08.03.1957
Efri deild: 66. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

116. mál, félagsheimili

Forseti (BSt):

Ég vil spyrja hv. þm. N-Ísf., hvort það sé till. hans að visa málinu á þessu stigi aftur til n.? (SB: Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort hann sjái aðra leið til þess að fá eðlilega umsögn um málið frá þeim aðila, sem það snertir helzt.) Ef umr. er frestað, getur n. að sjálfsögðu leitað í hléinu þeirra umsagna, sem henni sýnist. (Gripið fram í: Væri það ekki eðlilegast?) En það er gersamlega óvenjulegt að vísa máli til sömu nefndar og áður hefur um það fjallað. Að vísu stendur í þingsköpum, að það megi vísa máli til n. á hvaða stigi sem er, en það er búið að vísa málinu til hv. menntmn., og hún hefur skilað sínu áliti. Málið er í hennar höndum. (SB: Það er hvergi bannað að vísa því aftur til n.) Nei, það er hvergi bannað. Ég man ekki eftir því, að það sé beinum orðum bannað, en það liggur í hlutarins eðli, að slíkt er a.m.k. alveg óvenjulegt. Ég mundi að vísu bera það upp, ef þetta er ákveðin tillaga.