05.03.1957
Efri deild: 64. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

129. mál, taka eignarnámi jarðirnar Borg, Dynjanda og Rauðsstaði

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég á nú dálítið óhægt með að svara þessu, en þó get ég upplýst það, af því að ég hef farið þarna um og þekki þetta svæði, að mér skilst, að þar sem virkjunin er hinum megin við fjarðarbotninn, — Borg liggur að vestanverðu við fjarðarbotninn, en virkjunin er inni í fjarðarbotninum og að austanverðu við hann, — þá skilst mér, að það muni ekki nema að litlu leyti snerta Borgarland og að Borg geti haldið túninu og þar megi búa áfram, þar til það fer að myndast þorp í sambandi við virkjunina, sem ætla má að verði einhvern tíma ákveðið, — mér skilst það, en ég þori nú samt ekki að fullyrða þetta ákveðið. En eftir að hafa komið þarna, farið þarna ríðandi þrisvar sinnum, þá er legan þannig, að ég get ekki hugsað mér, að það snerti Borgarland nema að litlu leyti, að því leyti sem það á land fyrir botninum og út með botninum að austan, sem það á svolítið. Það liggur í hlutarins eðli, það er engin ástæða til að bola manni frá jörð, ef það hefur ekki þýðingu í þessu sambandi, og það skilst mér að ekki sé hér eins og stendur, hvað sem kann að verða síðar, ef þorp rís upp þarna.