22.02.1957
Neðri deild: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

87. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Það eru nokkur orð út af þeim athugasemdum, sem fram hafa komið frá tveimur hv. síðustu ræðumönnum.

Hv. 1. þm. Árn. segir, að ef þetta frv. verði að lögum, muni verða gert erfiðara fyrir um innheimtu skattsins í sveitum heldur en nú er, og hann segir, að það sé hætt við, að menn rísi upp og mótmæli því, að heimildin verði notuð, þannig að sveitarfélag muni missa af þessum tekjustofni.

Nú er á það að líta, að skattur samkv. þessum lögum er ákaflega lítill. Það mun vera heimilt að taka 3 af þúsundi fasteignamats landa, en ef ég man rétt 11/2 af þúsundi fasteignamatsverðs húseigna, og vegna þess, hve fasteignamatið er úrelt orðið, eru þetta ákaflega lágar upphæðir.

Þess vegna lít ég svo á, að t.d. hreppsnefndir í sveitum, sem þessir hv. ræðumenn virðast nú aðallega bera fyrir brjósti, muni yfirleitt ekki taka upp á því að nota þessa heimild, vegna þess að skatturinn er svo lágur eftir þessum lögum, að þeir muni ekki telja það svara kostnaði. Verður því oddvitum í þeim hreppum ekkert íþyngt, ef svo fer. En þess munu vera dæmi, að sveitahreppar hafi notað heimild annarra laga til að leggja á fasteignaskatta, þó að þeir séu fáir, sem það hafa gert. Ég hef heyrt, að sá hreppur, sem hv. 1. þm. Árn. er oddviti í, hafi notað þessa heimild og lagt á undanfarið einhver fasteignagjöld, m.a. miðað við þau útgjöld, sem sveitin hefur af fasteignum til sýsluvegasjóða og til almannatrygginganna. Og það er rétt hjá honum, að það tíðkast nokkuð, að menn eigi jarðir í sveitum án þess að nytja þær að ráði, og ég álit, að það sé sanngjarnt, að þeir borgi í þessu formi nokkuð til sveitarþarfa á þennan hátt. En ef það er svo, sem ég hygg að sé, að t.d. hv. 1. þm. Árn. (ÁÞ), sem mun vera oddviti í sinni sveit, leggur á og innheimtir fasteignaskatta samkv. lögunum frá 1945, þá fæ ég ekki séð, að honum sé aukið mikið erfiði með því, þó að hann og hans hreppsnefnd ákveði samkvæmt heimild í þessum lögum að hækka skattinn i heild eitthvað örlítið, við skulum segja um 10 af hundraði. Ég sé ekki, að verkið aukist neitt við álagningu og innheimtu fyrir því.

Hitt held ég að menn hljóti yfirleitt að sjá, að það eru ákaflega óhagkvæm vinnubrögð, að á sama tíma, sem innheimtumenn bæjanna eru að innkalla hjá einstaklingum gjöld af fasteignum þeirra, — en þessi fasteignaskattur mun yfir.. leitt vera lagður á samkvæmt lögunum frá 1945 í kaupstöðum, — á sama tíma og þetta gerist, séu innheimtumenn ríkisins að innheimta nokkra aura, miklu minni upphæðir, af sömu fasteignunum, og þessi lági fasteignaskattur á að renna í sama sjóðinn, viðkomandi bæjarsjóð.

Þetta eru svo fráleit vinnubrögð, að það er ástæða til að gera á þessu breytingu, og ég sé ekki, að neinum sé íþyngt með því hvað viðvíkur álagningu og innheimtu fasteignaskatta.

Mér þykir það satt að segja næsta einkennilegt, ef þeir hv. þm., sem hafa andmælt þessu frv., telja það ekki skipta máli, þó að peningum sé eytt vegna mjög óhagkvæmra vinnubragða, ef aðeins þau útgjöld lenda á ríkissjóði. Ég hafði búizt við því, að skoðanir þeirra á því máli væru öðruvísi, og ég held, að þetta hljóti að vera af því, að þeir hafi ekki nú þegar gert sér atriði málsins fullkomlega ljós.

Ég er ekki kunnugur þessari vélamenningu hér nýtilkomnu á þessu sviði, hef ekkert athugað það, en mér er sagt af þeim mönnum, sem þar um eru fróðir og hafa starfað að útreikningi gjalda með þessum vélum, að það sé ekki hægt að koma því svo fyrir að reikna út fasteignaskattinn í vélunum, heldur kosti það aukavinnu að skrifa reikninga yfir þessi gjöld.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég hef ástæðu til að taka fram út af aths., sem fram hafa komið. Mér sýnist þetta liggja svo ljóst fyrir, að það sé hagkvæmt að gera á þessu þá breytingu, sem frv. gerir ráð fyrir.