23.11.1956
Neðri deild: 20. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

56. mál, kaup á eyðijörðinni Grjótlæk

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 65 er fram borið vegna tilmæla frá bændum þeim, sem búa á Eystri- og Vestri-Grund í Stokkseyrarhreppi. Hafa bæði oddviti og hreppstjóri sveitarinnar tjáð sig meðmælta því, að Grundirnar fengju aukin landumráð, svo að á jörðum þessum geti þrifizt lífvænlegur búskapur, en landþrengsli hafa torveldað bændunum að stækka bú sín. Jörðin Grjótlækur er gamalt býli, en hefur verið í eyði nú hin síðari ár, vegna þess að hún er svo lítil, að menn hafa ekki treyst sér til að reka þar lífvænlegan búskap. Hér er að gerast gamla sagan um það, að búskapur á smákotum hefur aldrei og getur aldrei þrifizt. Möguleiki sýnist nú vera fyrir hendi til þess að stækka þessi býli, svo að þau verði lífvænleg í framtíðinni, með því að ríkið, sem er eigandi þeirra, kaupi Grjótlækinn og bæti þeirri jörð við Grundirnar.

Hér er ekki um að ræða stórfelld útgjöld fyrir ríkissjóð, en hins vegar munu eignir þessar aukast að verðmæti miklu meira en því nemur, sem Grjótlækur kann að kosta, vegna þess að þá væri tryggt, að Grundirnar héldust áfram í byggð og yrðu góðar bújarðir fyrir þá bændur, sem þar yrðu, og ríkissjóður nyti þannig ágóða af þessum eignum sínum, í stað þess að gera má ráð fyrir, að jarðir þessar færu í eyði, ef þær fengju ekki aukið landrými.

Ég vænti, að hv. alþm. sýni skilning á þessu máll og leyfi því fram að ganga. Ég leyfi mér að leggja til, að málið fari til 2. umr., en ég er nú ekki svo fróður, að ég viti, hvert er venja að vísa svona málum. (Forseti: Ætli það sé ekki landbn.?) Ég bið forseta þá að skera úr því.