10.10.1956
Sameinað þing: 1. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning látinna fyrrv. þingmanna

Aldursforseti (JJós):

Hæstv. forseti. Hv. alþingismenn. Áður en þingstörf hefjast, vil ég minnast nokkrum orðum tveggja fyrrverandi alþm., sem látizt hafa milli þinga. Eru það þeir Bjarni Ásgeirsson sendiherra, sem lézt í sjúkrahúsi í Osló 15. júní s. l., 64 ára að aldri, og Þorleifur Jónsson í Hólum, sem andaðist að heimili sínu 18. júní s. l., 91 árs að aldri.

Bjarni Ásgeirsson fæddist í Knarrarnesi á Mýrum 1. ágúst 1891, Faðir hans var Ásgeir bóndi í Knarrarnesi Bjarnason bónda þar Benediktssonar, en móðir Ragnheiður Helgadóttir bónda í Vogi á Mýrum, sonar Helga Helgasonar, er var þingmaður Mýramanna á fyrstu árum hins endurreista Alþingis, 1845–1849.

Bjarni Ásgeirsson lauk prófi í verzlunarskólanum í Reykjavík árið 1910, stundaði nám í bændaskólanum á Hvanneyri og lauk prófi þaðan árið 1913, en var síðan um skeið við framhaldsnám í búfræði í Danmörku og Noregi. Árið 1915 hóf hann búskap í Knarrarnesi og bjó þar til ársins 1921, en það ár fluttist hann að Reykjum í Mosfellssveit og rak þar búskap fram til ársins 1951, er hann fluttist til Óslóar og tók þar við sendiherrastörfum, sem hann gegndi til æviloka.

Á unglingsárum Bjarna Ásgeirssonar voru ungmennafélög að breiðast út um landið, og á þeim vettvangi hóf hann störf sín að félagsmálum og gerðist þar brautryðjandi í sveit sinni. Síðar var honum falinn ýmiss konar trúnaður í þjóðmálum og félagsmálum, og sinnti hann um langt skeið margvíslegum störfum jafnframt búi sínu. Ekki verða þau störf öll rakin hér, en minnzt á nokkur þau helztu.

Í stjórn Búnaðarfélags Íslands var hann á árunum 1927–1951, formaður þess frá 1939, settur búnaðarmálastjóri um skeið á árinu 1950 og kjörinn formaður Bændasambands Norðurlanda 1951–1952. Í bankaráði Landsbankans var hann 1928–1930, bankastjóri Búnaðarbanka Íslands 1930–1938 og gæzlustjóri Söfnunarsjóðs 1932–1951. Árið 1938 var hann skipaður formaður yfirfasteignamatsnefndar ríkisins. Lengi átti hann sæti í verkfæranefnd og um skeið í nýbýlastjórn og í stjórn áburðarverksmiðjunnar. Hann var þm. Mýramanna á árunum 1927–1951, sat á 31 þingi alls. Landbúnaðarráðherra var hann 1947–1949. Árið 1951 var hann skipaður sendiherra Íslands í Noregi og Póllandi, og í ársbyrjun 1952 varð hann jafnframt sendiherra í Tékkóslóvakíu. Í okt. 1955 varð hann ambassador Íslands í Noregi.

Bjarni Ásgeirsson var lengst ævi sinnar bóndi, og flest þau störf, sem hér hefur verið getið og hann vann að innanlands, eru á einhvern veg tengd landbúnaðarmálum. Í búskap sínum var hann stórhuga framkvæmdamaður, og á Reykjum gerðist hann brautryðjandi um ræktun við jarðhita í gróðurhúsum. Á Alþingi átti hann löngum sæti í landbúnaðarnefnd, og með störfum sínum þar og forgöngu sinni í Búnaðarfélaginu og í ráðherradómi átti hann ríkan þátt í þeirri fjölþættu löggjöf, sem á þingmannsárum hans og síðan hefur leitt til stórfelldra umbóta í íslenzkum landbúnaði.

Bjarni Ásgeirsson var vinsæll maður og drengur góður. Hann var mælskur, talaði fagurt mál og ljóst og var jafnan prúðmenni í málflutningi og allri framkomu, en varið gat hann mál sitt með festu og þunga gegn harðri andstöðu. Á skemmtimótum var hann aufúsugestur, léttur í máli og glaðvær. Hann var skáldmæltur vel, birti ljóð eftir sig á yngri árum og orti löngum fleygar stökur. Á búi sínu var hann höfðingi heim að sækja, Vegna mannkosta sinna varð hann góður fulltrúi þjóðar sinnar erlendis síðustu æviárin.

Þorleifur Jónsson fæddist í Hólum í Hornafirði 21, ágúst 1864 og átti þar heimili ævilangt. Foreldrar hans voru Jón bóndi í Hólum Jónsson prests á Hofi í Álftafirði Bergssonar og kona hans, Þórunn Þorleifsdóttir bónda í Hólum Hallssonar. Hann stundaði nám í Möðruvallaskóla 1881–1882 og var síðan forráðamaður fyrir búi móður sinnar til ársins 1890 og farkennari á vetrum. Á árunum 1890–1935 var hann bóndi í Hólum, en lét þá búið í hendur dóttur sinni og tengdasyni og dvaldist síðan hjá þeim til æviloka.

Þorleifur í Hólum valdist snemma til margs konar forustu meðal sveitunga sinna og sýslunga, Hreppstjóri í sveit sinni var hann um rúmt hálfrar aldar skeið. Sýslunefndarmaður var hann lengi, og voru honum oft falin sýslumannsstörf í Austur-Skaftafellssýslu. Um langt skeið var hann forráðamaður sveitunga sinna í skólamálum og kirkjumálum. Hann vann ötullega að auknum samgöngum og bættri verzlun í héraði sínu og var þar eindreginn samvinnumaður. Þingmaður Austur-Skaftfellinga var hann fyrst kosinn árið 1908 og var fulltrúi þeirra á Alþingi samfellt á árunum 1909–1933, sat alls á 27 þingum og var síðustu árin varaforseti sameinaðs Alþingis, Í landsbankanefnd átti hann sæti árin 1928–1935.

Þorleifur Jónsson var mikill áhugamaður um búnað og ræktun landsins og stórvirkur bóndi á jörð sinni. Hann var vel máli farinn, prúðmenni í framgöngu og lét erjur stjórnmálanna ógjarnan hagga jafnvægi sínu. Ekki hafði hann sig mikið frammi í orðræðum á þingfundum, en vann á þingi vel og farsællega að framfaramálum sýslunga sinna og bændastéttar landsins alls. Þegar aldur færðist yfir hann og hann hafði létt af sér umstangi í búskap og félagsmálum, vann hann að umfangsmiklum ritstörfum, skrifaði verzlunarsögu héraðs síns og birti níræður æviminningar sínar.

Ég vil biðja háttvirtan þingheim að votta minningu þessara tveggja bændahöfðingja virðingu sína með því að risa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum. — Síðan gekk forseti Íslands út úr þingsalnum.]