07.03.1957
Efri deild: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

116. mál, félagsheimili

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, þegar hann gerði að umræðuefni till. þá, sem hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. V-Sk. flytja um aukið fjárframlag ríkissjóðs til félagsheimilasjóðs, að þetta væri mjög ófrumleg leið til tekjuöflunar fyrir sjóðinn; hitt hefði verið frumlegt, að benda á nýjar leiðir, nýjan tekjustofn til handa sjóðnum.

Ég get ekki varizt því að minna á það í þessu sambandi, að fyrir örstuttum tíma benti ég hæstv. menntmrh. einmitt á leið til þess að auka tekjur félagsheimilasjóðs. Það gerði ég í sambandi við umr. í Sþ. um mál, sem snerti þjóðleikhúsið og úrræði til að afla því aukinna tekna til þess að gera starfsemi þess fjölbreyttari. Ég benti á það, að mikill hluti kvikmyndahúsrekstrar í landinu greiddi nú ekki skemmtanaskatt. Með því að láta öll kvikmyndahús landsins sitja við sama borð gagnvart skemmtanaskatti, væri hægt að auka tekjur félagsheimilasjóðs um miklu hærri upphæð, það mætti tvöfalda þá upphæð a.m.k., sem gert er ráð fyrir í þeirri brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. V-Sk. Ég minnist þess ekki, að hæstv. menntmrh. tæki þessari ábendingu minni fegins hendi. Hann viðurkenndi að vísu, að það væru vissir gallar á því, að nokkur hluti kvikmyndahúsrekstrarins í landinu væri ekki skattskyldur til félagsheimilasjóðs, en hann lagði meiri áherzlu á að benda á þá agnúa, sem á því væru að skattleggja þennan hluta kvikmyndahúsrekstrarins, heldur en að koma til móts við mig og sameinast mér í baráttu fyrir því að skattleggja allan kvikmyndahúsrekstur og afla þar með stóraukinna tekna í félagsheimilasjóð.

Ég verð að segja það, að ég er dálítið tortrygginn gagnvart yfirlýsingu hæstv. ráðh., sem hann gefur nú um það, að áður en þessu þingi ljúki, skuli frv. um skemmtanaskatt, er þýði auknar tekjur í félagsheimilasjóð, verða lagt fram, þegar ég hef það í huga, að hann hefur í fyrsta lagi snúizt gegn þeirri till., sem hér liggur fyrir um beint framlag úr ríkissjóði, og þegar stjórnarliðið hefur einnig snúizt gegn tillögum frá sjálfstæðismönnum í fjvn. í þeim efnum og þegar hæstv. ráðh. hefur tekið með tómlæti ábendingu minni um, að það fyrsta, sem þyrfti að gera til þess að efla félagsheimilasjóð, væri að skattleggja allan kvikmyndahúsrekstur í landinu á sama hátt til sjóðsins.

Það má hver lá mér sem vill, þó að ég sé nokkuð tortrygginn gagnvart þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh., enda þótt ég voni i lengstu lög. að úr þessu verði, að hæstv. ráðh. leggi fram á þessu þingi frv., sem tryggi auknar tekjur í félagsheimilasjóð, því að þrátt fyrir allt efast ég ekkert um, að hann vill vel í þessu máli. Ég veit, að hann skilur það, að félagsheimilasjóður þarf á auknum tekjum að halda — og ég tek algerlega undir það, sem hv. þm. V-Sk. sagði hér áðan, fyrst og fremst til þess að bæta aðstöðu félagslífsins í dreifbýlinu. Það er vissulega nauðsynlegt að styrkja ýmis samtök þéttbýlisins til að koma sér upp samkomuhúsum og félagsheimilum, en nauðsynin er ekki eins knýjandi og brýn neins staðar og einmitt í sveitunum og dreifbýlinu. Við, sem höfðum á sínum tíma forgöngu um stofnun félagsheimilasjóðs, höfðum fyrst og fremst í huga dreifbýlið, sveitirnar og hin smærri kauptún og sjávarþorp víðs vegar um land. Reynslan sannar, að það er þar, sem erfiðleikarnir eru fyrst á því að koma þessum félagstækjum upp. Í kaupstöðunum yfirleitt, hinum stærri kaupstöðum og þá fyrst og fremst hér í Rvík, hafa yfirleitt risið sæmileg samkomuhús undir forustu margvíslegra félagasamtaka, sem þar hafa starfað. Þéttbýlið hefur betri skilyrði til þess að skapa félagslífi góða aðstöðu heldur en strjálbýlið.

Í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, vildi ég aðeins segja það, sem ég sagði i hv. Nd. fyrir einu eða tveimur árum, þegar flutt var frv. um að bæta verkalýðsfélögunum inn í lögin, að að sjálfsögðu er ég ekki á móti því, að verkalýðsfélög fái aðstoð til þess að bæta aðstöðu sína í sínu þýðingarmikla starfi; og það væri ákaflega æskilegt, að þau gætu orðið aðilar að félagsheimilasjóði, sjálfstæðir aðilar. En ég vil bara benda á það, sem einnig hefur komið hér fram áður, að ég held í vel flestum byggðarlögum landsins, þar sem reist hafa verið félagsheimili, hafa verkalýðsfélögin og sums staðar meira að segja búnaðarfélögin líka verið aðilar að þessum stofnunum. Það þarf þess vegna í raun og veru enga lagabreytingu til þess, að þau geti verið aðilar ásamt öðrum að þessum byggingum og að þessum stofnunum. Hins vegar þarf náttúrlega lagabreytingu til þess, að þessi félagasamtök geti ein fengið styrki úr félagsheimilasjóði, og það er það, sem raunverulega er að gerast hér með þessu frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt hér fyrir. Það er verið að leggja til, að verkalýðsfélög og búnaðarfélög geti ein sjálfstætt fengið styrki úr félagsheimilasjóði til byggingar félagsheimila, vegna þess að á undanförnum árum, allt frá því að félagsheimilasjóður var stofnaður, hafa þessi samtök getað verið aðilar með öðrum félagasamtökum að því að byggja félagsheimili.

Ég get ekki varizt því, að mér virðist, að þetta frv. sé hálfgert yfirborðsfrumvarp einmitt vegna þess, sem ég nú hef sagt. Ég vil hins vegar ekki snúast gegn frv. Ég tel bara, að það beri öfugt að. Fyrst átti hæstv. ríkisstj. að tryggja auknar tekjur til félagsheimilanna. Þegar hún af myndarskap hafði gert það,tryggt verulega auknar tekjur til byggingar félagsheimila í landinu, var ef til vill ekki óeðlilegt að hún kæmi og fjölgaði þeim aðilum, sem sjálfstætt gætu ráðizt í byggingu þessara stofnana. En hún hefur alveg öfugan hátt á. Fyrst fjölgar hún aðilunum, síðan gefur hún loðin loforð, sem við þó skulum vona, að verði efnd, um það, að tekjur sjóðsins skuli auknar.

Ég álít, að kjarni þessa máls og það, sem langsamlega sé þýðingarmest, sé ekki að fjölga aðilunum í bili, vegna þess að þessir aðilar, sem hér eru nefndir, hafa með öðrum getað staðið að byggingu félagsheimila, heldur hitt, að auka tekjur sjóðsins. Ég mundi fylgja frv., ef brtt. hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. V-Sk. um aukið fé yrði samþykkt, ella ekki. Við sjálfstæðismenn erum hér fyrst og fremst að tala málstað strjálbýlisins, standa vörð um félagsheimilasjóð og raunverulega framkvæmdamöguleika hans, raunverulega möguleika hans til þess að bæta aðstöðu þess fólks, sem mest þarf á aðstoð að halda til sköpunar sæmilegra skilyrða til eflingar heilbrigðs félagslífs í landinu.