29.11.1956
Efri deild: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

62. mál, embættisbústaður héraðsdýralækna

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Landbn. hefur haldið fund og athugað þetta frv. nánar en hún hafði gert, þegar hún fékk það til yfirlesturs og flutnings frá ríkisstjórninni. Hún er öll sammála um að leggja til, að frv. sé samþykkt.

Í framhaldi af því, sem ég sagði síðast, þegar þetta mál var til umræðu og ég lagði það hér fyrir hv. deild, vil ég segja þetta:

Eins og fram kom af því, sem ég sagði þá, eru þessi 12 dýralæknisumdæmi, sem landinu er skipt í, þannig sett nú, að í sjö þeirra eru dýralæknar, einu þó erlendur maður, sem ekki hefur ríkisborgararéttindi, og í öðru annar erlendur maður, sem að vísu er búinn að fá ríkisborgararétt. Í hinum fimm eru engir læknar. Þeir hafa ekki verið til til þessa, nema þá að fá þá erlenda, eins og gert hefur verið í þessi tvö, Rangárvallahéraðið og Eyjafjarðarumdæmið, sem erlendir menn nú sitja í. Eins og ég þá gat um líka, eiga að eðlilegum hætti nokkrir að ljúka prófi í dýralækningum við erlenda skóla, sumir í Noregi og flestir þar, en einn í Danmörku, á næsta ári, 1957. Og ef það heppnast fyrir þeim mönnum fimm, sem nú eru það langt áleiðis komnir með nám, að þeir eiga að réttu lagi að taka próf að ári, þá koma menn nákvæmlega í þessi fimm óveittu héruð, en ekki þá í það sjötta, sem erlendi maðurinn er í núna, sem maður veit að víll hætta og fara til sins heimalands sem fyrst.

Ég held þess vegna og vildi nota tækifærið til þess að benda á það fjárveitinganefndarmönnunum, sem því miður eru nú í orlofi fyrir austan fjall að skoða Þorlákshöfn og Náttúrulækningafélagið í Hveragerði, eftir því sem ég veit bezt — (Gripið fram í.) Er það ekki orlof? Jæja, sjálfteknu fríi þá, ef forseti vill hafa það þannig, — að þeir heyra því ekki mál mitt, en ég vil undirstrika það mjög ákveðið, að engin hús eru til yfir neina af þessum fimm mönnum, sem eiga að koma í nýju héruðin. Og í tveimur af þeim héruðum er þannig ástatt, að það eru ekki líkur fyrir, að hægt sé að koma manninum inn, nema þá einhvers staðar á sveitaheimili, meira og minna út úr samgöngum fyrir þá, sem þurfa að finna hann, og ef til vill líka út úr símasambandi. Þess vegna er alveg nauðsynlegt, að upp í þau fjárlög, sem verða samin á þessu þingi fyrir árið 1957, verði tekin einhver fjárveiting til eins eða tveggja, a.m.k. til eins, þyrfti náttúrlega helzt að byggja yfir þá sem flesta, þar sem ekki er von um að koma þeim inn. Ég geri ráð fyrir, að það sé hægt að koma inn dýralækni í Þingeyjarsýslu og að það sé hægt að koma inn dýralækni í Skagafjarðarsýslunni, það sé hægt að fá húsnæði bæði á Sauðárkróki og Húsavík, mjög hæpið, að það sé hægt að koma inn dýralækni í Dalasýslunni, að það sé húsrúm, þar sem hægt er að koma honum fyrir, o.s.frv. Þess vegna er nauðsynlegt, að þegar í þessum fjárlögum, sem núna verða samþ., sé tekin upp fjárveiting til byggingar dýralæknisbústaða, helzt tveggja, fyrir Dala- og Laugaráshérað.

Þetta vildi ég leggja áherzlu á og biðja þá, sem mál mitt heyra, að flytja það til fjárveitinganefndarmannanna, því að það er nauðsynlegt, að þessa sé gætt, um leið og þetta frv. verður væntanlega að lögum, sem ég beld að engri mótstöðu muni mæta hér i þinginu.

Sem sagt, landbn. leggur til, að frv. sé samþ. eins og það liggur fyrir.