29.05.1957
Efri deild: 116. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

116. mál, félagsheimili

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég undrast sannast sagna þann hofmóð, sem hlaupinn er í hv. þm. N-Ísf. út af þessu máli. Mér finnst, að hann ætti að bera nú sem áður fullt traust til þdm. um það, hverja aðstöðu þeir hafa til þessa máls. Þá, sem ekki sátu á hv. Alþ., þegar mál þetta kom hér fyrst fram, hlýtur að furða á þessum sérstöku hamförum, sem hann fer með gegn þessu máli. En okkur, sem vorum viðstaddir og áttum hlut að því, að þetta mál var hér upphaflega flutt, furðar ekki á þessu. Við vitum ósköp vel, hvern hug hv. þm. hefur borið til þessa máls frá upphafi, og öll þau brigzlyrði, sem hann lætur nú falla í gar hv. menntmrh., eru með öllu tilhæfulaus. Hann hefur flutt þetta mál hér vegna þess, að það var vitað frá upphafi, að það var meirihlutavilji fyrir framgangi málsins hér á þ., þó að það fengist ekki fyrir afstöðu hans og hans skoðanabræðra úr n. hér á þremur þingum í röð.

Ég vil undirstrika þau orð, sem hv. menntmrh. sagði hér áðan, og undirstrika þær vonir, sem hann lagði hér fram, að málið yrði afgreitt í þeirri mynd, sem það hefur nú borizt, enda var það samþ. í hv. Nd. með 17:2 atkv., þannig að það er augljóst, hver vilji hv. Alþ. er, a.m.k. eftir þeirri atkvgr., sem þar fór fram, og ég vona, að úrslitin verði svipuð hér.