðarfélag hafi sótt um að koma upp sérstöku heimili fyrir sig, en ég veit um mörg búnaðarfélög, sem eru með um félagsheimili annarra félagasamtaka í sveitunum. En ég fullyrði, að ef þessi stefna á að vera ríkjandi, þá verður ekki mikið um framkvæmdir félagsheimila í sveitunum.

Ég óska þess, herra forseti, að málið verði tekið út af dagskrá að þessu sinni, svo að maður fái þó að sjá þessar brtt., sem boðaðar eru.