22.02.1957
Neðri deild: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

87. mál, fasteignaskattur

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég vil nú leyfa mér að gera grein fyrir skoðun minni á þessu frv. og afstöðu minni til þess.

Með frv. er lögð til sú breyting á l. nr. 66 frá 1921, um fasteignaskatt, að í stað þess, að í 1. gr. stendur: af öllum fasteignum í landinu sem eru ekki sérstaklega undanþegnar, skal greiða árlega af fasteignamatsverði skatt í sveitarsjóð, — þá komi í staðinn: skal heimilt að innheimta árlega af fasteignamatsverði skatt í sveitarsjóð o.s.frv. Í stað skyldu, sem er í l., á nú aðeins að koma heimild til þess að innheimta þennan skatt.

Með þessari breytingu hygg ég að álagning skattsins og innheimta hans sé gerð miklu erfiðari en hún hefur verið. Með l. frá 1954 var sveitarfélögum fenginn þessi skattstofn, sem ríkið hafði áður haft, og átti þá með þessu að létta undir við sveitarfélögin um tekjuöflun. Hefur innheimta hans verið í höndum sýslumanna og bæjarfógeta síðan eins og áður, svo sem lögin ákveða, og hafa þeir skilað skattinum til sveitarfélaganna að lokinni innheimtu, sem farið hefur fram með innheimtu annarra opinberra þinggjalda.

Nú er lagt til með þessu frv., að aðeins sé um heimild að ræða til innheimtu skattsins og sé hún í höndum oddvita og bæjarstjóra.

Nú er það svo, eins og allir þekkja, að menn eru yfirleitt lítið fyrir að láta innheimta af sér skatta, og þegar ekki er orðið nema um heimild að ræða og sú heimild er í höndum sveitarstjórna, þá býst ég við, að svo geti farið, að í sumum sveitarfélögum rísi menn upp gegn því, að heimildin sé notuð, og skattheimtan verði því ekki alls staðar framkvæmd. Gæti þá svo farið, að þessi tekjustofn yrði sveitarfélögunum til lítils eða einskis gagns.

Frv. þetta um breytingu á lögum um fasteignaskatt mun aðallega vera fram borið með það fyrir augum að létta af sýslumönnum og bæjarfógetum að reikna skattinn út og innheimta hann. Á hitt hefur ekki verið litið, að oddvitar í sveitahreppum, sem flestir eru einyrkjabændur, vinna margir hverjir störf sín, sveitarstjórnarstörfin, sem sífellt eru að verða umfangsmeiri með hverju árinu sem líður, utan venjulegs vinnutíma, ýmist á næturnar eða á helgidögum. Þeir eiga ekki gott með að bæta á sig þessu starfi, sem hlýtur að taka talsverðan tíma, því að útreikningur á skattinum breytist ár frá ári við þær breytingar, sem verða á millimati á fasteignum. Innheimtan í þeirra höndum yrði ekki heldur eins trygg og í höndum yfirvalds og auk þess fyrirhafnarmeiri.

Einnig af þessum sökum mætti búast við, að skattheimtuheimildin yrði ekki notuð og sveitarfélögin yrðu þannig af þessum tekjustofni, sem þeim þó virðist ekki veita af að hafa. Víða er það svo, að einstaklingar, sem búsettir eru utan sveitarfélagsins, eiga þar fasteignir, sem lítið eða ekki eru nytjaðar, og eru þeir tregir að borga af þeim gjöld. Hins vegar eru lögð á hreppssjóðina gjöld vegna þessara eigna. Má þar til nefna gjald til almannatrygginga, sem að ákveðnum hluta er lagt á fasteignir í hreppnum, enn fremur gjald til sýslusjóðs. Það er ómótmælanlegt, að hreppsnefndir hafa ekki eins góða möguleika til innheimtu gjalda af slíkum eignum og sýslumennirnir.

Nú hafa verið teknar í notkun hraðvirkar bókhaldsvélar, sem reikna út og skrá hina venjulegu skatta til ríkisins. Þessar vélar létta því mjög störf þeirra embættismanna ríkisins, sýslumanna og bæjarfógeta, sem þessi störf hafa haft með — höndum, og er gott um það að segja. En þá finnst mér það koma úr hörðustu átt, ef ríkisvaldið um leið þyngir störf á öðrum, í þessu tilfelli starfsmönnum sveitarstjórna, sem eru þegar ofhlaðnir verkefnum og flestir án allra hjálpargagna við þessi verk og vinna flestir fyrir svo lítil laun, að nánast má segja, að sveitarstjórnarstörf séu eins konar þegnskylduvinna.

Ég þykist vita, að tilgangurinn með þessu frv. sé fyrst og fremst sá að létta störfum af embættismönnum ríkisins, sem þeir gjarnan vilja losna við. Mér finnst sú nærgætni við þá alveg óþörf og hún muni bitna á sveitarfélögunum á þann hátt, að ég hygg, sem sízt skyldi, eins og ég þykist hafa leitt rök að.

Fyrir því er ég andvígur þessu frv. og tel, að lögin eigi að standa óbreytt.