28.02.1957
Neðri deild: 60. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1974 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

127. mál, mat á síld

Frsm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Eins og grg. frv. ber með sér, er frv. þetta flutt að ósk sjútvmrh., og er í þeirri grg., sem frv. fylgdi frá honum, gerð grein fyrir því, hvernig á málinu stendur. En þetta sem sagt stafar í stuttu máli af því, að það hefur komið á daginn, að það þarf að auka mjög mikið síldarmatið og eftirlitið með frágangi síldar eftir reynslu þeirri, sem fékkst á s.l. sumri.

Hér er gert ráð fyrir, að kostnaður verði, eins og reynslan hefur sýnt, meiri en sem svarar því gjaldi, sem innheimt hefur verið sem ákveðið gjald á tunnu vegna þessa aukaeftirlits. En það er gert ráð fyrir í frv., að það verði einmitt látið greiðast þannig, þessi viðbótarkostnaður, að söltunarstöðvarnar greiði tímakaup fyrir þá vinnu, sem fer fram á þeirra stöðvum. Þannig verður það í raun og veru á þann hátt, sem n. var raunar sammála um að væri það heppilegasta, að þeir menn, sem hefðu sína síld í verstu ástandi, yrðu að borga kostnaðinn, svo sem vera ber.

Einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., en ég veit ekki, hvort það verður, a.m.k. mér er ókunnugt um, að nokkrar brtt. séu, og n. var yfirleitt sammála um frv. og sér ekki ástæðu til þess að leggja til, að því verði vísað til n. á nýjan leik.