11.12.1956
Efri deild: 27. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

16. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Sjútvn. d. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á l. nr. 68 5. júní 1947, um eftirlit með skipum, á þskj. nr. 16, og hefur orðið sammála um, þ.e.a.s. þeir nm. sem þátt tóku í afgreiðslu málsins, að leggja til, að efni frv. verði samþ., en í breyttu formi og með nokkrum viðauka, eins og greinir á þskj. 123. Breytingin er í því fólgin, eins og hv. þdm. sjá, í fyrsta lagi, að í stað orðanna „auk venjulegra björgunartækja“ komi: auk annarra björgunartækja, sem ákveðin eru í lögum og reglugerðum. — Orðalagsbreyting þessi miðar að því, að ljósara verði, við hvað er átt, og ekki geti orðið ágreiningur þar um. Meiningin er að sjálfsögðu sú, að gúmbátarnir eigi ekki að koma í stað annarra björgunartækja, heldur eigi þeir að vera viðbót við þau björgunartæki, sem nú eru i skipunum eða síðar kunna að verða ákveðin.

Í öðru íagi er lagt til, að skipaskoðunarstjóra verði heimilað að veita hæfilegan frest til öflunar gúmbátanna í þau skip, sem slíkir bátar hafa ekki nú þegar verið settir í. Frestsheimild þessi er vafalaust óhjákvæmileg, og gæti valdið stöðvun skipa, ef þessi tímabundna heimild væri ekki fyrir hendi.

Að lokum er lagt til, að síðasti málsl. í 4. tölulið 34. gr. l. verði niður felldur úr l., en sá málsliður fjallar um það, að björgunarflekar eða svipuð fleytitæki megi, ef öruggt þykir, koma að nokkru leyti í stað báta.

Þar sem ekki er lögákveðið, úr hvaða efni bátar almennt skuli vera, mætti halda því fram, að í þessum málslið væri átt við gúmbáta jafnt sem báta úr öðru efni, en slíkt væri ósamrýmanlegt ákvæðum frv. og andstætt megintilgangi þess. Þess vegna er lagt til, að þessi málsgrein verði felld niður úr lögunum.

Sjútvn. hefur átt viðtal við skipaskoðunarstjóra og framkvæmdarstjóra Slysavarnarfélags Íslands um þetta mál, og formaður Sjómannafélags Reykjavíkur hefur átt um það viðtal við formann og ritara nefndarinnar. Allir þessir aðilar hafa sent n. skriflega umsögn um málið, og allir eru sammála um kosti gúmbátanna og telja þá til mikils öryggisauka, enda mun slíkt almennt viðurkennt hérlendis sem erlendis, þar sem bátar þessir hafa verið reyndir. Reynslan þykir hafa sannað, að gúmbátar geta haft úrslitaþýðingu um öryggi mannslífa á hafinu. Hitt verður þó að sjálfsögðu að hafa í huga, að venjulegir björgunarbátar geta í sumum tilfellum verið vænlegri til björgunar, sökum þess að gúmbátum verður ekki róið og þá rekur fyrir sjó og vindi. Þess vegna mega gúmbátarnir ekki koma í stað annarra báta, enda er til þess ætlazt, að þeir verði notaðir, þegar aðrir bátar nýtast ekki eða þegar gúmbátarnir þykja vænlegri til björgunar af öðrum ástæðum.

Eins og getið er í grg. frv., er það flutt í samráði við og að beiðni forráðamanna Sjómannafélags Reykjavíkur. Formaður þess félags mælir mjög með því í umsögn sinni, sem hann hefur sent sjútvn., að frv. verði samþykkt. Sama máli gegnir um framkvæmdastjóra Slysavarnarfélags Íslands. Skipaskoðunarstjóri dregur hins vegar í efa, að nauðsynlegt sé að ákveða með lögum, að gúmbátar skuli vera í skipum; og telur, að hægt muni að ákveða það í reglugerð. Nm. hafa hins vegar litið svo á, að lagaheimild bresti til að setja í reglugerð ákvæði jafngild þeim, sem frv. fjallar um, og því sé nauðsynlegt að lögfesta þessi ákvæði. Auk þess er hér um svo þýðingarmikið mál að ræða, að eðlilegt er, að löggjafarvaldið láti það til sín taka.

Þá er rétt að vekja athygli á því, að í skrifstofu Alþ. liggja nú frammi í lestrarsal erindi frá mörgum togaraskipshöfnum, sjö eða átta a.m.k., sem skora á Alþ. að lögfesta ákvæði um gúmbáta í togurum. Þessar áskoranir ganga sumar hverjar að vísu lengra en frv., þannig að togarasjómennirnir vilja hafa þrjá gúmbáta í togara, og sé þá miðað við það, að tveir þeirra beri alla skipshöfnina. Sjútvn. hefur að svo komnu ekki treyst sér til að ganga lengra en frv. gerir ráð fyrir, en vera kann að þarna sé bent á næsta skrefið, sem farið verður í þessum efnum. Að síðustu skal þess getið, að Alþýðusamband Íslands hefur á nýafstöðnu þingi samþykkt ályktun um málið og áskorun í svipuðum anda.

Nái þetta frv. samþykki Alþ. og verði að lögum, mun því vafalaust almennt verða fagnað og þá ekki sízt meðal sjómanna, sem eiga líf sitt undir því, þegar háska ber að höndum, að skip þeirra séu búin fullkomnustu björgunartækjum.