15.02.1957
Sameinað þing: 32. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2393 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

Varamenn taka þingsæti

Frsm. minni hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. þm. Siglf. lauk ræðu sinni með því, að sjálfstæðismenn héldu fram þessum skilningi ekki með rökum, heldur væru þetta útúrsnúningar í þeim tilgangi einum að koma fleyg inn í stjórnarsamstarfið.

Mér fannst fróðlegt að heyra þessi orð úr munni hv. þm. Siglf., því að ég veit ekki betur en hann hafi sjálfur borið fram till. um það að sprengja stjórnarsamstarfið, sem sagt að reka kommúnistana úr stjórninni. Þetta hefur hann flutt í sínum flokki og er opinbert mál. En sleppum því.

Þau ummæli hans, að þetta séu útúrsnúningar einir, pólitískar brellur og þar fram eftir götunum, er náttúrlega ekki svaravert, þar sem þessi hv. þm. eins og allir aðrir veit, að sá skilningur á stjórnarskránni, sem hér hefur verið haldið fram, er í samræmi við óvefengdan skilning allra í yfir 40 ár á þessum varamannsákvæðum. Slík ummæli sem þessi eru því í rauninni ekki svaraverð frá hv. þingmanni.

Það voru tvö eða þrjú atriði í ræðu hv. þm. Ak., sem mér þykir rétt að minnast á. Hann segir: Ef ætti að fara fram kosning á einum manni í Reykjavík, þá væri það stjórnarskrárbrot, vegna þess að stjórnarskráin segir, að í Reykjavík skuli kosnir átta þm. hlutbundinni kosningu.

Nú er það svo, að þegar aukakosningin fór fram við landskjör haustið 1926, var kosinn einn landskjörinn þingmaður. Stjórnarskráin, sem þá var í gildi frá 1920, sagði, að á þingi skyldu eiga sæti sex þingmenn, kosnir hlutbundnum kosningum um land allt.

Það leiðir auðvitað af eðli málsins, að ef einhver þessara landskjörnu þm. eða í þessu tilfelli einhver þingmanna Reykjavíkur fellur frá eða segir af sér og varamaður er ekki fyrir hendi, þá verður að kjósa í staðinn. Og það er auðvitað misskilningur hjá hv. þm., að það komi í bága við þetta stjórnarskrárákvæði, enda höfum við þetta óvefengda fordæmi frá 1926 fyrir hendi.

Hv. þm. segir, að mér hafi orðið sú vangá á að segja, að í stjórnarskránni væri ekkert ákvæði um aukakosningar eða uppkosningar, ef þm. fellur frá eða sæti hans verður laust. Það má vera, að ég hafi ekki orðað þetta nákvæmlega. En það, sem ég átti við, var auðvitað, að í stjórnarskránni væru engin ákvæði um aukakosningar varðandi þá þm., sem kosnir eru hlutbundnum kosningum, þ.e.a.s. í Reykjavík eða tvímenningskjördæmunum. Í 31. gr. stjórnarskrárinnar segir í e-lið sérstaklega, að deyi þm., kosinn í einmenningskjördæmi, eða fari frá á kjörtímanum, skuli kjósa þm. í hans stað fyrir það, sem eftir er kjörtímans. Þetta er sérákvæði um kosningarnar í einmenningskjördæmunum, af því að þar eru engin varasæti til. Um hina þingmennina eru engin ákvæði í stjórnarskránni, og þess vegna hefur almenni löggjafinn sett það, eins og ég gat um, í 135. gr. kosningalaganna.

Ég ætla, að í rauninni sé það alveg óvefengt, að þangað til þessi spurning vaknaði nú fyrir skemmstu um varasæti Haralds Guðmundssonar, hafi allir verið sammála um, að skilja bæri stjórnarskrána eins og ég hef hér lýst, að af hverjum lista gætu ekki komið til greina fleiri varamenn en aðalmenn eru kosnir af þeim lista. Það eru stjórnarflokkarnir háttvirtir, sem nú vilja brjóta í bága við þann viðurkennda skilning, sem eins og ég gat um hefur verið óvefengdur bæði í kenningu og framkvæmd. Ef frá þessum augljósa og ótvíræða skilningi er vikið, eins og hér er lagt til af meiri hl. kjörbréfanefndar, er vissulega farið þar út á hálan ís og hættulega braut. Það má vel vera, að það komi einhvern tíma í kjölfarið, að menn segi sem svo: Ja, það er sjálfsagt að skilja og túlka stjórnarskrána þannig, að það megi taka inn varamenn, t.d. fyrir þm. í einmenningskjördæmum. — Og vissulega má færa viss rök fyrir því. Það má segja: Ja, fyrst það eru varamenn fyrir uppbótarþm., fyrst eru varamenn fyrir Reykjavíkurþingmennina og fyrst eru varamenn fyrir þm. í tvímenningskjördæmum, þá er lögjöfnun sjálfsögð og heimil um það, að megi taka inn varamenn fyrir þingmenn í einmenningskjördæmum. — Og eftir þeim skilningi ætti þá Alþingi væntanlega að vera í sjálfsvald sett, annaðhvort með þál. eða atkvgr. eins og um kjörbréfið nú eða með lögum að ákveða, hverja skyldi taka inn sem varamenn.

Vitanlega blandast engum hugur um það, að slíkt væri tvímælalaust stjórnarskrárbrot, alveg eins og það er stjórnarskrárbrot að túlka stjórnarskrána hér eins og meiri hl. kjörbréfanefndar leyfir sér að gera. Og út af því kjörbréfi, sem meiri hl. yfirkjörstjórnar Reykjavikur hefur gefið út, þá kemur það skýrt fram, eins og ég hef lesið hér áður, að allir þrír yfirkjörstjórnarmenn eru á einu máli um, að það skorti lagastoð til þess að taka þm. gildan, og meiri hl. yfirkjörstjórnar réttlætir aðeins þessa formlegu athöfn sína, útgáfu kjörbréfsins, með því, að Alþingi hafi fyrirskipað og það beri ábyrgð á þessu máli.

Hv. þm. Ak. gekk svo langt í sínum málflutningi, að hann vildi ekki aðeins halda því fram um þann skilning, sem meiri hl. kjörbréfanefndar heldur fram, að taka 4. mann á lista Alþfl. gildan sem varamann, að það væri löglegt, heldur gekk hann svo langt, að afstaða mín og okkar, sem höldum fram sömu skoðun, leiddi til skýlauss stjórnarskrárbrots. Svo er nú skörin farin að færast upp í bekkinn, að sá skilningur, sem í fjóra áratugi hefur verið óvefengdur og ríkjandi, sem hefur verið kenndur án nokkurs ágreinings í Háskóla Íslands í rúma fjóra áratugi, sá sem er staðfestur í Réttarsögu Alþingis eftir einn merkasta lögfræðing, sem þjóðin hefur átt, sem er staðfestur í framkvæmd með landskjörinu 1926, sem er staðfestur af yfirkjörstjórn Reykjavíkur allri óskiptri, — þessi skilningur á að vera hreint stjórnarskrárbrot eftir túlkun hv. þm. Ak. Ég veit í rauninni ekki, hvort á að eyða orðum að slíku. En vissulega var það kannske í nokkru samræmi við þetta og raunar málsvörn þessa hv. þm. hér í haust varðandi uppbótarsætin, að hann segir, að till. meiri hl. kjörbréfanefndar leiði einar til réttlátrar niðurstöðu. Þetta minnir ónotalega á það, þegar þessi hv. þm. tók að sér í haust að halda uppi aðalmálsvörn fyrir kosningabrellur Alþfl. og Framsfl. til þess að ná fleiri landskjörnum þm. í uppbótarsætum heldur en reglur og réttur stóðu til og til þess að gera Alþingi ranga mynd af þjóðarviljanum. Þá var það líka niðurstaðan hjá þessum hv. þm. eins og nú, að afstaða Framsfl. og Alþfl. og aðferð þeirra leiði ein til réttlátrar og sanngjarnrar niðurstöðu.