07.12.1956
Efri deild: 25. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

35. mál, hnefaleikar

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til þess að segja nokkur orð í sambandi við það lagafrv., sem hér liggur fyrir um bann við hnefaleikum.

Í íþróttalögum er gefin skýrgreining á, hvað íþrótt sé: Það eru líkamsæfingar, er stefna að því að auka heilbrigði manna og hreysti, líkamsfegurð, vinnuþrek og táp.

Það fer ekki milli mála, ef þessi skýrgreining er höfð á íþróttum, að þá falla hnefaleikar ekki undir það hugtak.

Hnefaleikar hafa, sem betur fer, aldrei orðið vinsæl íþrótt hér á landi. Erlendis gegnir öðru máli í því efni. Hnefaleikar eru heilsuspillandi íþrótt, og hafa margir erlendir læknar hvað eftir annað skrifað um það efni. Hún er fólgin í því, þessi íþrótt, að veita andstæðingnum rothögg, en rothögg jafngildir heilahristing, og allir fara nærri um, að heilahristingur er ekki heilsusamlegur.

Þeir, sem iðka hnefaleika, verða aftur og aftur fyrir því að skaddast á heilanum. Smátt og smátt koma fram varanlegar breytingar hjá þessum mönnum, og eru þær aðallega andlegs eðlis, minnisbilun og breytt skapgerð til hins verra. Þeir verða æstir í skapsmunum og bráðir í lund, og auk þess verða oft hjá þeim ýmsar siðferðilegar veilur, sem beinlínis orsakast af rothöggunum.

Auk þess sem hnefaleikar eru þannig mjög heilsuspillandi íþrótt, ef íþrótt skyldi kalla, þá er leikurinn í sjálfum sér ljótur og hrottafenginn og hefur jafnt á iðkendur sem áhorfendur siðspillandi áhrif. Það má líkja honum að því leyti við nautaat. Hann er langtum hrottafengnari og ljótari en t.d. skylmingar, sem þó í ýmsum löndum hafa verið bannaðar.

Við Íslendingar iðkuðum og iðkum glímu og þreytum jafnvel fangbrögð hver við annan, en þennan leik höfum við lítið iðkað, sem betur fer. Hann á engan jarðveg hér á landi, og það væri meira en bættur skaðinn, þótt hann yrði með öllu bannaður.

Ég vildi aðeins mæla þessum orðum til hv. deildar í tilefni af því, að þetta frv. er nú tekið á dagskrá, og það er mín von og ósk, að það fari í gegn og verði að lögum, og ég tel, að það sé sómi fyrir okkur Íslendinga að verða fyrstir til þess. Margir læknar og heilbrigðisfrömuðir erlendis munu taka eftir þessu og munn nota það í baráttu sinni í sínum löndum fyrir að ná sama árangri, en eins og kunnugt er, er það erlendis víða mjög erfitt, vegna þess að auðmagnið stendur að baki hnefaleikasýningum, og það er í því efni eins og alls staðar annars staðar sterkt afl.