01.04.1957
Neðri deild: 78. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

143. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var fyrst til meðferðar Alþingis, var gert ráð fyrir því, að það næði aðeins til stærstu kaupstaðanna. En með breytingum þeim, sem gert er ráð fyrir í frv. því, sem fyrir liggur nú hér í hv. d., er gert ráð fyrir, að þetta nái til allra kaupstaða landsins og til stærstu kauptúna, og er þar miðað við 800 íbúa. Nú er þannig ástatt í kauptúni þess héraðs, sem ég er hér fulltrúi fyrir, að það eru tæpir 800 íbúar. Hins vegar er þar nokkuð um akstur leigubifreiða, sem hér um ræðir.

Eins og kunnugt er, er Borgarfjarðarhérað þannig, að það er mikið um það ferðazt, og Borgarnes hefur verið miðstöð ferðamannastraums um langt skeið. Þó að það væri hald manna um skeið, að það mundi minnka, hefur reyndin orðið sú, að þetta er að færast í sitt fyrra horf með bættum samgöngum á sjó og góðu gistihúsi í Borgarnesi. Þess vegna er þar alltaf þörf á nokkrum leigubifreiðum, og þeir, sem þar stunda þessa atvinnu, hafa óskað eftir því, að ég flytti brtt. hér við þetta mál. Og þá mundi mín brtt., sem ég mundi bera fram við 3. umr., af því að ég var ekki undir það búinn núna, verða þess efnis að miða við 700, en ekki 800 íbúa, eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég held, að það sé þörf á því að tryggja, að í Borgarnesi séu alltaf til staðar hæfilega margar leigubifreiðar, og ef hreppsnefnd Borgarneshrepps áliti, að aðsókn væri orðin það mikil, að óeðlilegt væri, fengi hún sama rétt til takmörkunar og þær bæjarstjórnir og hreppsnefndir, sem frv. þessu er ætlað að ná til. Ég mun því við 3. umr. málsins leggja fram umrædda brtt.