07.03.1957
Efri deild: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

116. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Efni þess frv., sem hér liggur fyrir, er gamalt mál hér á hinu háa Alþingi, eins og áður hefur raunar verið að vikið í umr. um málið. Meginefni frv. er að ákveða, að þeir tveir aðilar, sem ágreiningur hefur verið um fram að þessu, hvort félagsheimilalögin tækju til, skyldu nú tvímælalaust eiga rétt á hliðstæðum styrk úr félagsheimilasjóði og önnur félagasamtök, sem nefnd eru í 1. gr. Þessir tveir nýju aðilar eru verkalýðsfélög og búnaðarfélög.

Þetta mál er gamalt mál hér á hinu háa Alþingi. Það hefur verið flutt þrisvar sinnum áður af hv. 4. þm. Reykv. Málið hefur einnig verið rætt allmikið í þeim félögum, sem um er að ræða, og þó sérstaklega verkalýðsfélögunum, og ýmis þeirra hafa þegar hafið undirbúning að framkvæmdum að byggingu félagsheimila, ýmist ein eða í félagi við aðra, og hafa, meðan á þeim undirbúningi hefur staðið, ætið vænzt þess mjög fastlega, að Alþingi gerði aðild þeirra að félagsheimilasjóði alveg tvímælalausa. Það var með hliðsjón af þessu, sem þetta frv. var flutt sem stjórnarfrv. nú fyrir skömmu.

Nú hefur hv. 6. þm. Reykv. flutt viðbótartill. við frv. um það, að einnig skuli bæta við starfsmannafélögum ríkis og sveitarfélaga og verzlunarmannafélögum. Ég vil ekki draga í efa, að æskilegt væri fyrir þessi félög að fá einnig hliðstæðan aðgang að félagsheimilasjóði og önnur þau félög, sem nú eiga rétt á hlunnindum þaðan. En þó er sá munur á verkalýðsfélögum og búnaðarfélögum annars vegar og þessum starfsmannafélögum og verzlunarmannafélögum hins vegar, að mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið sérstakt baráttumál eða áhugamál þessara félaga að fá aðild að félagsheimilasjóðnum. a.m.k. hefur enginn aðili frá starfsmannafélögum ríkis og sveitarfélaga eða verzlunarmannafélögum beint um það ósk til menntmrn. eða skorað á það að hlutast til um, að þeim yrði veitt aðild að félagsheimilasjóðnum, og ber þó auðvitað ekki að skilja orð mín svo, að það megi taka sem áhugaleysi þeirra um þetta efni.

Að því er varðar Bandalag starfsmanna ríkis og bæja mun þetta mál fyrst hafa komið til orða á síðasta allsherjarþingi bandalagsins og þá verið stofnaður byggingarsjóður þess bandalags og í hann ráðstafað 40 þús. kr.

Fjárframlögum verzlunarmannafélaga í þessu sambandi er ég ekki kunnugur, þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um það mál í ráðuneytinu.

Með tilliti til þess, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem þó er að sjálfsögðu alls góðs maklegt í þessum efnum, er tiltölulega nýbúið að fá áhuga á þessu máli og hefur enn yfir litlu fé að ráða í þessu skyni, þá tel ég, að það komi að engri sök í þetta skiptið, þó að þessari till. verði vikið frá og málið látið fram ganga í upphaflegri mynd, því að ég óttast, að það muni verða málinu til trafala við endanlega afgreiðslu þingsins, ef nýjum aðilum verður bætt við sem rétthöfum, ef svo mætti segja, auk verkalýðsfélaganna og búnaðarfélaganna. Skýringin á því er ofur einföld. Eins og ég gerði grein fyrir, þegar ég lagði málið fyrir við 1. umr. í þessari hv. d., býr félagsheimilasjóður nú við mjög þröngan kost, og brýna nauðsyn ber til þess að efla sjóðinn. Það var ein höfuðröksemdin hjá hv. þm. V-Sk. gegn þessu frv., að það væri óeðlileg stefna að bæta nýjum aðilum við sem rétthöfum til fjárframlaganna, því að það mundi skerða hlut hinna, sem fyrir væru. Með tilliti til þessara raka, sem fram komu einmitt frá hv. þm. V-Sk., einum af þm. Sjálfstfl. í d., hefði maður ekki átt að geta vænzt till. frá öðrum hv. þm. Sjálfstfl., sem gengi enn engra á þeirri braut. Hafi það verið rétt hjá hv. þm. V-Sk., að það væri óhagstætt fyrir þá aðila, sem eru fyrir aðilar að félagsheimilasjóðnum, að verkalýðsfélögum og búnaðarfélögum verði bætt við, þá er auðvitað enn óhagstæðara fyrir þá, að starfsmannafélögum ríkis og bæja og verzlunarmannafélögum sé líka bætt við.

Ég andmælti því að vísu við 1. umr. málsins, að það þyrfti að skerða nokkuð hag sjóðsins sjálfs, þó að sú breyting verði gerð, sem farið er fram á í þessu frv. Það á náttúrlega líka við, að þótt brtt. hv. 6. þm. Reykv. verði samþ., rýrir það ekki hag sjóðsins sjálfs. Hitt er rétt, að þeim aðilum fjölgar, sem æskja fjárins, og ef öllum yrði gerð einhver úrlausn, kæmi auðvitað minna í hlut hvers um sig.

Það er þó ekki að mínu viti aðalatriði málsins, heldur hitt, að ég tel vera eðlilegast að afgreiða málið í upphaflegri mynd, þar sem það í þeirri mynd er þegar orðið gamalt baráttumál þeirra félagasamtaka, sem hér eiga hlut að máli, verkalýðsfélaganna og búnaðarfélaganna. hlálið er hins vegar alveg nýlega komið á dagskrá hjá hinum félögunum, a.m.k. starfsmannafélögum ríkis og sveitarfélaga, — um hin vil ég segja minna, þar þekki ég mínna, — og ég tel eðlilegt, að þessi félagasamtök sjálf undirbúi aðild að félagsheimilasjóði betur en nú þegar hefur átt sér stað og treysti fjárhag sinn í þessu sambandi betur en þau hafa þegar gert. Þegar það liggur ótvírætt fyrir, að þessi félög hafa mikinn áhuga á því að gerast aðilar að félagsheimilasjóði, hafa lagt fram um það skýlausar óskir og rökstutt þær og þegar þau hafa búið þannig um fjárhag sinn, að telja má líklegt, að þau ætli raunverulega að ráðast í byggingu félagsheimilis eða félagsheimila, svo sem nú á sér stað um ýmis verkalýðsfélögin, tel ég sjálfsagt að taka á óskum þeirra í þessu sambandi með fyllstu velvild. Á þessu stigi hygg ég, að málinu í heild yrði mestur greiði gerður með því að afgreiða það í upphaflegri mynd, og æski þess við hv. d., að brtt. á þskj. 317 verði ekki samþ.

Varðandi hina brtt., á þskj. 316, um aukið framlag til félagsheimilasjóðs og að framlagið verði greitt úr ríkissjóði, eins og þar er gert ráð fyrir, 750 þús. kr., í fyrsta sinn árið 1958, vildi ég segja þetta:

Ríkisstj. hefur á döfinni ráðagerðir um að bæta hag félagsheimilasjóðsins. Þær ráðagerðir eru við það miðaðar, að tekjur af skemmtanaskatti geti aukizt nokkuð frá því, sem verið hefur, og að skiptingu skemmtanaskattsins verði nokkuð breytt frá því, sem verið hefur, þannig að hlutdeild félagsheimilasjóðsins verði aukin. Þetta er sú stefna, sem ríkisstjórnin mun fylgja í þessu máli.

Eins og hv. þm. án efa er ljóst, hefur aldrei verið ráð fyrir því gert, að ríkissjóður legði beinlínis fram á fjárl. fé til félagsheimilasjóðs, og mjög fáar till. hafa verið uppi um það á Alþingi á undanförnum árum. Það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því, að félagsheimilasjóður hefði sínar tekjur af skemmtanaskatti, en ekki beint úr ríkissjóði, og ég tel, að þeirri stefnu eigi að fylgja áfram. Það þyrfti a.m.k. miklu rækilegri undirbúnings og umræðna við, ef nú ætti allt í einu að breyta svo rækilega um stefnu í þessu máli sem hér er lagt til, að taka upp beinar fjárveitingar úr ríkissjóði til félagsheimilasjóðsins.

Þess vegna legg ég einnig til, að þessari till. verði vikið frá. Í því felst ekki það, og það vil ég segja að síðustu, að félagsheimilasjóður þyrfti í sjálfu sér ekki á þeirri upphæð að halda, sem hér er um að ræða, en ég tel æskilegt að bæta úr fjárþörf hans á annan hátt, eftir þeim leiðum, sem hingað til hafa verið farnar til þess að tryggja honum tekjur, og fyrir því mun ríkisstj. beita sér.