15.02.1957
Sameinað þing: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2384 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

Varamenn taka þingsæti

Frsm. minni hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég hef fáu við að bæta fyrri ræðu mína, en vil þó aðeins svara örfáum atriðum úr ræðum hv. þm. Siglf. (ÁkJ) og hv. þm. N-Þ. (GíslG).

Hér skaut upp hjá hv. þm. Siglf. sama misskilningi og kom fram hér um daginn í umr. varðandi landskjörna þm. af listum. Hv. þm. segir: Ef þessi skilningur er réttur, að listi, sem fær einn þm. kosinn, fái aðeins einn varamann, ætti það í þessu tilfelli að vera annar maður á lista Alþfl., hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason. — Telur hann, að með þessu stangist á það, sem við höfum haldið fram um þetta. Hér er um mikinn misskilning að ræða hjá hv. þm., sem stafar af því, að hann hefur ekki lesið 31. gr. stjórnarskrárinnar til enda.

Í 31. gr. stjórnarskrárinnar er nefnilega í d-lið rætt um 11 þm. til jöfnunar og um landslista flokka, og þar segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forsela:

„Frambjóðendur þess flokks, sem landslista hefur í kjöri og nær jöfnunarþingsæti, taka sæti eftir þeirri röð, sem þeir eru í á listanum að lokinni kosningu.“

Nú er það svo um landslista Alþfl. síðast, að að lokinni kosningu var Gylfi Þ. Gíslason efstur á landslista samkv. útreikningi, sem kosningalögin ákveða. Af þeirri ástæðu kemur hann samkv. d-lið stjórnarskrárinnar af sjálfu sér inn sem uppbótarmaður, og næsti maður á listanum kemur þá að sjálfsögðu sem varamaður. Hér er því um að ræða misskilning hjá hv. þm.

Þá ræddi hann um það og enn fremur hv. þm. N-Þ., að eftir kenningu okkar virtust aðeins eiga að vera sjö þm. fyrir Reykjavík, það sem eftir væri kjörtímabilsins, en stjórnarskráin ákvæði, að 8 þm. skyldu vera fyrir Reykjavík, hér stangaðist því á annað ákvæði stjórnarskrárinnar.

Hér er einnig um misskilning að ræða, því að ef þm. Alþfl. í Reykjavík og varaþingmaður hans vilja hvorugt taka sæti fyrir Alþfl. á þingi, þá ber samkv. kosningalögunum að kjósa að nýju um þetta auða sæti.

Ég vil taka það fram til skilningsauka, að í stjórnarskránni sjálfri eru engin ákvæði um uppkosningu eða aukakosningar. Það er látið kosningalögunum eða almenna löggjafanum á vald, hvernig fara skuli, þegar þingsæti verða auð. Í 135. gr. kosningalaganna eru svo ákvæði um þetta, og ég held, að aldrei hafi verið dregið í efa, að almannalöggjafinn hafi haft heimild til að setja slík ákvæði. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, — það byrjar á því, hvernig fara skuli, ef frambjóðandi deyr innan viku fyrir kjördag, og síðan segir: „eða þingmannssæti verður af öðrum ástæðum autt, áður en kjörtímabil er á enda, og skal þá dómsmrn. með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu kveðja til nýrra kosninga og ákveða kjördag, svo fljótt sem því verður við komið og eigi siðar en innan mánaðar.“ Hér er alveg skýlaust ákvæði um það, hvernig fara skuli, ef þingsæti Alþfl. fyrir Reykjavík verður autt. Hér er því ekki um það að ræða, að við heimtum, að Alþfl. hafi engan þm. eða séu aðeins sjö þm. fyrir Reykjavík. Það á að kjósa að nýju í þetta auða sæti.

Nú hafa hv. þm. haft orð á því, að það sé fjarstæða samkv. hlutfallskosningunum, að það ætti að kjósa einn mann í stað þessa. En við höfum í fyrsta lagi fordæmi fyrir því. Þegar Jón Magnússon og hans varamaður féllu frá 1926, stóðu þannig sakir, að landskjör hafði farið fram um sumarið, í júlímánuði 1926. Síðan er efnt til kosninga í hið auða sæti Jóns Magnússonar um haustið 1926. Nú höfðu kosningar fallið þannig í hinu almenna landskjöri, að Íhaldsflokkurinn, sem Jón Magnússon var fyrir, fékk að vísu flest atkvæði einn flokka, en miklu færri atkv. en aðrir flokkar eða frambjóðendur samtals. Þess vegna var vissulega töluverð áhætta fyrir þann flokk að ganga til kosninga á einum manni, og hefði vissulega verið handhægara að grípa til þeirrar túlkunar, sem nú virðist vera ofan á hjá Alþingi, að fara bara neðar á listann og taka þriðja mann þar. Það taldi enginn maður heimilt þá. Kosningar fóru síðan fram, og andstöðuflokkar Íhaldsflokksins báru fram einn sameiginlegan lista.

Ef nú ætti að fara fram kosning á einum manni hér í Rvík í stað Haralds Guðmundssonar og Rannveigar Þorsteinsdóttur, yrði í fyrsta lagi vel hægt að hugsa sér og líklega ekki fráleitt, að stjórnarflokkarnir þrír gangi sameiginlega til þeirra kosninga, og munu þá væntanlega, eins og þeir telja ríkisstj. hafa staðið sig vel, vera nokkurn veginn öruggir um sigur. Hins vegar skal ég láta í ljós mína skoðun, að ég tel, þegar slík aukakosning þarf að fara fram í hlutfallskjördæmi, að þá sé vafalaust mjög sanngjarnt sem almenn regla, að aðrir flokkar bjóði ekki fram á móti, og a.m.k. teldi ég það sjálfsagða reglu, ef Alþingi væri rétt mynd af þjóðarviljanum. Því miður er því ekki að heilsa nú, þar sem tveir flokkar hafa með bandalagi sínu á s.l. sumri gersamlega brenglað þá réttu mynd af þjóðarviljanum, með því að þessir tveir flokkar hafa langtum fleiri þingsæti en þeir eiga rétt á samkv. kjósendatölu.

Ég hef ekki fengið svör við því, hvaða nauðsyn ber til þess, að aðalmaður Alþfl. hverfi af þingi í byrjun kjörtímabils, jafnvel maður, sem er kosinn á Alþingi sem form. þessa flokks, og vafalaust hafa margir kjósendur greitt flokknum atkvæði í trausti þess, að sá ágæti maður mundi veita flokknum forstöðu á þessu kjörtímabili. Í öðru lagi hef ég engar skýringar fengið á því, hvaða nauðsyn ber til þess, að hinn réttkjörni varaþingmaður Alþfl., Rannveig Þorsteinsdóttir, tekur ekki sæti á Alþingi. Hv. þm. Siglf. orðaði það þannig, að við sjálfstæðismenn vildum láta draga hana nauðuga inn í þingið. Ja, ég verð að segja það, að það er ákaflega hörmulega fyrir Alþfl. komið, ef hver frambjóðandinn, hver réttkjörinn þm. eftir annan neitar að sitja fyrir hann á Alþingi. Mér virðist, að nú séu tvær manneskjur, karl og kona, sem bæði þverneita þingsetu fyrir Alþfl. En þar sem hér er ekki um að ræða nein forföll, ekki fráfall eða forföll, þá er vissulega ekki hægt að segja, að á nokkurn hátt sé verið að neita Alþfl. um nokkurn rétt, þegar hann hefur þarna tvær manneskjur í fullu fjöri, sem hann gæti látið fylla þetta sæti.

Hv. þm. Siglf. talar nú með mjög mikilli hneykslun um bókstafsskilninginn og telur þær skýringar, sem ég hef gefið hér á þessu ákvæði stjórnarskrárinnar um varamennina, skýringar, sem allir hafa verið á einu máli um, þangað til núna síðustu vikurnar, — hann kallar þetta bókstafsskilning, sem hann talar um með mikilli hneykslun, — og hvað það sé fjarri öllu lagi að binda sig við bókstafinn í stað þess að dæma eftir anda laganna.

Nú er það, að stuðningsblað hans og ríkisstj. hafði í haust eða sumar þessi orð, sem mættu, án þess að ég vilji gera þau að mínum, þó vera nokkurt svar til hv. þm. Siglf., en stjórnarblaðið Tíminn sagði svo orðrétt í fyrrasumar:

„Hvar væru menn yfirleitt staddir, ef dómararnir hættu að hirða nokkuð um lagabókstafinn, heldur færu eftir því, sem þeir þættust kalla anda hans. Það þýddi það, að lögin væru raunverulega numin úr gildi. Menn gætu ekki lengur treyst ákvæðum þeirra, hve skýlaus sem þau væru. því að dómararnir hefðu vald til að túlka „anda“ þeirra eins og þeim sýndist. Það þýddi það, að ekki væri lengur búið í réttarríki.“

Þessi voru orð stjórnarblaðsins Tímans. Vil ég svo láta hv. þm. Siglf. glíma nokkuð við þessi ummæli fyrst um sinn, án þess, eins og ég tók fram. að ég geri þessa lagatúlkun Tímans að mínum orðum.

Ég ætla, að það séu ekki fleiri atriði, er fram komu hjá þessum tveimur hv. þm., sem máli skipta eða ástæða er til að svara.