22.02.1957
Neðri deild: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

87. mál, fasteignaskattur

Jón Sigurðason:

Herra forseti. Ég hefði raunar getað fallið frá orðinu, því að hv. 2. þm. Eyf. (MJ) tók að mestu leyti fram það, sem ég hafði hugsað mér að drepa hér á. Ég vil aðeins benda á það út af því, sem hv. þm. V-Húnv. (SkG) sagði, að við, sem værum að mæla gegn þessu frv., hirtum ekkert um og það væri allt f lagi, ef útgjöldin lentu á ríkissjóði, — í því sambandi vil ég benda á, að gefnu tilefni frá honum, er hann var að tala um, að það væri óeðlilegt að innheimta sömu gjöld í tvennu lagi og eðlilegast væri, að innheimtan færi sem mest fram í einu lagi. Það er enginn vafi á því, að það væri langhagkvæmast, að innheimtan færi þannig fram, að innheimtan væri sameiginlega bæði fyrir ríki og bæjar- og hreppsfélög. Það er engum vafa bundið. Þannig ætti það að verða ódýrast. En hvað segja þá vélarnar? Hvað segja þessar almáttugu vélar, sem allt verður að snúast um? Mér skilst helzt, að það sé alls ekki leyfilegt og meira að segja að það sé mjög vafasamt, að þingið geti leyft sér að bæta við nýjum skatti, sem yrði að innheimta sérstaklega, því að vélarnar leyfðu það ekki. Ég verð að segja, að vald vélanna er orðið helzt til mikið í huga hv. þm., ef Alþingi á algerlega að dansa eftir einhverjum vélum, sem hafa verið fengnar hér og starfa.

Þetta skal ég láta nægja, því að ég hirði ekki um og sé ekki ástæðu til að taka upp þau rök, sem hér hefur verið bent á og verið færð fram af þeim, sem töluðu á undan mér, og ástæðulaust að fara að endurtaka það.