29.05.1957
Efri deild: 114. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

116. mál, félagsheimili

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var til umr. fyrir alllöngu hér f hv. þd., var samkvæmt till. minni frestað umr. um það og leitað álits hv. stjórnar félagsheimilasjóðs um málið, en það hafði láðst, þegar málinu hafði upprunalega verið vísað til hv. menntmn. Þetta álit liggur nú fyrir, og ég tel rétt, af því að hv. þd. hefur ekki gefizt tækifæri til þess að sjá það sem prentað fylgiskjal með nál., að ég lesi það upp hér. Ég vildi leyfa mér að gera það, með leyfi hæstv. forseta, þar sem í því felast mjög greinargóðar upplýsingar nm starfsemi félagsheimilasjóðs og eðli þess frv., sem hér liggur fyrir. Álitið er þannig, með leyfi hæstv. forseta :

„Reykjavík, 8. marz 1957. Menntmn. Ed. Alþingis hefur með bréfi, dags. í gær, óskað umsagnar íþróttanefndar ríkisins og fræðslumálastjóra um frv. það til laga, er nú liggur fyrir Alþingi um breyt. á l. nr. 77/1947, um félagsheimili.

Á sameiginlegum fundi íþróttanefndar og fræðslumálastjóra, er haldinn var sama dag, voru þessir aðilar sammála um, að þeir gætu mælt með því, að ofangreint frv. verði að lögum, og er afstaða þeirra um þetta atriði óbreytt frá því, sem verið hefur og greint hefur verið frá i bréfum til menntmn. Alþingis hinn 18. nóv. 1953.

Til nánari skýringa og áherzlu skal tekið fram eftirfarandi:

Í 1. gr. l. um félagsheimili frá 1947 eru talin upp sex félög, sem eiga rétt til styrkja úr félagsheimilasjóði, og þar sem minnzt er á hvers konar önnur menningarfélög, hefur stjórn sjóðsins litið svo á, að átt væri við hliðstæð félög þeim, sem upp voru talin.

Það er vitað, að öll þessi félög hafa fyrr og síðar haft forgöngu um að byggja samkomuhús víðs vegar um landið, og um mörg þeirra hefur fólk almennt getað sameinazt án tillits til stétta eða stjórnmálaskoðana.

Þau félög, sem mest störfuðu að byggingu samkomuhúsa fram að því, að lögin um félagsheimili voru sett, voru ungmennafélögin og góðtemplarastúkurnar.

Eftir að lögin voru sett, var stofnað til víðtækari samvinnu um húsin, enda var þá lögð áherzla á stærri og vandaðri byggingar. Á sumum þeim stöðum, sem mynduð var samvinna um smíði félagheimila, eru verkalýðsfélög aðilar. Þá er þannig kveðið á í samvinnusamningum um byggingu og rekstur slíkra félagsheimila, að verkalýðsfélögin geta farið með meiri hluta atkvæða í málum félagsheimilanna. Má í þessu sambandi benda á félagsheimilin í Bolungavík og á Sauðárkróki.

Fræðslumálastjóri og íþróttanefnd ríkisins hafa aldrei lagzt gegn því, að verkalýðsfélög væru þátttakendur að félagsheimilum, en hins vegar eigi getað fallizt á, að verkalýðsfélögum eða hliðstæðum félagssamtökum yrði veittur styrkur úr félagsheimilasjóði til þess að byggja félagsheimili ein út af fyrir sig, og vilja í því sambandi taka fram eftirfarandi:

1. Verkalýðsfélög eru fyrst og fremst hagsmuna- og stéttarfélög og beinlínis stofnuð og starfrækt sem slík, og þótt stjórnmálaskoðanir takmarki ekki þátttöku, þá eru þau samt annars eðlis en félög þau, sem upp eru talin og við er átt í 1. gr. laga um félagsheimili.

2. Með því að verkalýðsfélög eru gerð aðilar að styrk úr félagsheimilasjóði og gætu þar með reist sín eigin félagsheimili, er starfssvið félagsheimilasjóðs fært mjög út, því að jafnframt yrði hliðstæðum stétta- og hagsmunafélögum opnuð leið að félagsheimilasjóði, t.d. félögum iðnaðar og verzlunarmanna, starfsmannafélögum ríkis og bæja, svo og hvers konar launþegafélögum.

3. Samkvæmt núgildandi lögum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús ber félagsheimilasjóði 35% af álögðum skemmtanaskatti. Nam sú upphæð á árinu 1955 kr. 1632667.13, áætlun fyrir 1956 rúmlega 1.7 millj. kr., og enda þótt félagsheimilasjóður fengi til umráða 50% skemmtanaskattsins, eins og honum var upprunalega ætlað í lögum þessum, mundi það eigi hafa í för með sér aukningu á möguleikum sjóðsins til þess að taka að sér ný og aukin verkefni, sem aðild þessara mörgu og fjölmennu hagsmuna- og stéttarfélaga mundi hafa í för með sér.

4. Um síðustu áramót skorti félagsheimilasjóð 3.7 millj. kr. til þess að greiða áfallna styrki. Í byggingu eru núna 40 félagsheimili, sem öll eru þegar farin að njóta einhvers styrks, auk 13, sem eru fullbyggð, en hafa eigi hlotið að fullu tilskilda styrki úr sjóðnum. Þá er vitað um 42 félagsheimili, sem hafinn er undirbúningur að. Af þessu má ljóst vera, að verkefni sjóðsins eru langtum meiri en svo, að nokkur von sé til þess, að hann geti annað þeim, enda þótt hann nyti 50% skemmtanaskattsins, sem upphaflega var ætlazt til, og er þá hér eingöngu miðað við þau félög, sem talin eru upp í 1. gr. núgildandi laga. Búnaðarfélög eru hagsmunafélög fyrst og fremst. Skal og í þessu sambandi á það bent, að ekki er vitað, að eitt einasta búnaðarfélag hafi gerzt aðili að stofnun félagsheimilis, hvað þá farið fram á að byggja félagsheimili út af fyrir sig.

Virðingarfyllst,

Guðjón Einarsson. Helgi Elíasson.

Þorsteinn Einarsson.

Til menntamálanefndar efri deildar Alþingis.“ Það, sem mér finnst einna athyglisverðast í þessari grg. stjórnar félagsheimilasjóðs, er það, að stjórnin kveður alveg greinilega á um það, að enda þótt félagsheimilasjóður fengi til umráða 50% skemmtanaskattsins, sem hann hefur nú fengið skv. nýsamþykktum lögum, mundi það ekki hafa í för með sér þá aukningu á möguleikum sjóðsins til þess að taka að sér ný og aukin verkefni, sem aðild þessara mörgu og fjölmennu hagsmuna- og stéttarfélaga gerir ráð fyrir.

Ég álít, að fram hjá þessum ábendingum megi hv. Alþ. alls ekki líta, hversu mikinn áhuga sem við höfum fyrir því að setja mörg fleiri samtök undir þau ákvæði, sem um félagsheimill gilda, og ég játa, að það er fyllilega eðlilegt, að menn hafi áhuga fyrir því að koma t.d. verkalýðsfélögum undir þessi ákvæði og samtökum starfsmanna ríkis og bæja, verzlunarmanna, iðnaðarmanna o.s.frv. En þá gætir Alþingi þess bara ekki, hvaða fjárhagslegir möguleikar eru fyrir hendi til þess raunverulega að styðja þessa aðila og tryggja, að starfsemi félagsheimilasjóðsins nái tilgangi sinum.

Við þm. Sjálfstæðisfl. hér í hv. Ed. fluttum á þskj. 319 brtt. við þetta frv. um, að á eftir 1. gr. frv. kæmi ný grein, svo hljóðandi:

„Fari rekstrarhagnaður Áfengisverzlunar ríkisins fram úr áætlun fjárlaga árið 1957, skal það, sem umfram er, renna í félagsheimilasjóð, þó ekki yfir 1.5 millj. kr.“

Ég teldi það út af fyrir sig frekar möguleika að samþ. þetta frv., ef slík brtt. væri samþ., því að hér er þó bent á raunhæfa leið til þess að auka tekjur sjóðsins að miklum mun. Samkvæmt því frv., sem nú er búið að samþ. og felur í sér, að félagsheimilasjóðurinn á að fá 50% af skemmtanaskattinum, er gert ráð fyrir, að hluti félagsheimilasjóðs á þessu ári nemi 2.8 millj. kr. Ef hann fengi til viðbótar 1.5 millj. kr., væri strax opnaður möguleiki fyrir því að bæta nýjum verkefnum á lista sjóðsins, en án þess að gera það, án þess að samþ. þessa brtt. eða einhverja aðra tekjuöflunarleið, er ákaflega óráðlegt að samþ. till. eins og þá, sem í þessu frv. hæstv. ríkisstj. felst.

Ég skal þó játa, að sú skrifl. brtt., sem hæstv. menntmrh. hefur hér lagt fram, er þó spor í rétta átt og gerir frv. nokkru aðgengilegra, en þar segir, að menntmrh. geti sett sem skilyrði fyrir styrk úr sjóðnum til félagsheimills, að fleiri en eitt félag standi að byggingu þess, til þess að afnotaþörf þess verði sem bezt fullnægt og rekstur geti orðið sem hagkvæmastur.

Þetta er strax spor i rétta átt, að gera ráð fyrir því, að fleiri en eitt félag sameinist um byggingu félagsheimilis, elns og alltaf hefur verið. En dálítið er þessi till. hjá hæstv. ráðh. óljós. Þar er talað um, að hægt sé að setja það sem skilyrði fyrir styrk úr sjóðnum til félagsheimilis, að fleiri en eitt félag standi að byggingu þess. Er átt við í þessu sambandi fleiri en eitt verkalýðsfélag eða fleiri en eitt félag yfirleitt? Ég álít, að það skipti nokkru máli, hvort gert er ráð fyrir því, að félögin séu mynduð á breiðum grundvelli af öllum félagasamtökum hvers byggðarlags, eða hvort gert er ráð fyrir, að það megi veita styrki, við skulum segja t.d. tveimur verkalýðsfélögum á sama stað.

Ég er hræddur um, að þetta miðist fyrst og fremst við Reykjavík og það, að hin stóru og fjölmennu verkalýðsfélög hér geti orðið njótandi aðildar að sjóðnum, og það er ég hræddur um að sjóðurinn sé allt of veikur til að geta orðið, hversu feginn sem ég vildi koma á móti óskum þessara félagasamtaka.

En hvað sem við er nú átt með þessu „fleiri en eitt félag“, þá stefnir þessi brtt. í rétta átt. Hins vegar held ég, að málið allt sé af hálfu hæstv. ríkisstj. mjög hæpið enn þá, nema því aðeins að brtt. á þskj. 319 frá okkur þm. Sjálfstfl. yrði samþ. og þannig tryggður raunverulegur tekjuauki til starfsemi félagsheimilasjóðs.