12.03.1957
Neðri deild: 66. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

129. mál, taka eignarnámi jarðirnar Borg, Dynjanda og Rauðsstaði

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það, sem þarf að segja um þetta lagafrv., felst í grg. fyrir frv., sem er nægilega ýtarleg fyrir svo einfalt mál.

Eins og kunnugt er, þá er byrjað á virkjun í svonefndum Mjólkárfossum, og þarf ríkið að eignast 3 jarðir í sambandi við þá virkjun, jarðirnar Borg, Dynjanda og Rauðsstaði í Auðkúluhreppi í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Það er nauðsynlegt vegna áætlana um virkjanir á þessum stað nú og síðar, að ríkið eignist þessar jarðir af þeim ástæðum, sem tekið er fram í grg. Af þeim ástæðum er þetta frv. flutt, og vænti ég þess, að það fái skjóta afgreiðslu í þessari hv. deild, því verði vísað til 2. umr., og það er eðlilegast, að það fari til allshn.