26.04.1957
Neðri deild: 87. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

16. mál, eftirlit með skipum

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Eins og kunnugt er, var gefin út reglugerð skv. l. um eftirlit með skipum þann 14. jan. s.l., þar sem ákveðið var að skylda nær alla fiskibáta og flestöll skip til þess að vera búin gúmmíbjörgunarbátum. Þessi reglugerð var sett í beinu framhaldi af þingvilja, sem hér hafði komið fram á Alþ. í þessa átt á næsta þingi á undan. Nú hefur hins vegar legið hér fyrir þessu þingi frv., sem gerir ráð fyrir því, að selt verði ákvæði inn í l. um eftirlit með skipum, sem skyldar það, að gúmmíbátar skuli vera á flestum skipum og nær öllum bátum.

Það hefur að undanförnu verið unnið að því að samræma það frv., sem hér hefur legið fyrir, við þær reglur, sem nú eru komnar í gildi, og þá samninga, sem við höfum þegar gert við erlendar þjóðir um samstöðu í þessum málum, og ætla ég, að eins og tillögur liggja nú orðið fyrir um afgreiðslu á þessu máli frá sjútvn., sé orðið fullt samkomulag við skipaeftirlitið um afgreiðslu málsins.

Eins og nú er lagt til að málið verði afgr. af sjútvn., er því slegið föstu, að þær reglur, sem settar hafa verið um gúmmíbjörgunarbáta, skuli standa óbreyttar, en því í rauninni einu aukið við að binda þetta fast í lögum, sem nú um skeið hefur verið aðeins bundið í reglugerð. Ég tel mjög eðlilegt, að lögunum sjálfum sé breytt í þessum efnum, og hef ekkert við það að athuga, en legg áherzlu á, að þær breyt., sem nú verða gerðar á þessum lögum, geti verið í samræmi við þær ákvarðanir, sem þegar hafa verið teknar af skipaeftirlitinu með reglugerð þeirri, sem út var gefin 14. jan. s.l. og skuldbindingar okkar við erlenda aðila einnig eru bundnar við. En ég tel, að afgreiðsla málsins í þeim búningi, sem það er komið nú í, sé einmitt að fullu í samræmi við þetta.

Þar sem málið liggur orðið þannig fyrir, mæli ég eindregið með því, að brtt. frá sjútvn., sem nú liggur hér fyrir varðandi afgreiðslu þessa máls, verði samþ. og málið afgreitt í þeim búningi.