20.03.1957
Efri deild: 73. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1985 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

135. mál, atvinna við siglingar á íslenskum skipum

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt að ósk samgmrn., og er tilgangur þess sá að auðvelda mönnum aðgang að námi, sem veitir rétt til skipstjórnar á hinum stærri vélbátum, en skortur á skipstjórnarmönnum með lögmæt réttindi hefur verið vaxandi vandamál vélbátaútvegsins hin síðari ár. Hefur reyndin orðið sú, að aðsókn að stýrimannaskólanum eða fiskimannadeild hans hefur mjög farið hnignandi, og í annan stað hefur mikill fjöldi manna með skipstjórnarréttindi horfið til annarra starfa af ýmsum orsökum.

Hvort tveggja hefur leitt af sér tilfinnanlegan mannaskort réttindamanna, svo að til stórvandræða og stöðvunar margra vélbáta hefur horft. Þessi vandi hefur í algerri neyð verið leystur þannig, að viðkomandi ráðuneyti hefur veitt fjölmörgum undanþágur frá kvöðum gildandi laga um lögmæt próf og réttindi, og hefur þannig verið forðað stöðvun margra vélbáta. Á þessu fyrirkomulagi eru þó augljósir og jafnvel hættulegir meinbaugir.

Í fyrsta lagi fyrirfinnst ekki heimild til þess í gildandi lögum um atvinnu við siglingar að veita undanþágur mönnum til skipstjórnar. Lögin gera ráð fyrir lágmarksþekkingu og lágmarksprófum, en ekki fyrir neinum tilvikum frá þeim ákvæðum. Undanþágufyrirkomulagið er því með öllu ólögmætt og sýnilega stefnt á hættulega braut að veita með slíkum hætti rétt, jafnvel þótt tímabundinn sé, til stjórnar vélbáta á Íslandsmiðum, svo mikil ábyrgð sem því starfi fylgir á lífi skipshafnar og dýrmætum atvinnutækjum.

Í öðru lagi hefur reynslan sýnt, að nærri óhugsandi er, að þau stjórnarvöld, sem um undanþáguna fjalla, geti í öllum tilfellum kannað til nokkurrar hlítar hæfni þeirra, sem undanþágunnar beiðast, og hvort þeim sé til fullnustu treystandi til sinna vandasömu verka.

Í þriðja lagi veldur skortur réttindamanna til skipstjórnar því, að vélbátaútvegurinn getur ekki valið svo úr mönnum sem æskilegt væri og trúlega nauðsynlegt, til þess að hagsmunir hans séu að því leyti tryggðir sem bezt má verða.

Þetta þrennt eru sjáanlega slíkir annmarkar á undanþágufyrirkomulaginu, sem viðgengizt hefur, að ekki er við þá miðandi, ef nokkurra annarra úrkosta er völ til þess að manna vélbátaflotann hæfum skipstjórnarmönnum. Hefur þetta verið um nokkurt skeið ljóst þeim, sem sérstaklega hefur mætt á í þessum efnum. Því er það, að á Alþingi í fyrra var samþykkt þáltill. sú, sem frá er greint í grg. með þessu frv. og er efnislega á þá leið, að ríkisstj. er falið að láta fara fram endurskoðun gildandi laga um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum og lögum um stýrimannaskóla, með sérstöku tilliti til þess, hverra breytinga sé þörf vegna þróunar síðari ára í siglinga- og fiskveiðamálum landsmanna, og að athuga, hversu megi á hagkvæmastan hátt auðvelda mönnum aðgang að hæfilegu námi, sem veitir réttindi til skipstjórnar á stærri vélbátum. Í þessari ályktun Alþingis er þess að lokum óskað, að niðurstöður endurskoðunarinnar og till. um breytingu á lögunum verði lagðar fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Í framhaldi af þessari samþykkt skipaði svo samgmrn. þriggja manna nefnd sérfróðra manna til að framkvæma umrædda endurskoðun, og er frv. það, sem hér liggur fyrir, árangurinn af starfi hennar og í öllum meginatriðum samhljóða till. hennar um breytingar á lögunum, þótt út af sé brugðið í minni háttar greinum, sem ég mun síðar víkja að.

Í gildandi lögum frá 17. júlí 1946, um atvinnu við siglingar, og lögum frá 1945 um stýrimannaskóla i Reykjavík er gert ráð fyrir þrenns konar réttindum skipstjórnarmanna á íslenzkum fiskiskipum.

Í fyrsta lagi réttindi til skipstjórnar í innanlandssiglingum á skipum allt að 30 rúmlestum að stærð. Til þess að öðlast þau réttindi þarf ekki ákveðna skólagöngu, heldur nægir þar vottorð frá þar til skipuðum siglingafróðum manni, tilnefndum af atvmrn., um, að viðkomandi hafi til að bera ákveðna og tilgreinda þekkingu, sem störf hans varða, og eigi tiltekinn siglingatíma að baki. Gegn slíku vottorði gefa svo lögreglustjórar út skírteini til handa viðkomandi mönnum.

Í öðru lagi er svo um að ræða réttindi skipstjórnarmanna á öllum íslenzkum fiskiskipum, af hverri stærð sem er, í utanlands- sem innanlandssiglingum. Til þess að öðlast þau réttindi þurfa menn að hafa lokíð fiskimannaprófi við stýrimannaskólann í Rvík að undangengnu tveggja vetra námi og að sjálfsögðu að hafa uppfyllt önnur nauðsynleg skilyrði um siglingatíma o.fl.

Þannig er nú þessum málum háttað í aðalatriðum. Þó er frá þessum reglum það frávík í bráðabirgðaákvæðum laganna í 59. gr., að þeir menn, sem öðlazt hafa skipstjórnarréttindi samkv. lögum frá 23. júní 1936 á skipum allt að 75 rúmlestum og hafa verið skipstjórar eða stýrimenn í fimm ár, er nefnd lög voru sett, 1946, skuli öðlast skipstjórnarréttindi á skipum allt að 85 rúmlestum. Þetta undanþáguákvæði hefur þó af auðsæilegum ástæðum æ minna gildi, eftir því sem tímar liða, og hefur trúlega nær ekkert að segja nú orðið.

Í frv. því, sem hér er til umræðu, er gert ráð fyrir, að um tiltekið árabil, 5 ár, verði nokkuð slakað á kröfum um skólagöngu þeirra, sem skipstjórn hafa með höndum á vélbátum allt að 100 rúmlestum, þannig að í stað gildandi lagakröfu um tveggja vetra nám komi ákvæði um fjögurra mánaða námskeið til undirbúnings svonefndu minna fiskimannaprófi, er þessi réttindi veiti í innanlandssiglingum.

Í annan stað er gert ráð fyrir, að bráðabirgðaákvæði þau, sem ég áður nefndi um skipstjórnarréttindi á skipum allt að 75 rúmlestum, verði rýmkuð frá 85 lestum í 100 lestir án undangengis náms.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að nám þetta sé ekki bundið við stýrimannaskólann, heldur verði horfið að því ráði að halda þar að auki tvö námskeið utan Rvíkur og verði þau til skiptis á Ísafirði, Akureyri, Neskaupstað og Vestmannaeyjum, annað hvert ár á hverjum stað. Þessi námskeið öll verði þó á vegum stýrimannaskólans.

Eins og ég áður gat um, eru nokkur minni háttar atriði á annan veg í þessu frv. en hin stjórnskipaða nefnd leggur til.

Í fyrsta lagi lagði nefndin til, að öll próf að námskeiðum loknum yrðu haldin eingöngu í stýrimannaskólanum, en í frv. er gert ráð fyrir, að þau fari fram á þeim stöðum, þar sem námskeiðin eru haldin hverju sinni.

Í öðru lagi var ekki í till. n. ákveðið, hvar námskeiðin skyldu haldin, en þeir staðir eru ákveðnir í frv. og eru hinir sömu og ákvæði voru um í lögum um stýrimannaskólann í Rvík frá 1936 varðandi hið minna fiskimannapróf.

Í þriðja lagi er svo ákveðinn sá árstími, er námskeiðin skuli haldin, og að þau skuli standa í minnst fimm mánuði, en nefndin gerði ekki till. um, að þessi atriði yrðu sérstaklega lögfest.

Engar þessar breytingar á till. nefndarinnar geta þó talizt stórvægilegar. Helzt kynnu að verða skiptar skoðanir um það, hvar prófin skuli haldin, en sýnilega er það til nokkurs hægðarauka væntanlegum nemendum, að þau séu haldin á sama stað og námskeiðin. Hefur það sjónarmið ráðið hér úrslitum, að það kynni að draga úr aðsókn að prófunum, er þau mættu hvergi fara fram nema við stýrimannaskólann. Virðist líka, að námskeiðahald úti á landi hljóti mjög að missa marks, ef nemendur þurfa samt sem áður að fara til Reykjavíkur til þess að taka prófin og líklega til nokkurrar námsdvalar að auki.

Eins og ég hef áður víkið að, eru ákvæði þessa frv. aðeins hugsuð til bráðabirgða næstu fimm ár til þess að ráða bót á vanda, sem menn vonast eftir að sé aðeins tímabundinn. Hefur ekki þótt hæfa að ákveða til frambúðar að slaka á kröfum til þekkingar skipstjórnarmanna, en hins vegar talið, að sú millileið, sem hér er lögð til að farin verði, tryggi, eins og á stendur, meira öryggi mannslífa, verðmæta og atvinnu en sú skipan, sem nú hefur um skeið viðgengizt.

Sjútvn. er öll meðmælt þessu frv. efnislega, en einstakir nm. hafa þó óbundnar hendur varðandi hugsanlegar breytingartillögur. Nefndin mun milli umræðna athuga málið enn frekar en hún hefur gert, en leggur að svo komnu til, að það verði látið ganga til 2. umr.