07.03.1957
Efri deild: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

116. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá að vekja athygli á því, að ræða hv. þm. V-Sk. verður ekki skilin öðruvísi en þannig, að hann sé á móti málinu í heild algerlega.

Þegar málið var til 1. umr. og það átti aðeins að ná til verkalýðsfélaga og búnaðarfélaga, andmælti hann málinu einnig. Nú, þegar hv. 6. þm. Reykv. hefur flutt till. um að bæta tveimur félagasamtökum við enn, sækir hann mjög í sig veðrið og þá væntanlega fyrst og fremst gagnvart flokksbróður sinum og segir, að hér sé verið að leika skrípaleik. Hann segir, að við hv. 6. þm. Reykv. séum hér að leika skrípaleik með því að ætlast til þess, að nokkrar breytingar verði gerðar á félagsheimilalögunum. Þessu vildi ég fyrir hönd okkar beggja hv. 6. þm. Reykv., sem báðir erum Reykjavíkurþingmenn, andmæla mjög eindregið.

Hér er ekki um neinn skrípaleik að ræða. Hér er um það að ræða, hvort bæta eigi við nýjum aðildarfélögum, og ég segi það, að þó að þeim öllum yrði bætt við, mundi það að engu leyti skerða hag sjóðsins. Spurningin er um það eitt, hvort eigi að bæta tveimur tilteknum félagasamtökum eða fjórum tilteknum félagasamtökum við.

Rök mín fyrir því að láta við það sitja í þetta skipti að bæta aðeins tveimur við eru einfaldlega þau, að það er gamalt áhugamál þeirra. Fyrir því hefur áður verið barizt, sérstaklega að því er snertir verkalýðsfélögin, og það liggja fyrir óskir um það frá forustuaðilum búnaðarsamtakanna, að búnaðarfélögin verði líka aðilar að málinu. Mér vitanlega liggja hins vegar ekki fyrir óskir um það frá hinum aðilunum, sem hv. 6. þm. Reykv. hefur tekið upp á sína arma, svo að ég tel það ekki knýjandi nauðsyn að gera nú þegar ráðstafanir í þá átt. En ég er reiðubúinn til að ljá því máli lið á síðara stigi málsins, þegar það hefur verið betur undirbúið.