31.01.1957
Neðri deild: 48. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

56. mál, kaup á eyðijörðinni Grjótlæk

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Frv. þetta um, að ríkið kaupi eyðijörðina Grjótlæk í Stokkseyrarhreppi, hefur verið til athugunar í landbn. Hefur n. gert sér far um að kynna sér rök og aðstæður í þessu máli og að þeirri athugun lokinni orðið sammála um að mæla með því, að frv. þetta um heimild handa ríkisstj. til þess að kaupa Grjótlækinn og sameina jörðina ríkisjörðunum Eystri- og Vestri-Grund, nái fram að ganga.

Með áliti n. eru prentuð í fyrsta lagi bréf frá ábúendum Grundanna, þar sem þeir óska eftir því að fá Grjótlækinn undir ábýlisjarðir sínar, og í öðru lagi vottorð viðkomandi oddvita og hreppstjóra um, að jarðir þessar þurfi á auknu landrými að halda og að hentugt sé að bæta úr landþrengslum þeirra á þennan hátt.

Ég hef áður við 1. umr. þessa máls og í grg. fyrir frv. sýnt fram á, að hér er um hagkvæma möguleika að ræða til landaukningar á þessum býlum, svo að örugglega haldist þau í byggð. Fari hins vegar jarðir í eyði, verða þær því til byrði.

Vænti ég, að þingmenn líti sömu augum á þetta og leyfi þessu litla frv. fram að ganga. Legg ég svo til, að því verði vísað til 3. umr. að þessari umr. lokinni.