18.12.1956
Efri deild: 33. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

35. mál, hnefaleikar

Frsm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar og afgreiðslu lagafrv. það, er hér liggur fyri til 2. umr. um bann við hnefaleikum. Einn n ., hv. þm. S-Þ., var fjarstaddur, en hinir voru einu máli um að mæla með því, að frv. yrð samþ. óbreytt.

Eftir að þetta mál hlaut afgreiðslu í n., barst hv. þingmönnum Ed. bréf frá framkvæmdastjórn íþróttasambands Íslands. Í því segir, að „órökstuddar og öfgafullar“ árásir hafi verið gerðar á hnefaleikana. Íslenzkir læknar hafa hvað eftir annað bent á, að hnefaleikur er heilsunni skaðlegur, og þeir hafa rökstutt það með dæmum úr eigin reynslu, auk þess sem þeir hafa stuðzt við skráðar athuganir erlendra lækna. Þær árásir eru því engan veginn órökstuddar.

Þá segir í þessu bréfi, að ruglað hafi verið saman hnefaleikum atvinnumanna og áhugamanna, en á þessu tvennu sé reginmunur.

Á höggum þessara manna kann að vera einhver stigmunur, en rothögg geta báðir hópar gefið. Hér á landi munu eingöngu vera áhugamenn, og hafa þeir áþreifanlega sannað, að slíkir geta einnig veitt þung högg og afleiðingarík.

Í bréfi sambandsstjórnar er á það minnt, að samkv. lögum er Íþróttasamband Íslands æðsti aðili um alla frjálsa íþróttastarfsemi áhugamanna í landinu. Telur hún þann rétt skertan, verði frv. að lögum.

Alþingi hefur sett íþróttalög, og er þeim í engu breytt með frv. því, er hér liggur fyrir. Íþróttasambandið verður eftir sem áður æðsti aðili um alla frjálsa íþróttastarfsemi í landinu. Sá réttur verður í engu skertur.

Um hnefaleik má það annars segja, að hann fellur vart undir íþróttalögin, sbr. 1. gr. þeirra, þar sem lýst er, hvað íþrótt sé. Rothögg eru ekki líkleg til „að auka heilbrigði manna”, og brotin nef munu ekki talin vottur um líkamsfegurð.

Bréfriturum finnst það fráleitt, að Alþingi ákveði hverju sinni, hvaða íþróttir séu leyfðar eða bannaðar. Er þar til því að svara, að ef ásannast, að einhver íþrótt sé hættuleg heilbrigði manna, þá er engum skyldara en Alþingi að taka í taumana. Íþróttir eru skyldunámsgreinar í skólum landsins, og öll íþróttastarfsemi er riflega styrkt af stjórnarvöldum. Eins og Alþingi hefur búið í haginn fyrir íþróttastarfið með góðri löggjöf, eins er því rétt og skylt að taka í taumana, ef í skjóli þeirrar löggjafar er iðkaður óhollur og siðspillandi leikur.

Samkv. frásögn hæstv. menntmrh. hefur forseti Íþróttasambandsins tjáð sig hlynntan því, að hnefaleikur legðist niður hér á landi. Hann vildi þó ekki, að Alþingi legði þar hönd að, heldur ætti frumkvæðið að koma frá stjórn Íþróttasambandsins. Það frumkvæði hefur þó ekki komið, og var þó nægur tími til, því að þetta frv. lá fyrir síðasta Alþingi og dagaði þá uppi.

Raunar væri það engan veginn nægilegt, að stjórn Íþróttasambands Íslands hannaði hnefaleika. Eftir sem áður gætu unnendur þeirra stofnað og starfrækt hnefaleikafélög og unnið mikið tjón, þótt þau stæðu utan Íþróttasambandsins.

Ég læt nú útrætt nm þetta bréf frá framkvæmdastjórn Íþróttasambandsins. Einn undirskrifenda þess, annar en forseti sambandsins, sagði í mín eyru fyrir fáum dögum, að hnefaleikar mættu gjarnan deyja út hér á landi. Samt hafði hann skrifað undir bréfið. Er ekki eitthvað kergjublandið í þessum málflutningi sambandsstjórnarinnar?

Frá fundi Læknafélags Reykjavíkur í nóv. barst Alþingi einróma áskorun um að samþ. frv. til laga um að banna hnefaleika, og sams konar áskorun barst Alþingi 14. des. frá 63 kennurum á Akureyri. Á meðal þeirra má nefna heilsufræðikennara Jóhann Þorkelsson héraðslækni, skólameistara menntaskólans og einn helzta íþróttafrömuð norðanlands, Hermann Stefánsson.

Alvarleg slys hafa orðið hér á landi vegna barsmíða drukkinna hnefaleikara. Erlendis eru dauðaslys í hnefaleikakeppni ekki fágætir viðburðir. Greindi íslenzkt dagblað frá einu slíku dauðaslysi alveg nýlega. Þung högg í höfuðið eru alltaf varhugaverð og afleiðingar þeirra ófyrirsjáanlegar.

Ég lít svo á, að bann við kennslu og keppni í hnefaleik sé þáttur í almennum slysavörnum og bann ekki ómerkilegur. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.