29.04.1957
Sameinað þing: 53. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

Varamenn taka þingsæti

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, töldum við sjálfstæðismenn, að Alþfl. ætti ekki rétt á uppbótarþingmönnum eða landskjörnum þingmönnum skv. úrslitum síðustu kosninga. Alþingi úrskurðaði hins vegar á annan veg. Út af fyrir sig vefengjum við ekki, að úr því að kjörbréf þessara þingmanna hefur verið tekið gilt, þá eigi þeir einnig rétt á varamönnum, og við efumst heldur ekki um, að Gunnlaugur Þórðarson sé eftir reglunum um varamenn rétt kjörinn varamaður, og höfum því ekkert á móti því að taka hans kjörbréf gilt, en teljum þó réttara að sitja hjá við atkvgr. með hliðsjón af skoðun okkar varðandi rétt Alþfl. yfirleitt til uppbótarþingmanna að þessu sinni.