25.01.1957
Efri deild: 45. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

97. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Flm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Samkv. 7. gr. 1. nr. 30 7. maí 1928, um þinglýsing skjala og aflýsing, á þinglýsing alls staðar utan Rvíkur að fara fram á manntalsþingum einu sinni á ári. Þegar lögfest var 1936 í l. um meðferð einkamála í héraði, að bæjarþing skyldu háð a.m.k. vikulega í öllum kaupstöðum landsins, var sá háttur víða tekinn upp að þinglýsa og aflýsa skjölum á bæjarþingum, og hefur sú þinglýsingaraðferð nú tíðkazt í ýmsum kaupstöðum um 20 ára skeið. Þó að flm. þessa frv. virðist lagaheimild bresta fyrir þessu formi þinglýsingar, er því ekki að neita, að öll skynsemi mælir með því, að þessu skuli þannig hagað. Skjalafjöldi, sem berst til þinglýsingar í sumum kaupstöðum, er það mikill, að vafalaust væri margra klukkustunda verk að lesa skrá um þessi skjöl í einu lagi. Þá er og meiri hætta á ruglingi og mistökum í sambandi við þinglýsinguna, þegar hún fer fram aðeins einu sinni á ári og mikill fjöldi skjala er fyrirliggjandi, sem safnazt hefur fyrir yfir árið.

Við, sem flytjum þetta frv., teljum því rétt, að lögfest verði sú venja um þinglýsingu á bæjarþingum, sem myndazt hefur í ýmsum kaupstöðum um þetta. Segja má og, að þetta sé einnig nauðsynlegt til þess að fyrirbyggja hugsanlega vefengingu á lögmæti þessarar venju.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að sinni, en legg til, að málinu verði vísað til hv. allshn. og 2. umr.