15.02.1957
Sameinað þing: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2376 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

Varamenn taka þingsæti

Frsm. meiri hl. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Af því að hv. 6. þm. Reykv. lauk máli sínu með því að skírskota til þess eiðstafs, sem alþm. undirrituðu um að halda stjórnarskrána, vil ég einmitt sérstaklega undirstrika það, að einmitt sá eiðstafur leggur okkur þungar skyldur á herðar að fara samvizkusamlega með það, sem við teljum vera skilning okkar á stjórnarskránni, á beinum lagabókstafnum í stjórnarskránni og lögum. Og það er einmitt það, sem hv. þm. og hans flokksmenn hér á þingi hafa gert sig seka um, að þeir hafa látið flokkssjónarmið og flokkshagsmuni, stundarhagsmuni, ráða um afstöðu sína til málanna.

Það er háskalegt að standa hér upp og gera hróp að mönnum fyrir það að reyna að skýra þau lagafyrirmæli og stjórnarskrárfyrirmæli, sem við þurfum að starfa eftir, á þann skynsamlegasta og hyggilegasta hátt og á þann hátt, sem er í mestu samræmi við þann skilning, sem lagður hefur verið í þessi orð að undanförnu, og hrópa að mönnum, að þeir séu að brjóta stjórnarskrána með þessu. Það er svo háskalegt að vera með slík brigzl út af jafnsjálfsögðum og eðlilegum hlut eins og hér er um að ræða, að það er kannske einmitt í þessu atviki fólgin mesta hættan á því, að stjórnarskrá og lög verði troðin undir fótum, þegar þannig eru á algerlega villandi og rangan hátt bornar fram sakir um stjórnarskrárbrot og lagabrot.

Hv. þm. ræddi ekki um það atriði, þegar hann talaði um skoðanir fræðimanna og las þær upp eftir Einari Arnórssyni, þeim mæta manni, sem ég ætla ekki að kasta neinni rýrð á, en mönnum getur nú skotizt, þótt skýrir séu, og það hefur líka sannazt um Einar Arnórsson, að honum skjátlaðist mjög hrapallega í því að meta það, hvað væri stjórnarskrárbrot og hvað væri ekki stjórnarskrárbrot, í sambandi við þingrofið 1931, svo að hans skoðun ein út af fyrir sig er ekki neinn endanlegur úrskurður og leysir ekki Alþingi undan því að meta sjálft, hvað sé réttur skilningur á stjórnarskrá og lögum, sem Alþingi er bundið við. En það, sem hv. 1. þm. las upp úr ritum Einars Arnórssonar, verður ekki stuðningur fyrir þennan skilning, sem Sjálfstfl. hefur gert að sérmáli sínu að leggja í þessa setningu í stjórnarskránni. Hann er að ræða þar um varamenn uppbótarmannanna, og það er vert að taka það fram, að hann er að ræða um varamenn uppbótarþingmannanna, og hann heldur því fram, að þegar aðalmaður og varamaður hafa forfallazt endanlega, sé ekki hægt að kveðja til annan. En hann fer algerlega fram hjá hinn atriðinu, sem er einmitt það atriði, sem við erum að snúast um: Hvað á að gera, þegar búið er að taka varamanninn af Reykjavíkurlistanum og setja hann á landslista og gera hann að landsk. þingmanni? Hvað á þá að gera? Það eru engin ákvæði í stjórnarskránni um, hvað þá eigi að gera.

Hv. þm. tekur það fram. Hann segir, að skilningurinn á þessu: „Jafnmargir varamenn skulu kosnir, samtímis og á sama hátt“ — þýði það, að ef kosinn er einn þm. á einum lista, þá sé frambjóðandinn í öðru sætinu varamaður, nema náttúrlega breytingar hafi átt sér stað í kosningum með útstrikun. Þetta segir hv. þm., að sé skilningur á þessari setningu.

Nú er það með lista Alþfl. í Rvík. Hann hefur fyrsta manninn, Harald Guðmundsson, kosinn, og annar maðurinn, Gylfi Þ. Gíslason, er þá varamaður samkv. þessum skilningi á stjórnarskránni. Hann er varamaður og enginn annar.

Nú atvikast það svo, að Gylfi hverfur út af Reykjavíkurlistanum vegna kosningareglunnar og verður landsk. þm. Þá á Alþfl. engan varamann, af því að hann fékk bara einn mann kosinn. Þetta er skilningurinn, sem þessi hv. þm. er að leggja í þessi orð.

Nú hefur Alþingi alls ekki viljað binda sig við svona einstrengingslegan skilning, heldur sagt: næsti maður er varamaður. Og greinin, sem hann las upp eftir kollega sinn, Þorvald Þórarinsson, var einmitt um það, að varamaðurinn væri 3. maðurinn á listanum, og hann virtist taka undir það, að það væri réttur skilningur; var þó skömmu áður búinn að segja, að varamaðurinn væri í öðru sæti listans, þegar einn væri kjörinn.

Það sjá allir, hvaða ósamræmi er hér í. Þetta er ekki annað en það, sem við rekum okkur á, að ef við eigum ekki sjálfir að brjóta niður okkar stjórnarskrá, þá þurfum við að gera okkur ljóst, hvenær lífið sýnir meiri fjölbreytni en stjórnarskrárgjafinn og löggjafinn hefur getað látið sér detta í hug, þegar viðkomandi stjórnarskrá eða lög voru sett.

Maður sér bezt, hvað sjálfstæðismenn eru komnir í mikil rökþrot með þetta pex sitt um skilninginn á þessari grein, þessari setningu í stjórnarskránni, þegar því er haldið fram, að ef Haraldur Guðmundsson forfallast endanlega, eigi Alþfl. ekki að hafa neinn varamann, fyrst Rannveig Þorsteinsdóttir hefur sagt sig af listanum. En það var helzt að skilja á hv. þm., sem síðast talaði, að þá ætti eiginlega með valdi og gegn hennar vilja að neyða hana til þess að taka þingsæti. En það er alveg undirskilið, að hver einasti frambjóðandi verður að taka það fram sérstaklega, skriflega, að hann sé boðinn fram með sínum vilja. En þeir eru komnir í svo mikil þrot með þetta, að þeir telja, að þetta sæti eigi að vera óskipað, það eigi þá sem sagt að vera sjö þm. fyrir Rvík. Það er líka brot á stjórnarskránni að hafa ekki fulla tölu þingmanna. Hvað á þá að gera? Jú, það á að kjósa upp aftur. Og þá á að kjósa upp einn mann í Rvík. Vill nú nokkur maður, sem spyr samvizku sína í góðu tómi og lætur ekki bara flokkssjónarmið og þann orustuhita, sem stjórnmálamönnum er stundum gjarnt að ala með sér, ráða skoðunum sínum, — vill nú nokkur maður, sem heiðarlega gerir málið upp við sjálfan sig, halda því fram, að það sé í anda kosningalaga og stjórnarskrár að láta kjósa upp um einn mann í Reykjavík? Það er alveg augljóst mál, að það mundi verða önnur útkoma en löggjafinn ætlaðist til, önnur útkoma en kosningalög okkar og stjórnarskrá gera ráð fyrir að ætti að koma. Sem sagt, það mundi raska þeim flokkahlutföllum, sem eiga sér stað í landinu, og þar með skoðunum kjósendanna. Það væri það alvarlegasta brot, sem hægt væri að fremja. En þetta eru einu útgöngudyrnar, sem hv. sjálfstæðisþingmenn virðast sjá út úr þessu máli.

Ef það ætti að kjósa upp aftur, þá vitanlega á að kjósa upp í kjördæminu, í Reykjavíkurkjördæmi öllu. Það er óhjákvæmilegt. Þá kæmi fram vilji kjósendanna. Þá væri ekki verið að raska kraftahlutföllum á Alþingi þannig að færa það til ósamræmis við það hlutfall, sem hér á að vera samkvæmt þjóðarviljanum, vilja kjósendanna, í samræmi við þau kosningalög og stjórnarskrá, sem við búum við.

Það er alveg augljóst mál, að það verður ekki dreginn neinn samjöfnuður til stuðnings þeim málstað, sem sjálfstæðismenn hafa gert að sínum í þessum umr., frá kosningunum 1926. Það verður ekki dreginn neinn samjöfnuður þaðan, og þess vegna er alveg hægt að sleppa því. Það eru orðnar svo allt aðrar aðstæður, sem við búum við núna, og vil ég þó benda á eitt atriði, sem virðist hafa ruglazt í huga hv. síðasta ræðumanns, 6. þm. Reykv., og það er það, að hann gerir ekki greinarmun á því annars vegar, hvort kjörstjórn á að taka fjórða sæti listans, sem er eina varamannssætið, sem Alþfl. á, þegar hún úthlutar varamannskjörbréfi, hvort hún á þá að taka það sæti til greina og úthluta varamannskjörbréfi á það sæti, eða hitt, eftir að búið hefur verið að úthluta varamannskjörbréfi og sá varamaður forfallast og aðalmaður hefur forfallazt áður, hvort þá á að gefa út nýtt varamannskjörbréf. Þetta er tvennt, sem hér er um að ræða. Og annað, það seinna, hvort á að gefa út nýtt kjörbréf, þegar varamaður hefur forfallazt og aðalmaður hefur forfallazt líka áður, það er atriði, sem frv. það, sem hæstv. forsrh. hefur lagt fram, fjallar um. En hitt atriðið er aðeins hinn eðlilegi skilningur á orðalagi 31. gr., að úthluta Alþfl. einu varamannssæti, fyrst hann fékk einn mann kjörinn. Þarna er verið að rugla saman alveg tvennu.

Nú er það svo, að ég tel það vera hæpnara að vísu, að það sé hægt að gefa út nýtt kjörbréf, þegar hefur áður verið gefið út kjörbréf, en sá maður forfallast. Það tel ég vera hæpnara og vafasamara en þetta, sem mér finnst vera sjálfsagt og eðlilegt og eini rétti skilningurinn á þessari setningu, sem ég hef marglesið úr stjórnarskránni. En ég tel, að það hafi ýmsum þeim atriðum verið skipað með lögum í sambandi við kosningar, sem geri það heimilt að skapa slíkar reglur um varamenn með lögum, og þar vil ég sérstaklega benda á þetta, sem ég hef bent á áður, að Alþ. hefur leyft sér að leggja þann skilning í það, að þegar flokkur hefur fengið einn mann kjörinn og annar maður listans verður landsk. þm., þá megi taka þriðja manninn sem varamann. Þannig hefur Alþ. sem sagt gert ýmislegt til þess að rýmka skilninginn á þessu, en alltaf gætt þess í öllum þessum atriðum að raska ekki því, sem er höfuðatriði stjórnskipunarlaganna og kosningalaganna, að raska því ekki, að það sé vilji kjósendanna, sem ráði um skipun þingsins.

Það, sem sérstaklega þarf að gæta, þegar verið er að meta það, hvað stjórnarskráin segir, er að leggja ekki þann skilning í það, að kraftahlutföll flokkanna raskist. En það er einmitt sá skilningur, sem Sjálfstfl. vill leggja í þetta mál. Honum finnst það vera réttur skilningur — réttur skilningur á orðum og anda stjórnarskrár og kosningalaga — að raska kraftahlutföllum flokkanna á þinginu, án þess að kjósendurnir séu spurðir. Það er með því að láta kjósa upp einn mann í Reykjavik. En við viljum ekki gera það. Við höfum stjórnarskrána meira í heiðri en þessir hv. sjálfstæðismenn, sem núna forblindast í sinni stjórnarandstöðu, og viljum þess vegna leggja þann skynsamlegasta og eðlilegasta skilning í þessi orð stjórnarskrárinnar og leysa það á þann hátt, að Alþfl. fái þann sjálfsagða rétt, að hann fái einn varamann fyrir einn kjörinn mann úr Reykjavík og það verði sá maður, sem er á listanum, þegar kjörstjórn úthlutar varamannskjörbréfi.

Breytingarnar á bæjarstjórnarmönnunum og varamönnum bæjarstjórnanna skipta engu máli í þessu sambandi, og ég sé enga ástæðu til þess að fara að ræða um það hér. Þær snerta ekkert þetta mál.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar, en treysti á það, að hv. alþingismenn láti ráða meira, hvað eðlilegt er og beinasti skilningur á þessum orðum og hvað hyggilegast er fyrir þjóðfélagið og hvað er í mestu samræmi við anda stjórnarskrárinnar og orð hennar, en alls ekki öðru eins — ja, mér liggur við að segja pexi eins og því, sem hér hefur verið haldið fram í þessu máli.