22.05.1957
Sameinað þing: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2401 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

Varamenn taka þingsæti

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvernig stendur á því, að fyrsti varaþm. Alþfl., dr. Gunnlaugur Þórðarson, hefur vikið af þingi, hvort hann hefur tilkynnt forföll eða hver önnur atvik standa til þess, að við njótum ekki návistar hans hér lengur.

Í lögum, sem hæstv. Alþ. samþ. 6. maí og væntanlega er nú búið að staðfesta, en eru að þessu leyti endurtekning á því, sem áður var í lögum, stendur, — það er breyt. á l. nr. 80 7. sept. 1942, um kosningar til Alþingis:

„1. mgr. 144. gr. laganna orðist svo: Varamenn þingmanna í kjördæmi, þar sem kosið er hlutbundnum kosningum, taka þingsæti eftir þeirri röð, sem þeir eru kosnir, þegar þingmenn þess lista, sem þeir eru kosnir á, falla frá eða forfallast, og án tillits til þess, hver þingmaður listans það er. Segi varamaður af sér, missi kjörgengi eða falli frá, tekur sá varamannssæti, sem næstur er á listanum og ekki var áður varamaður. Varamenn landskjörinna þingmanna taka sæti eftir hliðstæðri reglu.“

Eftir þessu ákvæði er það ljóst, að dr. Gunnlaugur Þórðarson hlýtur að eiga sæti á Alþ., þangað til hann tilkynnir forföll, meðan Alþfl. þarf á varamönnum að halda, og nú vitum við það, að svo er. Vel má vera, að það hafi farið fram hjá mér, þótt forföll hafi verið tilkynnt af hálfu dr. Gunnlaugs Þórðarsonar, og hann hafi óskað eftir því, að annar varamaður flokksins tæki sæti. En ef svo er ekki, virðist vera auðsætt, að hér hafi einhver mistök átt sér stað, og vildi ég óska leiðbeiningar hæstv. forseta um það, svo að við gætum vitað, hver er rétt kominn í þennan sal, jafnvel eftir þessum nýjustu lögum, sem hv. stjórnarlið hefur sett um skipan Alþ. Það er þó það minnsta, að við höfum um það einhverja leiðbeiningu, hverjir það eru, sem kallaðir eru rétt komnir inn í þennan sal.