07.03.1957
Efri deild: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

116. mál, félagsheimili

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það var aðeins út af ræðu hæstv. menntmrh. Hann segir, að það sé gamalt baráttumál bæði verkalýðsfélaga og búnaðarfélaga að fá hér aðild. Ég minnist þess ekki, að frv. hafi legið fyrir Alþingi um, að búnaðarfélögin fengju aðild að þessum sjóði. Mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið lagt fyrir Alþingi fyrr, og ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hafa komið erindi frá búnaðarþingi eða Búnaðarfélagi Íslands til ríkisstj. um þetta efni? Ég hef ekki heyrt þessa getið fyrr. Hitt er annað mál, að frv. um, að verkalýðsfélögin fengju aðild, er gamalt mál og hefur verið flutt inn í Alþingi áður.

Það, að þessu hafi ekki verið hreyft fyrr á Alþingi eða ekki óskir komið frá starfsmannafélögum ríkis og bæja eða verzlunarfélögum um að fá aðild, eru harla lítilvægar röksemdir. Ég ætla, að þegar lögin voru sett, hafi ekki legið fyrir áskoranir eða beiðnir frá þeim félögum öllum, sem þar eru upp talin, um að vera aðilar.

Önnur röksemd hæstv. ráðh. gegn þessari brtt. var sú, að bandalag opinberra starfsmanna ætti ekki nema 40 þús. kr. í byggingarsjóði. Kannske á að skilja þessi orð þannig, að til þess að réttmætt sé, að félag sé aðili að því að fá styrk úr félagsheimilasjóði, þurfi hann að hafa gilda og digra sjóði, en þeir, sem fátækir eru og félitlir, megi alls ekki koma til greina. Ég mundi nú halda, að þetta væri þveröfugt, að þeir, sem hafa nú litlu úr að spila, ættu öllu fremur að verða styrks aðnjótandi. En sleppum því.

Ég held, að það hafi ekki komið fram nokkur efnisleg rök hjá hæstv. ráðh. gegn þessu, annað en það, að hann vill, að frv. verði samþykkt eins og ríkisstj. gekk frá því, og þar má engu til hnika.

Efnislega held ég, að allir hljóti að vera sammála um, að það er fullkomin sanngirni og réttmæti, að þessi félög, sem ég hef nefnt, starfsmannafélög ríkis og sveitarfélaga og verzlunarmannafélög, verði tekin hér með.

Varðandi hina till., um fjáröflun til félagsheimilasjóðs, varð ég fyrir miklum vonbrigðum með ræðu og upplýsingar hæstv. ráðh. Þegar frv. hv. þm. V-Sk. um, að félagsheimilasjóður fengi 50% af skemmtanaskattinum, var til umr„ skildist manni á hæstv. ráðh., að von væri á ákveðnum till. frá ríkisstj. alveg á næstunni. Nú orðaði hann það þannig: Ríkisstj. hefur á döfinni ráðagerðir um það að auka tekjur félagsheimilasjóðs, — og búið. Ég verð að segja, að þetta finnst mér svo loðið, að það er varla hægt að festa hendur á því. Ég hefði að sjálfsögðu veríð fús til þess að draga aftur þessa till. um fjáröflun til félagsheimilasjóðs, ef hefði komið fram eitthvað ákveðið frá ríkisstj., en fyrir svona loðnar yfirlýsingar er náttúrlega gersamlega ógerningur að taka till. aftur.

Hæstv. ráðh. færði fram þau rök gegn till. um, að ríkissjóður leggi fram 750 þús. kr., að það hafi ekki verið gert áður, og hann heldur því fram, að það verði að fara sömu leiðir og hingað til hafa verið farnar. Það má ekkert nýtt koma til greina. Ég verð að segja að mér blöskrar þessi íhaldssemi að geta ekki hugsað sér neinar nýjar leiðir í fjáröflun til félagsheimilasjóðs, og ég ætla, að ríkissjóður styrki það margvíslegar framkvæmdir, að það sé engin goðgá að tala um það, að ríkissjóður veiti einnig styrk til félagsheimila.

Ég ætla að nefna dæmi. Ríkissjóður ver alltaf á hverju ári nokkru fé t.d. til íþróttahúsa, til íþróttaleikvanga, þ.e.a.s. veitir fé í íþróttasjóð, og eins og hann veitir styrki til margvíslegra framkvæmda, hvers vegna mætti hann þá ekki styrkja félagsheimilin?