29.05.1957
Neðri deild: 115. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

116. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv., sem komið er frá hv. Ed., felst það, að bætt er tveim tegundum félaga við þá upptalningu á félagasamtökum, sem geta notið styrks úr félagsheimilasjóði til byggingar félagsheimila. Þær nýju félagategundir, sem gert er ráð fyrir í frv. að geti notið slíks styrks, eru verkalýðsfélög og búnaðarfélög.

Hv. Ed. hefur samþ. tvær brtt. við frv. Önnur er þess efnis, að menntmrh. geti sett sem skilyrði fyrir styrk úr sjóðnum til félagsheimilis, að fleiri en eitt félag standi að byggingu þess, til þess að afnotaþörf verði sem bezt fullnægt og rekstur geti orðið sem hagkvæmastur. Hin till., sem samþ. var, er um, að á meðan félagsheimilasjóður geti ekki fullnægt hlutverki sínu sakir fjárskorts, skuli félagsheimili í sveitum og kauptúnum sitja fyrir um styrk úr sjóðnum:

Ég mun við 2. umr. málsins bera fram brtt. um, að ákvæðin, sem felast í síðari till., sem samþ. var í Ed., verði felld burt. Þá till. mun ég leggja fram við 2. umr. málsins og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr.