29.05.1957
Neðri deild: 116. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

116. mál, félagsheimili

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er ljóst, að með samþykkt þessa frv. leggjast nýjar kvaðir á félagsheimilasjóð. Út af fyrir sig er ég ekki að hafa á móti því, að þeim félögum, sem hér er rætt um, sé veitt aðstaða til þess að njóta styrks úr sjóðnum. En hitt gefur auga leið, að með því að auka verksvið sjóðsins, sem hér greinir, þá er mjög aukin fjárþörf hans. Nú hefur að vísu verið gerð nokkur breyting til lagfæringar fyrir sjóðinn, en þó á engan hátt fullnægjandi, miðað við þá miklu þörf, sem nú er, og þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru f þessum efnum, og þar sem ætla má, að þeir nýju aðilar, sem hér er svo hart sótt á um að taka inn í lögin, hafi í hyggju framkvæmdir í félagsheimilagerð, því að ella hefði ekki verið þörf á þessari breytingu, þá er ljóst, að það er mikil nauðsyn að auka verulega fjárhæð sjóðsins.

Það kom hér fram í umr. í sambandi við fjáröflun til menningarsjóðs, að komið hefði til tals að hækka útsöluverð áfengis til þess að afla menningarsjóði tekna. Það var hins vegar ekki fallizt á það af meiri hl. d., heldur haldið við þá fjáröflun, sem þar var gert ráð fyrir, að skattleggja aðgöngumiða að dansleikjum og kvikmyndasýningum. Við hv. þm. Borgf. (PO) viljum því leyfa okkur að flytja við þetta frv., brtt., sem svo hljóðar:

„Hækka skal útsöluverð áfengis um 5%, og rennur það fé í félagsheimilasjóð.“

Með þessu er ekki verið að taka neinar tekjur af ríkissjóði, enda hefur hann vafalaust þörf fyrr sínar tekjur allar, en það virðist ekki óeðlilegt, að þessi leið verði farin til þess að létta undir með þessum félagsheimilum og skapa jafnframt skilyrði fyrir því, að þetta frv. verði annað og meir en bókstafurinn einn. Þess vegna vildi ég leyfa mér að vænta þess, að þessi brtt. okkar fengi hér góðar undirtektir og sýndi hug manna á því að efla starfsemi þessa mikilvæga sjóðs. Þar sem ber nú mjög brátt að um afgreiðslu málsins, verðum við að flytja brtt. skriflega og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.