21.02.1957
Efri deild: 60. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

56. mál, kaup á eyðijörðinni Grjótlæk

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um heimild handa ríkisstj. til að kaupa eyðijörðina Grjótlæk í Stokkseyrarhreppi í Árnessýslu. Frv. þetta var borið fram í hv. Nd. og var samþ. þar óbreytt. Eins og segir í 1. gr. frv., er ætlað, að landi eyðijarðar þessarar, Grjótlækjar, verði skipt milli jarðanna Eystri- og Vestri-Grundar í Stokkseyrarhreppi, ef úr þessum kaupum verður, en lönd þessara jarða liggja saman.

Þannig hagar til, að báðar Grundarjarðir, sem eru í eign ríkisins, eru í byggð. Þær eru landlitlar, svo að stór bagi er að fyrir ábúendur. Eini möguleiki þeirra til landaukningar er, að þeir fái land Grjótlækjar til afnota, sem nú er, eins og áður segir, í eyði og á henni ekki nothæf hús, en land hennar er samtals 38 hektarar að stærð. Þar af er tún 6 hektarar, engjar 9.6 hektarar og annað land, þ.e. beitiland og ræktanlegt land, 22.4 hektarar.

Pálmi Einarsson landnámsstjóri hefur skoðað þessar jarðir allar að tilhlutun ráðuneytisins, og í bréfi hans, dags. 9. okt. s.l., til jarðeignadeildar ríkisins, sem prentað er sem fskj. með frv., segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er álit mitt, þar sem jarðir þessar eru allvel hýstar, en búendur þeirra hafa þörf fyrir að auka bú sín, að nauðsynlegt sé, að ábúendur þeirra fái aukin landumráð. Lægi það vel við, ef eyðibýlið Grjótlækur fengist keypt, að sameina það þessum jörðum, sem þá mætti telja örugg ábýli til frambúðar.“

Með nál. hv. landbn. hv. Nd. á þskj. 199 er prentað bréf frá ábúendum Grundar, þar sem þeir fara fram á, að ríkið kaupi umrætt eyðibýli og leigi þeim síðan. Þá eru þar einnig prentuð vottorð frá oddvitanum í Stokkseyrarhreppi og hreppstjóranum, þar sem þeir mæla með því, að ríkið kaupi þessa eyðijörð í því skyni að bæta landi hennar við jarðirnar Eystri- og Vestri-Grund.

Landbn. Ed. hefur haft þetta mál til meðferðar, og eins og nál. á þskj. 241 ber með sér, leggur n. til, að frv. sé samþykkt óbreytt.