14.02.1957
Efri deild: 55. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

97. mál, þinglýsing skjala og aflýsing

Frsm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Þetta mál er komið hingað aftur, sakir þess að það var lítils háttar breyting á því gerð í Nd. En þannig stendur á þessari breytingu, að rétt eftir að við höfðum afgreitt málið hér út úr deildinni, barst bréf frá sýslumanni Norður-Ísafjarðarsýslu, þar sem hann beiðist þess, að gerð yrði breyting varðandi þinglýsingu skjala í hreppum, sem komnir eru í eyði og ekki hafa verið lagðir undir aðra hreppa. Ég hygg, að það sé hvergi nema einmitt í þessari sýslu, sem þetta á sér stað, og það er ekki nema sjálfsagt að taka tillit til þessara óska. Þess vegna var breytingin gerð, viðaukinn við 1. gr., að þinglýsing slíkra skjala skuli fara fram á aukadómþingi á skrifstofu embættisins. Enda þótt nefndin hafi ekki sem heild fjallað um þetta, þá vil ég fullyrða, að hún mundi hafa samþykkt þetta. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir núna.