07.12.1956
Neðri deild: 28. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

62. mál, embættisbústaður héraðsdýralækna

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er komið frá hv. Ed., og hlaut það þar einróma samþykki. Landbn. þessarar d. hefur einnig athugað þetta frv., og leggur hún til, að það verði samþ. óbreytt.

Samkvæmt núgildandi lögum um dýralækna er landinu skipt í 12 dýralæknisumdæmi, en starfandi eru nú sjö dýralæknar, svo að það vantar fimm, til þess að lágmarkstölu dýralækna í landinu sé fullnægt. En það er búizt við, að á næstu árum komi það margir dýralæknar til landsins, að hægt verði að fullnægja þessari tölu.

Eins og gelið er um í grg. þessa frv., eru dýralæknum veitt með frv. þessu sams konar réttindi og héraðslæknum, prestum og sýslumönnum eru veitt nú, því að yfirleitt búa þeir í húsnæði, sem það opinbera hefur lagt þeim til. Það er því ekki um neina nýjung að ræða í þessu frv., enda er þegar byrjað að byggja yfir dýralækna. Það hefur verið byggt yfir einn og keypt húsnæði yfir annan. Þetta frv. er líka trygging þess, að þeir dýralæknar, sem koma á næstunni til landsins, hverfi til þeirra starfa, sem þeir hafa lært til, því að vafalaust eiga þeir óhægt með að veita sér þægilegt húsnæði, þegar þeir koma frá löngu námi og e.t.v. með miklar skuldir að baki. Ég vænti því þess, að hv. alþm. samþykki þetta frumvarp.